06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Meðan það stjórnarfarsskipulag, sem nú er við að búa, á að haldast í þessu landi, skiftir miklu, að hyrningarsteinn þess, sem er þingræðið, raskist ekki. þessa verður vel að gæta, og liggur þar við sómi þingsins. Það orkar mjög tvímælis, hvort alt sje nú með feldu á Alþingi Íslendinga, að því, er þetta snertir. Eru þau dæmi deginum ljósari, er sýna, hvernig óvissan um fylgi þingsins og aðstöðu til stjórnarinnar, óvissan um, hvort þingræðis sje gætt í landinu, verkar á siðferði þingsins og allar aðgerðir. Engir ættu að hafa næmari tilfinningu fyrir þessu en hæstv. ráðherrar. Það færi því vel á því, að þeir stæðu þar fyrst og fremst á verði og kveddu þingmenn fram úr skugganum til fylgis eða andstöðu. Í þessu skyni er till., sem hjer liggur fyrir, fram borin. Með þeirri greinargerð, sem henni fylgir, álít jeg meiri skýringar óþarfar. Við flm. teljum rjettast, ef þess væri kostur, að umr. þyrftu ekki að verða, og viljum ekki gefa tilefni til þess. Það verða þá aðrir, sem koma deilum af stað, ef nokkrar verða, en við munum vitanlega svara, ef svo þarf endilega að verða.