11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3527)

121. mál, ullariðnaður

Eiríkur Einarsson:

Fyrri brtt. mín er fram komin af þeirri ástæðu, að till. eins og hún kemur frá landbn. er þannig orðuð, að um 1. lið er gert ráð fyrir, að rannsóknin fari fram í þeim sýslufjelögum, er æski þess, og er það rjett. En um 2. lið er þetta ekki tekið fram, heldur á sú rannsókn fram að fara hvort sem hjeruðin æskja þess eða eigi, eftir orðalaginu að dæma. Jeg vildi jafna þetta þannig, að sömu væru ákvæðin að því er snertir báða liðina, og sje jeg ekki, að það geti skaðað 1. lið á nokkurn hátt.

Hitt get jeg endurtekið, að jeg er sammála hv. frsm. (B. H.) um það, að lopa- og kembingarverksmiðjur eigi að vera undirstaðan og að þeim verði flýtt sem allra mest. Kostnaðurinn við það að koma þeim á fót ætti að verða minni en við klæðaverksmiðjumar, og ættu þær því að eiga auðveldara uppdráttar. En klæðaverksmiðjumálið er ekki síður nauðsynlegt, og margir, sem hafa áhuga fyrir því máli, svo hvorugt má tefja fyrir öðru, eftir því, sem áhugi og efni leyfa framgang þessara nytsemdafyrirtækja.