02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

40. mál, póstlög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg held, að jeg hafi engar athugasemdir að gera við brtt. nefndarinnar, nema eitt atriði. Jeg held, að hinar einstöku brtt. sjeu ekki verulegar nema á einum stað, ekki síst, hafi það verið með samkomulagi við aðalpóstmeistara að lækka burðargjald fyrir almenn brjef. — Það er tillagan um, að fella alveg niður burðargjaldshækkunina á blöðum og tímaritum. Jeg hefi ögn kynt mjer, hve miklu póstgjöldin fyrir blöð og tímarit hafa numið 1920, og er það um 20 þús. kr. Ef borgað væri undir sama þunga af blöðum og tímaritum eftir tillögum stjfrv., þá næmi það 48 þús. kr. Mismunurinn yrði því 28 þús. kr. tekjuauki, sem gera mætti sjer von um eftir frv. Að vísu mætti þó búast við, að meira mundi verða sent af blöðum sem bögglasendingar með skipum, og yrðu þá tekjurnar eitthvað minni, en flutningskostnaður þá einnig minni fyrir póstsjóðinn.

Það er auðvitað á valdi þingsins að gefa blöðunum áfram hina afarmiklu ívilnun í burðargjaldi. Allur flutningskostnaður hefir margfaldast síðan flutningsgjald það, sem nú gildir, var sett. Stjórnin vildi hækka burðargjald blaða nokkuð í samræmi við önnur burðargjöld. Auk þess hygg jeg, að með hinum lágu gjöldum muni menn minna hlífast við að senda blöðin landveg heldur en í bögglum með skipum. Það hefir komið fyrir það tilfelli, að t. d. heill hestburður af Morgunblaðinu hefir verið fluttur landveg í verstu færð, alla leið frá Norðfirði til Skagafjarðar og Húnavatnssýslu. (M. P.: Póstskipin koma á Sauðárkrók). Það stóð þá sjerstaklega á; það var þá sjómannaverkfall í Danmörku, og skipið, sem átti að koma, og fara norður um land, kom ekki. En líkt gæti líka komið fyrir af öðrum ástæðum.

Jeg hefi nú gert grein fyrir, hverju það nemur fyrir tekjur póstsjóðsins að fella niður burðargjaldshækkun þessa. En stjórnin gerir hana ekki að neinu kappsmáli, enda þótt blöðin sjeu henni yfirleitt lítt sinnuð. Þingið veit sennilega, hvað það gerir, ef það vill ívilna blöðunum.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja þetta, og held að jeg hafi tekið alt fram, sem máli skiftir.