18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

115. mál, hrossasala innanlands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. frsm. (Þór. J.) var að færa rök fyrir því, að spara mætti mikið fje við hrossasöluna, ef hjeruðin sjálf sæju um rekstur hrossanna frá mörkuðunum og á útskipunarstað. Gerði hann nokkra grein fyrir þessu, með því að sundurliða þennan kostnað og benda á þá liðina, sem spara mætti á. Að vísu snerta sumir þessir liðir ekki kostnaðinn við rekstur hestanna, eins og jeg skal nú minnast á, og skal jeg þá reyna að fara fljótt yfir sögu.

Hv. frsm. (Þór. J.) talaði um tímaeyðslu markaðshaldaranna og hátt kaup rekstrarmannanna. Það var þetta atriði, sem jeg vildi geta borið mig saman um við markaðshaldarana og þess vegna mæltist jeg til, að málið yrði tekið af dagskrá, er það var hjer síðast til umræðu.

En þó að nokkrir dagar sjeu nú liðnir síðan, hefi jeg þó aðeins náð í einn markaðshaldarann, hr. Guðmund Böðvarsson. Hann var sá, er til kaupanna var sendur í Borgarfjörð og norður, og hann hefir sýnt mjer skýrslu um ferð sína, og er ekki annað að sjá en að hann hafi haldið allþjettan áfram og ferðin gengið svo fljótt og vel, að jeg tel ástæðulaust að krefjast meira af honum í þessu efni. (P. O.: Hefir hann tekið skýrslu úr Borgarfirði ?). Nei, jeg hefi ekki fengið skýrslu úr Borgarfirði, og held, að engin ástæða sje til umkvartana þar heldur, þó að menn kunni að líta mismunandi augum á það.

En viðvíkjandi þessu mismunandi kaupi rekstrarmannanna, þá get jeg gefið þær upplýsingar, að kaup margra rekstrarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslum var talsvert lægra heldur en þeirra manna, sem norður fóru, af því að þeir rjeðu sig fyrirfram fyrir lægra kaup, vegna þess, að þeir áttu eða notuðu sjer ferðina til Reykjavíkur. Var þetta að þakka lagni Eggerts í Laugardælum. Mundi kaupið að öðrum kosti hafa orðið eigi lægra. Eins er það að athuga, að kaupið sýnist nokkuð hátt vegna þess, að mennirnir, sem norður fóru, urðu að hafa 2–3 hesta, en austanmennirnir komust af með 1–2 hesta.

Þá hefir verið minst á dýrt markaðshald, geymslu, gistingu, haga o. fl. Er það satt, at þetta var alt dýrt, t. d. 50 aurar fyrir hestinn yfir nóttina á sumum stöðum. En við þessu var ekkert hægt að segja, því að grasleysi var mikið og menn sárir á högum. Geymslumannakaupið var líka hátt, kr. 2,00– 2,50 um tímann. Tóku jafnvel nágrannar hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) þetta kaup. Hefði ef til vill mátt fá menn fyrir lægra kaup, ef tími hefði ætíð verið til þess að leita að þeim.

Hvað snertir haga og gistingu, þá er ekki nema um fáa staði að ræða, því að áfangar eru nokkuð fast ákveðnir, og svo er ekki heldur um svo marga staði að ræða, sem þetta geta veitt.

Þá mintist sami hv. þm. (Þór. J.) á það, að geymslan hjer væri dýr, færi illa með hestana og væri óþörf. Mætti alveg strika yfir þennan útgjaldapóst. Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að hjá þessu væri ekki hægt að komast. Ef rekstur á hestunum er langur, verða þeir að hvíla sig áður en þeir eru fluttir út. Væri óforsvaranlegt að skipa hestunum út lúnum; veitir ekki af 2–4 daga hvíld, eftir því, hve langt þeir eru reknir og hvernig. Um þá hesta, sem að austan koma, er hjer ekki að ræða; þeir hafa komið á rjettum tíma til útflutnings.

Annars munar það miklu, hvort framskipun fer fram einungis hjer í Reykjavík eða víðar, en það eru talsverðir örðugleikar á því að hafa hana víða, því það þarf að aðgreina hestana eftir aldri, kyni og stærð, milli Englands og Danmerkur, og þurfa þá margir að vera til staðar, ef fullfermi í skip á að fást á fyrirfram tilteknum tíma.

