18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

115. mál, hrossasala innanlands

Eiríkur Einarsson:

Jeg ætlaði ekki að blanda mjer inn í þessar umræður. En jeg verð að gera stutta athugasemd út af ágreiningi hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) um það, hvort halda eigi til streitu skaðabótakröfu vegna verðmunar á hrossum sunnanlands og norðan. Það er ekki af því, að jeg telji mig þess umkominn eða vilji gerast nokkur oddamaður milli samþm. míns (Þorl. G.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). En jeg vil, að skoðun mín í málinu sje vitanleg, að jeg tel sjálfsagt, að leitað verði endurgreiðslu vegna þessa misrjettis, er má telja sannað; það er óþolandi fyrir hvaða hjerað sem er að þola slíkt bótalaust. Vil jeg þar leggja áherslu á ummæli hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) þar að lútandi. Ætti engum að vera kærara en hæstv. stjórn að færa þetta til leiðrjettingar og útvega Sunnlendingum endurgreiðsluna, hvort sem það er úr hrossasölusjóði eða á annan tiltækilegan hátt. Það er stjórnin, sem þarna stendur fyrir verslun og er auðvitað ant um, að enginn sje misrjetti beittur. Til þess hefir hún með höndum skýrslur um hrossasöluna, að hægt sje að hafa yfirlit yfir, hvort alt fari rjett og skipulega fram, og leið rjetta, ef út af ber. Hjer hafa skýrslurnar sannað misrjetti, er verður að leiðrjettast með endurgreiðslu til þeirra, er skaða hafa beðið.

Að öðru leyti skal jeg ekki fara út í málið, en jeg vænti þess, að till. landbúnaðarnefndar verði samþ., þó ekki væri til annars en að fyrirbyggja tortrygni og óánægju í málinu, er mjög hefir orðið vart, en líklegt, að slíkt lagaðist, ef hjeruðin fá sjálf málið í hendurnar að nokkru leyti.