23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (3579)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Jón Baldvinsson:

Mjer finst till. á þskj. 51 helst til þröng, og felli mig betur við orðalagið á brtt. á þskj. 54, og get því gefið henni atkv. mitt.

Annars var það hv. flm. (J. Þ.), sem gaf tilefni til umræðnanna um landsverslunina. Og jeg skil vel þann tilgang hans að gera hana að aðalmáli hjer, og vil því víkja lítið eitt að henni, þótt mjer finnist reyndar, að nefndarskipunin hefði ekki þurft að gefa tilefni til mikilla umr. um hana.

Það, sem mig undraði stórlega, var það álit hans, sem virtist koma fram í framsöguræðunni, að landsverslunin hafi haldið við dýrtíð í landinu. Jeg hjellt sannast að segja, að hann mundi ekki fara að flytja hjer inn í þingið þessar marghröktu staðhæfingar sínar og fjelaga sinna frá þingmálafundum hjer í Reykjavík.

Viðvíkjandi því, sem komið hefir fram í sambandi við þetta, að kaupmenn selji lægra verði en landsverslunin, get jeg af eigin reynslu nokkuð um þetta borið, og sú reynsla hefir ávalt verið á þá leið, að landsverslunin þyldi fullkomlega samanburð við kaupmenn, bæði með gæði vöru og verð, og út af tylliboði því, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. þ.) var að hampa í framsöguræðu sinni, skal jeg geta þess, að það er t. d. mjög skamt síðan jeg vissi, að hveitipokinn var seldur hjá heildsala 4 kr. dýrari en ekki lakari tegund hjá landsversluninni, og er þó vitanlegt, að heildsalar í Reykjavík hafa fengið innflutningsleyfi á hveiti samtímis landsversluninni. En á þessum grundvelli einum getur samanburður kaupmannaverslunar og landsverslunar orðið rjettur, en ekki með því að bera saman við ímynduð tylliboð. Mjer er líka kunnugt um, að hveiti hefir verið flutt hingað til landsins frá Englandi síðan um nýár, og hefir þó ekki heyrst, að verðið hafi lækkað neitt stórkostlega hjer hjá kaupmönnum fyrir þann innflutning.

Jeg er ekki í efa um það, að landsverslunin er þjóðfjelaginu í heild sinni hollari en kaupmannaverslunin. Kaupmennirnir versla fyrir sjálfa sig, og hagur þeirra er að selja með sem hæstu verði, en það er vitanlega gagnstætt hagsmunum almennings. En verslun þjóðarinnar sjálfrar, landsverslunin, starfar með hag þjóðarinnar fyrir augum, og mætti sanna með mörgum dæmum og talandi tölum, að hún hefir verið hagstæðari almenningi en kaupmannaverslunin.

Jeg get verið flm. (J. Þ.) sammála um það, að viðskiftahömlurnar verði afnumdar. Það eru ýmsar nauðsynlegar vörur, svo sem skófatnaður, fatnaður o. fl., sem í nágrannalöndum vorum eru meira en helmingi ódýrari en hjá okkur og kaupmenn geta hjer, í skjóli innflutningshaftanna, haldið uppi verðlagi á, og það jafnvel þótt eitthvað lítilsháttar sje leyft að flytja inn af þessum vörum. Jeg hefi reyndar ekki þá trú, að við nytum eins verðfallsins á þeim eins og við njótum nú og munum njóta verðfallsins á vörutegundum, sem landsverslunin flytur inn. En sjeu hömlurnar afnumdar, þá hafa kaupmenn ekki neina afsökun, og almenningur getur krafist lægra verðs.

En hitt þykist jeg viss um, að heróp kaupmannanna um afnám landsverslunarinnar, sem nú heyrast landshornanna á milli, sjeu sprottin af því einu, að þeir þori ekki að leggja út í samkepni við hana, og sannast að segja finst mjer sá ótti þeirra ekki ástæðulaus.

Jeg get ekki stilt mig um að láta það í ljós, að það gladdi mig stórlega að heyra þann kafla úr framsöguræðu hæstv. fjrh. (M. G.) um fjárlögin, sem fjallaði um fjárhagsástæður landsverslunarinnar, sem einmitt sannaði það, sem jeg og sá flokkur, sem jeg telst til, hafði haldið fram í kosningunum hjer í Reykjavík.