18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

124. mál, rannsókn á sölu íslenskra landbúnaðarafurða

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg stend nú eiginlega upp til málamynda, að öðru leyti en því, að jeg get látið í ljós þakklæti mitt til hv. frsm. (J. S ) fyrir hina skörulegu greinargerð, er hann ljet fylgja till. sinni. Ef til vill geri jeg mjer ekki eins háar vonir um rannsókn þessa, en ímynda mjer hins vegar, að rjett sje að gera tilraun nokkra.

Annars þarf jeg ekki að gera svo sem neinar athugasemdir.

Hv. frsm. (J. S.) drap á, að mat á ull hefði reynst óábyggilegt, og er það hverju orði sannara. Þó er tvær afsakanir fram að bera í því efni. í fyrsta lagi er mat á vörum ætíð ófullkomið í byrjun, og hjer var ástandið misjafnt hvað verkun hennar snerti. Sumstaðar var þvottur hennar vandaður, en annars staðar var hann slæmur og lítið til hans vandað. Einnig mætti nefna í þessu sambandi, að ullarfarið er misjafnt í hinum ýmsu hjeruðum landsins. Er því skiljanlegt, að erfitt sje að koma á samræmilegu ullarmati þegar svona stendur á. þó hygg jeg, að nokkuð hafi miðað í áttina til meira samræmis en áður var.

Í öðru lagi er það truflun sú, sem komst á ullarmarkaðinn þegar stríðið skall yfir, eins og hv. frsm. (J. S.) drap lítilsháttar á. Áður fór ullin að mestu leyti til Englands, en síðar til Ameríku. En nú á seinni árum hefir ekki verið hægt að selja hana til Englands eða Ameríku, og hefir því mestur hluti hennar lent á meginlandi Norðurálfunnar. Væri því næst að rannsaka, hvernig henni væri tekið þar og hvernig hún líkaði, og hverjar kröfur þar gerðar.

Hv. frsm. (J. S.) sagði, að kjötsöltun okkar væri úrelt aðferð. Mjer finst við tæplega megum taka svo til orða. Að vísu eru til fleiri aðferðir til þess að geyma kjötið á löngum flutningum, t. d. frysting, en jeg held, að hún taki ekki söltuninni mikið fram. Söltunin er því ekki öllu úreltari en frystingin, og frysting er svo dýr aðferð, að hún mun ekki hæfa fyrir eins dýrt kjöt og hjer er á Íslandi.

Jeg geri ráð fyrir, að ekki saki, þó að saltkjötið sje ekki tekið með hjer í þessari till., því samband samvinnufjelaganna hefir tekið að sjer að rannsaka það mál, því að tilraunir, sem komnar voru vel á veg, hafa að nokkru truflast í stríðinu. Markaðurinn fluttist frá Danmörku til Noregs vegna verslunarhindrunar. í Noregi hefir það þó reynst svo, að íslenskt saltkjöt hefir verið tekið fram yfir annað saltkjöt, sem þar hefir verið á boðstólum. En á það ber einnig að líta, að mikið af því kjöti, sem út hefir verið flutt, er slæmt kjöt, mikið af því af mylkum ám og ljelegum lömbum, en reynist þó ljúffengt þegar söltunin er í lagi.

Jeg er sammála hv. frsm. (J. S.), að erfitt sje að flytja út fryst kjöt. Enda hefir það reynst svo, að ekki er um trygt verð að ræða fyrir þá vöru. Framleiðslan er dýr og kostnaðurinn við það langtum meiri en við söltunina, og markaðurinn ekki þeim mun betri nje tryggari.

Þá er það útflutningur lifandi fjár, og er því síst að neita, að það er mikilsvert atriði, ef frjáls útflutningur fengist til Englands, svo að fjeð gæti jafnað sig og tekið bata þar eftir ferðina, eins og var í gamla daga. Það er rjett og eðlilegt, að verið sje á verði um þetta mál, þótt búast megi við, að það sje örðugt, því vitanlega er fjeð ekki eins gott til útflutnings og áður. Á meðan við áttum 2–3 vetra sauði, þá var það kleift að hafa sæmilegt útflutningsfje, en síðan sauðirnir hurfu eru örðugleikarnir meiri, því þá þarf að koma því upp. Þá er áríðandi, að fjeð sje heilbrigt, svo að ekki þurfi að setja það í sóttkví. Jeg er nú samt hræddur um, að við þeim höftum megi búast áfram, þótt ekki sje nema af yfirskinsástæðum, til verndar fyrir enskan landbúnað.

Viðvíkjandi hestasölu til Svíþjóðar, þá er það kostnaðarlítið að rannsaka það mál, úr því að stjórnin hefir nú söluna með höndum. Eins og stendur eru slæmar horfur fyrir markað í Englandi, og geri jeg því ráð fyrir, að hestasölunefndin taki þetta mál til athugunar í sambandi við hestasöluna.

Mjer finst rjett, að till. þessi nái fram að ganga, en vil þó taka það fram fyrir hönd stjórnarinnar, að ekki er úr miklu fje að spila til dýrra sendiferða eða rannsókna, eins og þinginu er kunnugt, en stjórnin mun að sjálfsögðu reyna að haga þessu eftir því, sem hún hefir best vit á.