03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3513)

121. mál, ullariðnaður

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Till. sú, sem jeg ber hjer fram, er af sama toga spunnin og önnur þingsályktunartillaga, sem jeg var flutningsmaður að á aukaþinginu í fyrra vetur, og náði fram að ganga hjer í hv. deild. Sú till. var einungis hvatningarorð til landsstjórnarinnar, þess efnis, að styðja ullariðnað í landinu, en hjer er farið lengra og gerðar till. um nauðsynlegar rannsóknir og undirbúning, svo að þessu mikla nauðsynjamáli verði sem fyrst hrundið í framkvæmd. Að öðru leyti hefir mál þetta eigi verið rætt nje undirbúið hjer á þinginu, og sýnir það best, hve mikil deyfð er oft og einatt, er nauðsynjamálin eiga í hlut, í samanburði við það umræðumagn, er oft á sjer stað um hið einskisverða.

En að einu leytinu hefir ullariðnaðarmálið fengið mikilsverðan undirbúning. Það er vitanlegt, að alþjóð manna er það áhugamál, og víða í hjeruðum rætt um það sem brýna og aðkallandi nauðsyn. Spurningin um, hvort hafist skuli handa í þessum efnum, er því fyrir mörgum í rauninni hið sama og spurningin um það, hvort fremur eigi að leitast við að vera sjálfbjarga eða láta alt drasla eins og það er, sem er að verða bjargleysisástand. Með hversdagslegum orðatiltækjum er hjer spurt að, hvort við eigum að duga eða drepast.

Þessi nauðsyn ætti líka að skýrast fyrir okkur Íslendingum, er við gætum þess, hvert kapp allar menningarþjóðir leggja nú á það, að vera sjálfum sjer nógar, bjargast sem mest með sína eigin framleiðslu og forðast mest kaup á útlendum varningi. Ættu gjaldeyrisvandræðin, sem hjer er nú við að búa, að vera manni þar til áminningar. Það ætti og á engan hátt að verða til þess að draga úr áhuga okkar í ullariðnaðarmálinu, þótt ullin falli í verði og vefnaðarvörur þá jafnvel líka. Nei, það ætti að auka áhugann til að tryggja okkur not svo dýrmætrar vöru, sem ullin er, tryggja okkur hana til eigin nota.

Jeg tel þýðingarlítið að benda á dæmi um þá meðferð, er ull okkar sætir nú. Það vita allir, að við verjum henni illa. Skal jeg þó til lítilsháttar skýringar í þessu efni geta þess, að árið 1918 var útflutt ull 941905 kg. að þyngd, en aðfluttar vefnaðarvörur námu það sama ár 5.222.595 krónum. Hefi jeg þetta eftir verslunarskýrslunum, hvort sem öll kurl koma þar til grafar. Skal jeg geta þess, að alt vefnaðarvöruefni, svo sem garn o. s. frv., er fluttist til landsins hið sama ár og nam mörg hundruð þúsundum kr., er eigi talið með í fyrnefndri upphæð. Ef við nú gerðum ráð fyrir, að í stað hinnar útlendu vefnaðarvöru væru unnir í landinu sjálfu dúkar, er svöruðu rúmlega til eins klæðnaðar handa hverjum landsmanni, kæmi þar fram sparnaður, er næmi fleiri miljónum króna. Kemur þetta í ljós við samanburð á verðlagi dúka frá verksmiðjunum á Álafossi og Glerá annars vegar en útlendum efnum hins vegar.

Eins og jeg drap áður á, hefir lítill áhugi eða viðleitni komið fram á þingi, er miði að því að koma ullariðnaðinum á rekspöl. Hins vil jeg geta, hv. þm. til lofs, áð þeir hafa játað nauðsyn þessa iðnaðar með því að heita þeim tilstyrk, er þegar hafa komið verksmiðjum á stofn. Er í því sambandi nóg að geta þess erindis, sem nú er fyrir þinginu frá eigendum Álafossverksmiðjunnar og lýtur að lántökuhjálp. Hefir þessi háttv. deild heitið þar tilstyrk, og tel jeg það rjett, er um svo gott mál er að ræða í í höndum svo áhugasamra manna.

