23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Sveinn Ólafsson:

Við höfum nokkrir þdm. leyft okkur að koma fram með brtt. þá, sem er á þskj. 54, við till. á þskj. 51. Fyrir okkur flm. brtt. vakti það, að við álítum, að aðalverkefni það, sem nefnd þessi ætti að hafa með höndum, væri peningamálin og bankamálin. Verslunarmál ríkisins heyra nánast undir fjárhagsnefnd, og mætti því líta svo á, að nefndarskipun eftir till. á þskj. 51 væri til eftirlits með fjárhagsnefnd, — einskonar yfirnefnd. Okkar till. fer fram á að skipa sjerstaka peningamálanefnd, sem að sjálfsögðu gæti tekið við þeim öðrum viðskiftamálum, er snerta hennar starf og hentara þætti að vísa til hennar en fjárhagsnefndar, sem nú þegar er ofhlaðin störfum.

Hins vegar er tæplega tilgangshæft að skipa tvær nefndir, aðra vegna bankamálanna og hina vegna viðskiftamálanna, ekki síst þegar þess er gætt, að fjárhagsnefnd er nú skipuð fleiri mönnum en venja hefir verið til þessa. Jeg fæ ekki betur sjeð en að taka verði út af dagskrá 3. og 4. mál, ef brtt. okkar gengur ekki fram. Frestur er þá sjálfsagður með þau mál, því að ætla verður, að till. á þskj. 53 gangi síður fram, ef till. á þskj. 51 verður nú samþykt.

Jeg ætla að þessu sinni ekki að fara út í þær ástæður, sem frsm. (J. Þ.) færði fyrir nauðsyn og haldkvæmi þessarar nefndar; sumt var rjett, sem hann sagði, sumt aftur á móti vafasamt. En eins og jeg þegar hefi tekið fram, þá álít jeg, að verkefni þessarar viðskiftamálanefndar falli eðlilega undir peningamálanefnd þá, sem ráðgerð er á þskj. 54, að því leyti, sem það fellur eigi beint undir fjárhagsnefnd.