02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

40. mál, póstlög

Frsm. (Jakob Möller):

Fjárhagsnefnd flytur nokkrar brtt. við frv. þetta, eins og háttv. þdm. sjá, og hefir mjer verið falið að gera nokkra grein fyrir þeim.

Eins og háttv. deildarmenn hafa sjeð, er þeir hafa kynt sjer frv., þá er þar farið fram á talsverða hækkun á burðargjöldum öllum, frá því, sem nú er, þ. e. tvöföldun í flestum greinum, og meira.

Nefndinni dylst það ekki, að full þörf sje fyrir að hækka gjöldin, því að útgjöldin við póstflutningana hafa vaxið gífurlega síðustu ár.

Árið 1918 voru útgjöldin 167 þús., en tekjur 185 þús., 1919 voru útgjöldin 200 þús., en tekjur 212 þús., 1920 gjöld 424 þús., en tekjur 278 þús. 1916 og 1917 var hlutfallið líkt og tvö fyrri árin, en aðalhækkun gjaldanna hefir orðið á síðasta ári, sem stafar af hækkuðum launum og dýrtíðaruppbótum.

Það má nú vitaskuld gera ráð fyrir því, að þetta færist saman aftur, smátt og smátt, eftir því sem dýrtíð minkar í landinu. Og meðfram í þeirri von gat nefndin ekki fallist á svo mikla hækkun burðargjaldanna sem stjórnarfrv. fer fram á, að minsta kosti ekki svona alt í einu.

Nefndin áleit t. d. sjerstaklega varhugavert, að svo stöddu, að hækka svo mjög burðargjald fyrir almenn brjef; hún taldi vafasamt, að svo mikil hækkun gæti náð tilgangi sínum, vegna þess, að hún gæti valdið því, að mjög mikið kipti úr öllum brjefasendingum, en sem stendur er burðargjald almennu brjefanna einmitt drýgsta tekjulind póstsjóðsins. En í öðru lagi þótti nefndinni, eins og drepið er á í nál., óviðkunnanlegt, að burðargjaldið sje hærra innanlands en til útlanda. Og rjett er að geta þess, að póstmeistari hefir fallist á tillögu nefndarinnar um lækkun á þessum gjöldum.

1. brtt. er aðeins orðabreyting, og þarf því ekkert um hana að tala.

brtt., sem jeg get helst búist við, að ágreiningur verði um, er till. um að halda óbreyttu burðargjaldi blaða og tímarita. Um þetta var þó enginn ágreiningur í nefndinni. — Það verður að viðurkenna það, að blöðum og tímaritum hefir að undanförnu verið ívilnað mjög mikið í burðargjöldum, og jeg verð að líta svo á, að sú gífurlega hækkun á þeim burðargjöldum, sem farið er fram á í frv., brjóti alveg í bág við stefnu þingsins að undanförnu. — Það mætti nú, ef til vill, segja, að það „kæmi vel á vondan“, að það skyldi lenda á mjer að mæla á móti þessari hækkun. En jeg geri það þó óhikað, bæði vegna þess, að jeg veit, ef til vill betur en flestir aðrir þm., hve lítill gróðavegur blaða- og tímaritaútgáfa er hjer á landi, yfirleitt, en á hinn bóginn snertir þetta mál miklu minna mig og minn hag en annara blaðaútgefenda.

Hækkun sú á þessum burðargjöldum, sem farið er fram á í frv., nemur að meðaltali 150%, og mundi hún því verka beinlínis sem þungur skattur á þau blöð, sem mikið er sent af út um landið. Mundi þessi „skattur“ t. d. nema alt að 4000 kr. á þeim vikublöðunum, sem útbreiddust eru, og geta allir sjeð, að ekki meiri stórgróðafyrirtæki muni um minna muna.

Víða í öðrum löndum hafa póstafgreiðslur á hendi útsölu og innheimtu alla fyrir blöðin, þannig, að heita má, að póstsjóður ábyrgist greiðslu andvirðis þeirra. Þetta er blöðunum afarmikils virði, og þó er gjaldið, sem þau þurfa að greiða fyrir þetta, hverfandi. Þessu fyrirkomulagi verður tæplega við komið hjer á landi, sakir strjálbygðar. Hjer verður því ekki um það að ræða að ívilna blöðunum á annan hátt en með lágu burðargjaldi, og vill nefndin því eindregið mæla með því, að það verði gert framvegis sem hingað til, og það, meðfram, líka fyrir þá sök, að póstsjóð getur hvort sem er aldrei munað það miklu, þó að burðargjöld þessi verði hækkuð, jafnvél þó að um tilfinnanlega hækkun sje að ræða fyrir blöðin. Mjer telst svo til, að á hækkun þeirri, sem frv. fer fram á, mundi póstsjóður græða um 15 þús. á ári, miðað við tekjur hans árið 1918–19; er það raunar eins og ,dropi í hafinu', miðað við útgjöld hans. — Þá má líka benda á það, að í raun rjettri ætti þetta að koma öllum almenningi til góða.

Flestir menn á landinu kaupa blöð, og ef flutningsgjald yrði hækkað, þá mundi halli verða á blaðaútgáfu, og ættu þá kaupendur að borga þeim mun meira fyrir blöðin, því vitanlega væri ekki annað fyrir blöðin að gera en hækka verðið að sama skapi.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta.

Jeg geri ráð fyrir því, að mönnum kunni að virðast undarleg sú tillaga póstmeistara, að burðargjald fyrir símapóstávísanir skuli vera helmingi hærra en fyrir almennar ávísanir, og skal jeg geta þess, að nefndin átti líka bágt með að fella sig við það, þó að hún hafi ekki flutt neina brtt. þar að lútandi. Póstmeistari færir þá ástæðu fyrir þessu, að póstsjóður hafi tapað á þessum ávísunum, sakir misritana á ávísanaupphæðunum, og færir líkur fyrir því, að slíkt tap geti orðið tilfinnanlegt póstsjóði. Nefndin á að vísu bágt með að fallast á það, að ekki ætti að vera kleift að koma í veg fyrir slíkar misritanir, en vildi þó láta þetta hlutlaust fyrir sitt leyti. — Þá aðra ástæðu færði póstmeistari líka fyrir því, að sanngjarnt væri að gera þennan mun á símaávísunum og öðrum póstávísunum, að póstsjóður fengi töluverða vexti af öðru póstávísanafje, áður en það væri borgað út aftur, en símapóstávísanir yrði að greiða svo að segja samstundis. Annars geri jeg ekki ráð fyrir, að nefndin mundi leggjast fast á móti brtt. um þetta atriði, sem vel gæti komið frá einhverjum háttv. þm. til 3. umr.

Jeg held, að það sje svo ekki fleira, sem fram þarf að taka, og vil jeg ekki vera að tefja tímann með því að fara nánar út í einstakar greinar frv. eða aðrar smávægilegri brtt. nefndarinnar, sem háttv. þdm. fyrirhafnarlítið geta áttað sig á.

Það er rjett að láta hækkunina á burðargjöldunum ganga í gildi sem fyrst, en hins vegar verður að hafa hæfilegan fyrirvara til þess að tilkynna hana út um land, og hefir nefndin orðið að breyta því ákvæði frv.