23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Jakob Möller:

það er út af ræðum þeirra hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. þm. Ak. (M. K.), eða sjerstaklega þeim orðum hins síðarnefnda, að hjer væri af vanþekkingu rætt um landsverslunina, að jeg verð að segja nokkur orð. Jeg vil benda á það, að till. á þskj. 51 fer einmitt fram á nefndarskipun til þess að afla þinginu þekkingar á þessu máli. Þetta vilja hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. þm. Ak. (M. K.) ekki. Þeir vilja ekki, að deildin fái auknar upplýsingar og þekkingu á landsversluninni. (Sv. Ó.: Þetta eru getsakir). Nei, þetta eru ekki getsakir. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði að vísu um það, að vísa mætti viðskiftamálunum til nefndar þeirrar, sem brtt. á þskj. 54 fer fram á, að skipuð verði, en sagði þó, að þeim málum ætti að vísa til fjárhagsnefndar. Og hvað rannsókn eða athugun landsverslunarinnar snertir, þá getur hún ekki komið til kasta bankamálanefndar sem „skylt mál“ bankamálum. Það yrði því að samþykkja sjerstaka þingsályktun um, að slík athugun eða rannsókn skuli gerð. Í till. á þskj. 51 er það beinlínis tekið fram, að slík rannsókn skuli falin nefnd þeirri, sem till. fer fram á, að verði skipuð.

Það er og nokkuð einkennilegt hjá flm. brtt. að miða till. við bankamál, ef þeir meina viðskiftamál, því að viðskiftamálin eru miklu yfirgripsmeiri. Bankamálin eru viðskiftamál, en öll viðskiftamál eru ekki bankamál. Jeg fæ því ekki annað sjeð en að tilgangurinn með þessari brtt. sje aðeins sá að reyna að koma landsversluninni undan. Það kom og berlega fram í ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.), að hann vildi ekki láta neina rannsókn á landsversluninni fara fram og enga nefnd skipa í því skyni, og ljet hann það í veðri vaka, að árangurinn af slíkri rannsókn mundi ekki verða mikill, frekar en 1918. En þessa athugun á rekstri landsverslunarinnar viljum við flm. till. á þskj. 51 láta fara fram, og um það, hvort svo skuli verða, verða greidd atkv. hjer.