23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Eiríkur Einarsson:

Jeg vildi aðeins segja nokkur orð um afstöðu mína til þeirra tveggja nefnda, sem hjer koma til greina.

Það hefir vakað fyrir mjer, sem mörgum öðrum þingmönnum, að nauðsyn bæri til að skipa sjerstaka nefnd, er tæki til rannsóknar og gerði till. um banka og peningamál landsins, en það eru nú þau mál, sem mest eru vandamál þeirra, sem þingið verður að leita úrlausnar á. Þegar því við, sem þessi nefndarskipun var kappsmál, sáum, að komin var fram hjer í deildinni till. um skipun viðskiftanefndar, ýtti það undir okkur að flýta einnig framgangi hinnar till. um skipun peningamálanefndar. Þó að sumir vildu líta svo á, sem peningamálin gætu einnig komið til athugunar væntanlegrar viðskiftamálanefndar, þá álít jeg, að slíkt geti ekki komið til mála. Banka- og peningamálið er, eins og jeg drap á, langþýðingarmesta málefni þingsins, og má því ekki fljóta inn í skjóli nje skugga neins annars máls, og verða þm. að sýna það öllum landslýð, og einnig erlendum þjóðum, að peningamálunum sje gaumur gefinn og reynt að koma því í rjett horf, sem vakið hefir ísjárverðasta athygli. Þessu til stuðnings vil jeg einnig geta þess, að hv. flm. viðskiftamálatill., taka fram, hvaða mál væntanleg nefnd eigi aðallega að hafa til meðferðar, og eru þau alt önnur en banka- og peningamálin, og gefur það auðvitað áherslu þeim málstað mínum, að umrædd peningamál þurfi að ræðast í annari sjerstakri nefnd. Einnig er á það að líta, að telja verður sjerstaklega óheppilegt að láta bankamálin, sem þurfa að ræðast með gætni og varúð, sameinast störfum þeirrar nefndar, sem hefir landsverslun og viðskiftahömlur til meðferðar, þar sem illindi og sundrung er fyrirsjáanlegt.

Mjer er í rauninni sama, hvort brtt. á þskj. 54 eða till. okkar á þskj. 53, sem enn er órædd, verður samþ. Höfuðatriðið, sem þær ganga báðar út á, er, að skipuð verði nefnd, sem hafi fyrst og fremst þessi mál til meðferðar, sem eru hin þýðingarmestu, þó að jeg viðurkenni auðvitað, að verslunarmálin sjeu einnig áríðandi, og hefði jeg því ekkert á móti því, að nefnd yrði einnig skipuð til að rannsaka þau.

Hæstv. fjrh. (M. G.) virðist heldur andvígur skipun þessara nefnda, vegna húsnæðisskorts og anna við fastanefndir. Þessar ástæður eru alveg óframbærilegar, þegar um slík alvörumál er að ræða. Þingnefnd, sem falið er að ræða mesta alvörumál þjóðarinnar, hlýtur að fá einhversstaðar inni, og þess ætti fremur að gæta, að fastanefndirnar þvældust ekki fyrir henni, en hún yrði fyrir þeim.