02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

60. mál, viðskiptamálanefnd

Sigurður Eggerz:

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði, að það væri síður en svo, að lánstraust landsins væri í slæmu lagi. En sje þetta rjett hjá hæstv. fjármálaráðherra, þá er einkennilegt, hvað illa gengur með yfirfærsluna. Jeg veit ekki til, að Íslandsbanki gæti fengið lán hjá viðskiftabanka sínum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að það væri einkennilegt, að einstakir menn rjeðust á lánstraust landsins. En þetta er ekki rjett. Hæstv. fjrh. veit, að það eru ekki menn, heldur atvikin, sem gera það. þegar erlendir menn geta ekki fengið borgað það, sem þeir eiga hjá landsmönnum, hlýtur lánstraust landsins að minka við það. það, sem hefir mest áhrif á lánstraust landsins, er, hvernig það fullnægir skuldbindingum sínum, en ekki það, sem sagt er í þingsölunum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að jeg hefði átt að taka lán þau, er jeg tók, í þeim löndum, þar sem gengið var hátt. En fyrst var gengið þá ekki svo mjög hátt, og því næst er það ekki mín skoðun, að rjett sje að taka lán til þess að vinna á genginu, heldur til þess að varðveita lánstraustið, en taka þá það lán þar, sem gengið væri hæst, svo að hægt væri um leið að græða á genginu.

Þau lán, sem jeg tók, urðu landinu til góðs. Það er ekki rjett, að jeg hafi ekki reynt að taka lánin þar, sem gengið var hátt. Jeg reyndi bæði í Noregi og Svíþjóð, en lánskjörin þar voru óaðgengileg. Þau voru best í Danmörku, og því tók jeg lánin þar.

Jeg bið hæstv. fjrh. (M. G.) að athuga, að meðan jeg var ráðherra hafði fjármálaráðherra aðeins að hugsa um ríkissjóð, og jeg get ekki betur sjeð en jeg hafi sjeð um hag hans. En jeg skal játa, að eftir að núverandi fjármálaráðherra tók við stjórn hefir fjrh. haft enn þá örðugra starf, því þá hefir hann ekki einungis orðið að hugsa um hag ríkissjóðs, heldur allan fjárhag landsins í heild sinni, því hann hefir ekki getað gengið sinn vanalega gang sökum þess, að lánstraustið vantaði erlendis. þetta atriði átti landsstjórnin ekki að láta hlutlaust. Skylda hennar var að gera eitthvað í því máli. Hæstv. fjrh. (M. G.) vildi yfirfæra þessa sök á bankastjórana. Hann sagðist hafa talað við bankastjórana í Kaupmannahöfn. Það getur ekki hafa verið nema einn bankastjóri Landsbankans. Hvort hann hefir talað við bankastjórnina áður en hann fór, veit jeg ekki; hæstv. fjrh. (M. G.) veit það.

En hins vegar, þótt allir bankastjórar landsins hefðu lokað augunum fyrir því, sem hvert mannsbarn sá, þá átti landsstjórnin ekki að loka augunum. Ummæli bankastjóranna eru engin afsökun fyrir landsstjórnina. Bankastjórarnir eiga ekki að hafa ráð fyrir stjórninni, heldur stjórnin fyrir þeim, því að landsstjórnin er yfir bankastjórunum.

Þetta, að eigi er hægt að yfirfæra, getur orsakað það, að ýms hin þörfustu fyrirtæki í landinu verði að hætta. Jeg veit ekki, hvort það er satt, að sökum vöntunar á yfirfærslu stefni að því, að verslunin muni smám saman flytjast úr höndum innlendra manna til útlendra. Mjer er sagt, að útlend verslunarhús hafi, vegna þess, að þau höfðu gjaldeyri, flutt inn mjög mikið, en innlendir menn hafa orðið að draga saman seglin. Sje þetta satt, þá sjá allir, að það er alvarleg afleiðing af lánstraustsleysinu. Stjórninni finst ef til vill ekki taka því að athuga þetta. En Alþingi er áreiðanlega ekki sömu skoðunar. Það mun sýna það.