20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

144. mál, héraðsskóli o. fl.

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það, sem fyrir mjer vakir, er jeg kem fram með þessa þál., er hreyfing sú, sem nú er að rísa í sveitunum og miðar að því að koma á stofn hjeraðaskólum, er taki við fræðslu unglinga eftir ferminguna. Mjer er kunnugt um, að í Suðurlandssveitunum er mikill áhugi fyrir þessu máli og farið að safna fje í þeim tilgangi. En það er erfitt að koma slíkum fyrirtækjum á stofn án drjúgs styrks frá landssjóðs hálfu. Jeg ber því fram till. til þess að heyra álit deildarinnar á þessu, hvort hún telur þetta góð fyrirtæki og þarfleg og vilji stuðla að þeim.

Um annað atriðið í þessari þál., að viðleitni til barnafræðslu á heimilum verði studd og efld, skal jeg geta þess, að það er ekki af mínum völdum þar komið, þótt jeg sje fyllilega sammála því. Það var annar háttv. þm., sem átti frumkvæðið að þessu, og mun hann mæla fyrir því, ef honum virðist svo.

Eina hugsanlega mótbáran, sem komið gæti í þessu máli, hygg jeg vera þá, að önnur till. sje fyrir, sem stefni í sama horfið, en það er till. frá 1919 um fræðslumál. En þar er aðeins gert ráð fyrir fræðilegri rannsókn, en hjer er spurt, hvort þingið sje hlynt og vilji stuðla að því, að hið opinbera komi slíkum skólum á. Það er því sýnilegt, að okkar till. á ekkert skylt við till. frá 1919, og vænti jeg, að hv. deild samþ. hana án langra umr.