11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

121. mál, ullariðnaður

Frsm. (Björn Hallsson):

Það er að vísu ekki mikið, sem ber á milli, en þó dálítið.

Jeg get ekki fallist á, að um misskilning sje að ræða hjá nefndinni; held, að hans megi fremur leita hjá hv. flm. (E. E.). Það getur ekki orðið auðvelt að reikna, hvað verksmiðjur kosti á ákveðnum stað, án allrar rannsóknar. Hjer liggur því fyrir nýtt rannsóknarefni, er mun kosta allmikið fje.

Þá vil jeg aðeins minnast á brtt. á þskj. 557. Hv. frsm. (E. E.) tók það að vísu fram um fyrri brtt., sem á við 2. lið till., að hann ætlaðist ekki til, að rannsókn stærri vjela sitji í fyrirrúmi fyrir hinum smærri. En við framkvæmd málsins mun meira verða farið eftir þeim till., sem samþ. hafa verið en eftir umræðunum. Nefndin mun því tæpast geta fallist á þessa fyrri brtt. eins og hún er orðuð, því hún telur einmitt mest um vert, að rannsakaðar verði tóvinnuvjelarnar. Ef brtt. hefði átt við 1. lið till. eða bæði 1. og 2. lið, þá mundi nefndin að líkindum hafa fallist á hana. Á 2. brtt. get jeg fallist fyrir mitt leyti.

Annars vil jeg geta þess, að jeg get hjer ekki skýrt frá afstöðu nefndarinnar til þessara brtt. Hún hefir ekki rætt þær.