Þá skildist mjer á hv. þm. (Þór. J.), að hann teldi það jafnvel saknæmt hjá forstöðumönnunum að safna hrossunum saman hjer við Reykjavík. En það er víst, að reynt hefir verið til þess að fá bestu hagana, sem völ var á, og hefir ekki um það verið að ræða að fá betri haga heldur en í þeim 2 nesjum, sem hrossin hafa einkum verið geymd í, Gufunesi og Geldinganesi, því að Bessastaðanes var ófáanlegt. Auk þess var notað annað land hjer í námunda við Reykjavík, og jafnvel uppi í Seljárdal, en sá ókostur hefir verið við það, að ekki verður komist hjá að hnappsetja hestana meira í ógirtum högum, svo þeir hafa í reyndinni orðið verri.

Þá vildi hv. þm. (Þór. J.) halda því fram, að hrossin hefðu sætt illri meðferð. En jeg þori að fullyrða, að forstöðumennirnir hafa lagt alt kapp á, að hrossunum liði vel og væri vel með farin, og einmitt vegna þess hefir kostnaðurinn orðið talsvert meiri. Hafa líka sárfá hross orðið eftir fyrir bilun eða skemdir; alls 5–6 hross munu hafa reynst óhæf til útflutnings 1919, en ekkert í fyrra. Dýralæknir hefir skoðað öll hrossin og kastað þeim úr, sem ekki voru útflutningshæf að lögun. Mun hann vanda það verk mjög, bæði nafns síns vegna og þess, að markaðurinn verði sem bestur. Mun hann ekki una þeim dómi, að hann hafi vanrækt skyldur sínar í þessu efni. Nokkur hross hafa farist af slysum eða veikindum eftir að þau voru keypt, en ekki hefir það orðið fyrir handvömm rekstrarmanna, heldur af hinum og þessum óviðráðanlegum orsökum.

Hvað útlit hrossanna snertir hjer, þá veit jeg vel, að það hefir ekki verið gott að holdafarinu til. Mörg hrossin voru tekin batalaus, einkum norðanlands, eða batalítil, rekin hingað og geymd svo hjer. Munu þau ekki hafa hýrgast eftir að þau voru rekin að heiman, og sum lagt af. En við þessu var ekkert hægt að gera frekar en gert var, og eigi veit jeg til, að nein kvörtun hafi komið frá kaupendum um útlit hrossanna, og enginn afsláttur gefinn þessa vegna.

Þá mintist hann á merarnar, sem kastað hefðu á leiðinni. Vakti þetta mikinn fögnuð hjer í deildinni. Jeg kannast við, að þetta mun hafa komið fyrir í einum farminum. En enga grein get jeg gert þess, hvernig þetta hefir atvikast. Guðmundur Böðvarsson, sem ekki átti hlut að máli um þær hryssur, sem hjer er um að ræða, og aldrei hefir orðið fyrir slíku í sínum hrossakaupum, sagði, að óhugsandi væri að taka fyrir það, að hryssur, sem keyptar væru, gætu verið með haustfyli, og þyrfti þá ekki nema sjóveiki eða önnur veikindi til þess, að þær ljetu. Mun þetta hafa átt sjer stað í eitt skifti. Annars gengu þessar hryssur í gegnum hendurnar á dýralækni, og get jeg hugsað, að honum líki miðlungi vel svona sögusagnir, ef þær eiga að vera til að ófrægja markaðshaldarana og hann.

Þá var sagan um hryssuna í jarðfallinu í Borgarfirði. Skildist mjer fyrst, að hún hefði drepist þar, en svo mun nú ekki hafa verið. Eru annars tildrög þessa máls þau, að á markaði, sem haldinn var á Svignaskarði 1919, kom það í ljós, að 1 hryssan, sem þar var keypt, reyndist hölt, þegar farið var að reka hana hratt. Guðm. Böðvarsson leit svo á, að hjer hefðu verið höfð svik í frammi, og skilaði hryssunni aftur, en eigandinn var farinn af markaði með borgun fyrir merina. En er til kom, neitaði hann að skila andvirðinu aftur. Stendur enn í þessu þrefi, því málaflutningsmanni var falið málið, og mun nú útlit á því, að sættir takist. Hryssan mun vera í gæslu hjá Guðm. í Svignaskarði, og mun ekkert vera hægt út á það að setja.

