26.02.1921
Efri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3549)

53. mál, nefnd til að rannsaka orsakir fjárkreppu bankanna

Flm. (Björn Kristjánsson):

Eins og hv. deild er kunnugt, hefir nú fjárkreppan staðið í fult ár. Fjárkreppa þessi kom flestum á óvart, sem athugað höfðu fjárhagsaðstöðu bankanna styrjaldarárin. Slík bankafjárkreppa hefir ekki komið fyrir í bönkum Norðurlanda, jafnvel þótt þau lönd hafi ekki haft helminginn út að flytja á móti því, sem inn var flutt. Menn tóku fjárkreppunni rólega í fyrstu og gerðu sjer vonir um, að úr henni myndi greiðast með haustinu. Og menn styrktust ekki lítið í þessari trú, þegar menn sáu í Morgunblaðinu 25. ágúst 1920 áætlun Landsbankastjórnarinnar um fjárhagshorfumar, er bankastjóri L. Kaaber skýrir þar frá. Bankinn gerir ráð fyrir, að afurðir landsins sjeu eigi minni en 50–60 miljónir króna, og að bankarnir báðir skuldi í mesta lagi 17 miljónir króna og einstakir menn 7–8 miljónir kr., eða samtals 25 miljónir kr. Vjer hefðum samkvæmt þessu átt að hafa 25–35 miljónir til að flytja út umfram skuldir erlendis. Enn fremur segir bankastjórnin, að í landinu sjeu miklar birgðir af allskonar vörum, t. d. kolum, rúgmjöli, kaffi og vefnaðarvörum, sem sjeu óeyddar, og muni flestar þeirra vera borgaðar.

Hagur landsins var eftir þessu glæsilegur. Reyndar bar þar nokkurn skugga á, þar sem bankastjórnin segir í sömu grein um Íslandsbanka: „En hann hefir enn fremur bundið alt það fje og alt það lánstraust, sem hann hefir getað fengið er1endis, án tillits til þeirrar skyldu, sem hvílir á honum sem seðlabanka, sem er að geta ávalt útvegað verðgildi fyrir seðla sína, danskar krónur.“ Og enn fremur segir bankastjórnin:

„Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir þessari staðreynd, já, það er óforsvaranlegt að leitast við að breiða yfir hana lengur.“

Skuggi þessi hvarf alveg úr hugum manna, hann druknaði í stóru tölunum, er jeg hefi nefnt, og því meir fyrir þá sök, að bankastjórinn endurtók þessa áætlun í enskum blöðum, sem skýrt var hjer frá síðar í blöðunum. Menn treystu því, að þessi áætlun væri á rökum bygð. Og loksins styrktist trú manna á þessu við umsögn fjármálaráðherrans um fjármálaástandið, er hann kom úr utanför sinni. En hans álit var bygt á áliti bankanna.

En allir sjá nú orðið, á hve litlum rökum þessir útreikningar bankanna boru bygðir, sem orsakaði, að menn hjeldu áfram að „spekúlera“, að sökkva dýpra og dýpra.

Nú er farið að líða á febrúar, og altaf harðnar fjárkreppa bankanna. Ýmsir kaupmenn ætluðu að sigla með „Íslandi“ síðast, en urðu frá að hverfa, fengu ekkert innflutningsleyfi og enga peninga flutta.

Fjárkreppan er því miklu alvarlegri en menn hafa haldið. Enginn veit neinn botn í henni, sennilega ekki bankarnir sjálfir.

Það er því nauðsynlegt, að þingið geri sjer sem fyrst ljóst, hvað fjárkreppan er umfangsmikil. Fyr en það er sjeð eru engin ráð til að bjarga. Og eins verður þingið að vita um, hvort fjárkreppan stafar af eðlilegum orsökum, sem stjórn bankanna gat ekki sjeð fyrir, eða ekki er hægt að ætlast til, að þeir sæju fyrir, eða af því, að þeir hafi farið óafsakanlega gálauslega með fjeð. Sje sú raunin á, hvað hefði þá að þýða að fá þeim meira fje í hendur, án frekara eftirlits en verið hefir?

þess vegna ríður nú á:

1. að grafast fyrir um orsakirnar.

2. að reyna að bæta úr fjárkreppunni, og

3. að reyna að fyrirbyggja, að fjárkreppa komi fyrir aftur af sömu orsökum og þessi.

Að öðru leyti vísa jeg til ástæðnanna fyrir till., sem eiga ekki að merkja annað eða meira en framhald af því, sem jeg hefi áður talað og ritað um bankamálið, utan þings og innan.