En þetta er ekki nóg. Álafoss og Gefjun fullnægja ekki þörfinni. Hjer þarf að hefjast handa til iðnaðar í stórum stíl, er verði sameiginlegt mál allra Íslendinga. Þess vegna þarf að undirbúa málið og koma því í framkvæmd, þótt það verði ekki alt í einu, á þeim grundvelli, sem ekki sje neitt handahóf. Þar getum við einmitt lært af nágrannaþjóðunum og fært okkur þekkingu þeirra í nyt. Að þessum undirbúningi miða tillögur mínar, þær er hjer liggja fyrir þingdeildinni. Vakir þar fyrir mjer, að nauðsynlegt sje að byrja með því að afla upplýsinga með rannsókn þeirra, er hafa vit á, hvar og hvernig best muni að hefjast handa. Gerðar sjeu tillögur um nauðsynlegar byggingar og vjelaútvegun, og sjest best, hvað tiltækilegt er að framkvæma, þegar eitthvert yfirlit er fengið. Fyrir þessum rannsóknum á landsstjórnin að beita sjer og flýta þeim eftir því, sem hægt verður.

Þegar um þetta er rætt, er þess gætandi, að aldrei mundi fremur en nú auðvelt að fá ódýra menn til að framkvæma rannsóknirnar; það er vegna atvinnuleysisins, sem nú á sjer stað í slíkum verksmiðjum víða um lönd, t. d. í Þýskalandi. Mjer er og kunnugt um það frá Noregi, er jeg var þar á ferð fyrri partinn í vetur, að auðvelt mun vera að fá þaðan tilstyrk í þessum efnum. Veit jeg t. d. af dúkagerðarverksmiðju í Kristjaníu, er hefir nýlega fengið stóra vefstóla og aðrar vjelar, og vill því selja ódýru verði það, sem fyrir var og eigi var að sjá, að úr sjer væri gengið, að öðru leyti en því, að vera of lítið við þeirra þarfir. Einnig komst jeg þar að því hjá stjórnvöldum, að auðsótt mundi verða að fá aðstoð og liðsinni þaðan til að hrinda slíku máli í framkvæmd hjer. Við megum ekki láta góð tækifæri ónotuð.

Þótt alt það yrði nú rannsakað, sem till. mín gerir ráð fyrir, er auðsætt, að ekki yrði öllu komið í framkvæmd á einum degi. Jeg geri líka ráð fyrir, að byrjað sje þar, sem verkefnin eru best fyrir hendi og geri jafnframt ráð fyrir ullariðnaði í smærri stíl, svo sem lopa- eða kembingarvjelum, er nauðsynlega þyrfti að hraða þar, sem best þykir henta, og mundu þær verksmiðjur mjög hentugar í sambandi við heimilisiðnaðinn, eins og hann yrði nú best framkvæmdur.

Þá vil jeg geta þess, að engan má hræða frá að vilja undirbúa þetta mál, með því, að það sje svo dýrt. Ef við erum svo fátækir, að við stöndumst ekki kostnað til viðreisnarúrræða, þá eigum við ekki viðreisnarvon.

Loks skal jeg geta þess, að tillögur þær, sem jeg geri til þess, að einnig verði rannsökuð aðstaða til sútunar og skinnaverkunar, eru meir til þess að hreyfa því máli, sem einnig er merkilegt og verðskuldar athugun, en til hins, að jeg geti vænst þess, að því verði svo fljótt hrundið í framkvæmd, sem ullariðnaðinum. En athugunin á ekki að þurfa að vera svo dýr og getur komið að notum.

Annars mun jeg við aðra umr. gera nánar grein fyrir till. eftir því, sem tilefni gefst til. Geri jeg ráð fyrir, að henni verði vísað til nefndar til athugunar, sem má vel vera.