Þá er enn ótalið kostnaðurinn við skrifstofuhaldið, sem þm. (Þór. J.) óx mjög í augum. Er þá fyrst að geta, að maður var sendur út til þess að grenslast um hrossasölu og koma á samningum. Er ferðakostnaður hans og dvöl erlendis, á 5. þús. kr., innifólgið í þessum kostnaði. Hitt er kostnaður hjer, þar á meðal símakostnaður. Voru lengst af hafðir 2 menn, og annar þeirra allan tímann, við skrifstofuhald. Varð þessi kostnaður mun minni sökum þess, að samningar tókust við Samband samvinnufjelaganna að leggja til húsnæði, hita og ljós og að öðru leyti sjá um þetta. Sparaðist við það bæði í húsnæði og mannahaldi. Mun því ástæðulaust að gera athugasemdir við þann reikning.

Hefi jeg þá lokið að svara hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), en vil taka það fram að síðustu, að þessir menn, sem ráðnir voru til forstöðunnar, eru viðurkendir að vera ágætir hestamenn og hinir samviskusömustu menn að öllu leyti. Held jeg, að ekki sje rjett að bera sakir á þessa menn hjer, þar sem þeir eru ekki til varnar sjálfir, nema því aðeins, að fullsannaðar sjeu.

Þá skal jeg víkja að orðróm þeim, sem legið hefir á því, að mismunur hafi verið á verði hrossa þeirra, er Eggert í Laugardælum keypti, og þeim, sem Guðm. Böðvarsson keypti. Skal jeg skýra þar frá því, sem jeg veit rjettast í því máli.

Eins og kunnugt er, þá eru hrossin keypt mismunandi háu verði, eftir hæð þeirra, en auk þess er gerður stigmunur á hverju hæðastigi, eftir því, hvort hrossið er í meðallagi útlítandi að sköpulagi og öðru, eða ofan við það eða neðan. Eru því á sama hæðarstigi 3 verðflokkar, og fer það eftir mati markaðshaldara, í hvert af þessum þremur verðstigum hann setur hrossið. Verða því verðstigin miklu fleiri en hæðarstig hrossanna.

Nú hefir verið svo undanfarið, að erfitt hefir verið að fá hrossin í fyrsta eða tvo fyrstu farmana. Hafa þau á þeim tíma engum eða sáralitlum holdum verið búin að safna, og mælast því ver. Kom jafnvel til orða í fyrra að gera verðmun á hrossum, eftir því, hve nær þau voru keypt, en af því varð þó ekki.

Hefir nú Guðm. Böðvarsson skýrt mjer frá því, að sjer hafi ekki þótt sanngjarnt, er hann keypti hrossin í Borgarfirði í fyrsta farminn í fyrra, að verðleggja þau á lágstigunum, af því að þau reyndust svo rýr í mælingu, þótt þau væru vel hæf til útflutnings. Þess vegna mat hann þau hross, sem hann þá keypti, flest á hæsta stigi og ekkert á lægsta stigi.

Nú höfðu þeir Eggert og hann því miður ekki borið sig saman um þetta atriði, og af því mun stafa einhver munur á því, hvernig þeir gáfu fyrir hrossin. Þegar Guðmundur kom í Norðurland í byrjun ágústmánaðar, voru hross þar lítið farin að fitna sökum vorharðindanna. Hins vegar voru hrossin mjög góð, og sýndist honum því rjett að fylgja sömu reglu þar og í Borgarfirði. Má það vel vera, að Eggert hafi ekki tekið tillit til þessa og hafi því keypt hrossin á lægra stiginu. Um annan mun en þann getur eigi verið að ræða, og nær engri átt, að hann hafi orðið um 20 kr. til jafnaðar á hrossi, í hæsta lagi 10 kr. Eru skýrslurnar til sýnis um þetta, en annars geri jeg ekki ráð fyrir, að skipuð verði rannsóknarnefnd til að athuga þetta.

Hefi jeg þá gefið þær upplýsingar um mál þetta, sem í mínu valdi eru, og er ófáanlegur til að þrefa meira um mál þetta á þessum stað.