23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Flm. till. (J. Þ.) hefir gert svo ítarlega grein fyrir tilgangi hennar, að jeg þarf litlu við það að bæta, enda mun flestum vera það ljóst, að eitthvað þurfi og verði að gera til að kippa í lag því ólagi, sem er á verslunarmálum vorum, og því öngþveiti, sem þau eru komin í. Mjer fanst það því koma úr hörðustu átt, þegar hv. þm. Ak. (M. K.) legst á móti þessari nefndarskipun Mjer finst, að hún ætti að vera æskileg, einmitt einnig frá hans sjerstaka sjónarmiði. Því ef landsverslunin er eins ágæt og hann vill vera láta, þá fengi hann með slíkri hlutlausri rannsókn það vopn í hendurnar, sem orðið gæti til þess, að þeir, sem nú eru ef til vill á móti landsverslun, fengju með rannsókn þessari þær sannanir fyrir nauðsyn hennar, að þeir yrðu henni kann ske fylgjandi eftir á.

Hv. þm. Ak. (M. K.) mintist á steinolíukaup stjórnarinnar og virtist vilja gefa í skyn, að þau væru fram komin fyrir forgöngu hans og landsverslunarinnar. Hæstv. forsrh. (J. M.) mun þó kannast við, að máli þessu var upprunalega hreyft úr annari átt, og það áður en landsversluninni kom slíkt til hugar, enda þótt jeg ekki hjer kæri mig um að geta upptakanna. Svo það er tæpast með öllu verðskuldað, að landsverslunin eða forstjóri hennar eigi allar þakkirnar fyrir verðlækkun þá á steinolíu, sem nú er að verða.

En að því er andmælin snertir, sem komið hafa fram gegn þessari nefndarskipun, virðast mjer þau harla ljettvæg. Mannfæð innan hv. deildar getur ekki verið til að dreifa. í hv. deild eru margir þm., sem ekki sitja í nema einni nefnd, og eru því fullfærir um að bæta á sig nokkru starfi enn. Og um húsnæðið er það skemst að segja, að oft hefir ríkissjóður greitt fjárframlög, einnig til húsaleigu, fyrir málefni, sem minna hefir verið um vert en þetta, og ætti það því ekki að vera nein frágangssök nú.