23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Jakob Möller:

Hjer er um það að ræða fyrst og fremst, hvort menn vilja láta rannsaka það, hvernig hagur landsverslunarinnar er, og hvort halda á henni áfram eða ekki. Þetta virðist svo sjálfsagt, að um það ætti ekki að þurfa langar umræður.

Því hefir verið haldið fram, að þetta gæti komið undir fjárhagsnefnd. En það er hvorttveggja, að hún er nægum störfum hlaðin fyrir, og þessi mál þar að auki mjög umfangsmikið vandamál. Bæði bankamálin og viðskiftamálin eru hvor um sig svo mikilsverð mál, að sjálfsagt virðist að rannsaka þau bæði eftir föngum, og það verður best gert með því að rugla þeim ekki saman og láta sjerstakar nefndir hafa þau með höndum. Með þessu er alls ekki verið að ganga inn á neinar nýjar brautir. Jeg veit t. d. ekki betur en að landsverslunin hafi í upphafi verið stofnuð eftir till. alveg samskonar nefndar, sem hjer er farið fram á að setja, bjargráðanefndar, eða hvað hún nú hjet. Þessi nýja nefnd á einnig að verða bjargráðanefnd, — út úr ógöngum landsverslunar og viðskiftahafta. Þar að auki hefir fjárhagsnefnd ekki verið skipuð með þessi mál fyrir augum, heldur með tilliti til þeirra frumvarpa, sem fyrir hana átti að sjálfsögðu að leggja.

Svo vil jeg loks benda á það, að að því leyti, sem seinni till. fer fram á það að skipa sjerstaka nefnd til að íhuga bankamál, en ekki viðskiftamál sjerstaklega, þá er óheimilt að bera hana upp sem brtt. Hún fjallar sem sje um alt annað en hin till.