11.04.1921
Neðri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það hefir nú dregist talsvert lengi, að mál þetta kæmi á dagskrá til 3. umr., því athugasemdir komu nokkrar við 2. umr. frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) Nefndin hefir nú athugað þessa brtt. hv. þm., og samkvæmt till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) leitað umsagnar Verslunarráðs Íslands. Verslunarráðið hefir orðið við þeim tilmælum og sent landbn. álit sitt með brjefi dags. 2. þ. m. Verslunarráðið telur æskilegt, að hjer komist á mat á tilbúnum áburði og fóðurbæti, eins og tíðkast með erlendum þjóðum, þó að hjer sjeu ólíkir staðhættir; býst samt við, eins og nefndin, að ekki verði full not af slíku þegar í byrjun, en hefir ekki á móti því, að frv. verði að lögum.

Þetta álit Verslunarráðsins kemur heim við skoðun nefndarinnar, og leggur hún því til, að frv. nái fram að ganga með þeim breytingum, sem nefndar eru á þskj. 266. Þó býst nefndin við því, að þessi lög geti fljótlega haft meiri þýðingu en menn búast við. Að hjer þyrftu sjerstök ákvæði, er næðu til þeirra manna, sem versluðu með vörur þessar án verslunarleyfis, hefir Verslunarráðið ekkert minst á, og verður því nefndin að vera sömu skoðunar og áður um það, að slíkt sje óþarft.

Nefndin hefir leyft sjer að gera nokkurar breytingar við frv.. og eru þær framkomnar á þskj. 266.

Fyrsta brtt. er um það, að færa lágmarkið úr 500 kg. niður í 200 kg., til tryggingar fyrir sölu á tilbúnum áburði.

Um þennan tilbúna áburð er það að segja, að hann er oftast keyptur af einstökum mönnum í smáum stíl, og þá alloftast notaður til ýmsra tilrauna, svo að rjettara þótti að færa lágmarkið niður. Það er sjaldan, að einstakir menn kaupi 500 kg. í einu, en eins nauðsynlegt, að trygging sje fyrir því, að áburðurinn sje ósvikinn, þó að ekki sje keypt mikið af honum. Nefndinni var líka kunnugt um, að búnaðarfjelagsstjórnin hafði lagt til, að lágmarkið væri lægra en fram kom í stjfrv. Og þó að lágmarkið komist niður fyrir það lágmark, sem nefnt er í 2. gr., að því er snertir fóðurbæti, þá er það samt rjettmætt.

Þá er önnur brtt. við 2. gr., þar sem lagt er til, að ákveðið sje við sölu síldar hvað mikill síldarþungi sje í hverri tunnu. Þessi breyting stafar af því, að nefndinni er kunnugt um, að síld er oft seld til fóðurbætis þannig, að í ílátunum er alt að salt, og þó að það megi skoðast sem sönnun þess, að varan sje þá síður skemd, þá verður þó tiltölulega lítill þungi síldarinnar.

Þá hefir verið tekin til greina till. frá háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) um síldarkökurnar. Nefndinni var ekki kunnugt um þær áður, en hefir nú, að fengnum upplýsingum. bætt þeim inn í 2. gr.

Þá er og breyting við 6. gr. Í Þeirri grein er ákveðið hvernig skuli tekin sýnishorn, en ekki hver eigi að tilkynna það. Hefir nefndin bætt þar inn í, að seljandi annist tilkynninguna.

Þá hefir nefndin leyft sjer að breyta fyrirsögn frv. þannig, að í staðinn fyrir „fóðurbæti“ komi kjarnfóður. Þykir nefndinni það fallegra orð, enda tíðkast það víða til sveita. Af þessari breyting leiðir svo, að „fóðurbæti“ er breytt í kjarnfóður, alstaðar þar sem það kemur fyrir í frv.

Þá var mikið talað um það við 2. umr., að fella úr frv. lifrina, en nefndin sá enga ástæðu til þess. Þó erfitt sje að gefa út tryggingarskírteini fyrir gæðum hennar, er þó ekki loku fyrir það skotið, að menn geti ekki á einhvern hátt komið sjer saman um það, er stundir líða, hvernig varan eigi að vera, og reynsla seljanda og kaupanda skeri þ.ar úr. á hverju skuli byggja.

Að lokum vil jeg taka það fram, þó að nefndin hafi ekki sett það í frv., að stjórnin lætur prenta svo mikið af lögum þessum, að hún geti að minsta kosti sent 4–5 eintök í hvern hrepp, svo almenningi gefist kostur á að kynnast þeim sem best.