18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

115. mál, hrossasala innanlands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það lítur út fyrir, að hv. þm. þyki þessar umr. ekki mjög skemtilegar, sem ekki er heldur von, því þeir halda sig lítt hjer inni í salnum. Ræða mín áðan var einungis tiltölulega stutt skýrsla, og var hvergi of freklega tekið til orða, enda var það, sem jeg sagði, bygt á „facta“. Út af umræðunum síðan vil jeg minnast á eitt atriði. Það er verðmunur hrossanna eftir gæðum. Verð jeg þá að geta þess, að ef gera á verðmun eftir öðru en hæð, þá eru það markaðshaldararnir, sem verða að meta það. Til þess eru þeir meðal annars valdir. En jeg verð að telja nauðsynlegt að hafa þennan verðmun, vegna þess, að hann hvetur menn til að vanda betur til hrossa þeirra, sem út eru flutt, með kynbótum og öðru. Með nægilega miklum verðmun, bæði eftir stærð og öðrum kostum hrossanna, munum við fá komið til leiðar mestum framförum í hrossaræktinni.

Það mun aftur á móti vera satt, að ef tveir menn framkvæma kaup hrossanna eða fleiri, þá mun þeim aldrei bera alveg saman um útlit þeirra, ef farið er eftir öðru en hæð. En ef ágreiningur á að verða eftir á út af mismunandi áliti þessara manna og heljarrekistefna, þá er ekki um annað að gera en að hætta við að mismuna eftir gæðum hrossanna og láta hæðina eina skera úr um mismun verðs. En þá er sú hvöt töpuð hjá mönnum að hafa hross sín sem fallegust.

Mjer þótti hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) taka vel í málið. Hann vildi ekki ýta undir það að skifta skaðabótum milli Sunnlendinga. Enda tekur stjórnin ekki á móti áskorun í þá átt.

Þá var minst á kaupgjald markaðshaldaranna. Það er satt, að kaup þeirra var talsvert mikið. En útflutningsnefnd sóttist eftir þessum mönnum. Það varð að taka þá frá góðri atvinnu, og alt sumarið gekk í þetta fyrir þeim. Menn hafa líka haft talsvert ríflegar tekjur undanfarin ár, þeir sem færir hafa verið um að reka vandasöm viðskifti.

Jeg verð að mótmæla því, sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði, að afskifti stjórnarinnar hefðu komið alt of seint. Jeg hefi fært rök fyrir því, að ekki var hægt að skifta sjer fyr af málinu en gert var.

Einnig var það rangt hjá hv. þm. (Gunn. S.), að S. í. S. hefði tekið málið í sínar hendur. Það var jeg, sem fjekk S. í. S. og Sláturfjelagið til að skifta sjer af málinu, og S. í. S. til að senda mann utan.

Þá var það eitt atriði hjá hv. frsm. (Þór. J.). Honum þótti það of langur tími fyrir Guðmund Böðvarsson að hafa 5 daga til að reka hrossin hingað suður. Jeg get gefið nánari skýrslu um það. Fyrsta daginn komst hann að Staðarhóli. Þar þurfti hann að láta járna 50 hross, sem þá voru orðin berfætt. Einnig hafði hann miklar tafir af því, að brúin á Hvítá í Borgarfirði var ónýt, svo það þurfti að sundleggja öll hrossin. Ferðin gat því ekki styttri orðið, af því að hann fylgdi hrossunum.

Hv. frsm. (Þór. J.) mintist og á það, að jeg hefði tekið mjer þetta alt of nærri, Jú, það er satt, jeg tók mjer þetta nærri, en jeg tek mjer það æfinlega nærri, þegar hallað er á starfsmenn mína og skjólstæðinga, og jeg veit, að þeir hafa unnið verk sitt vel og samviskusamlega.

Læt jeg svo máli mínu lokið að sinni.