06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3603)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skil vel, að hv. flm. (E. E.) vilji fylgja hinni gömlu og góðu reglu :„Svaviter in modo fortiter in re“. En hvað hitt snertir, að hann hafi ekki viljað gefa tilefni til deilu, efast jeg um, að hann hafi meint það verulega, jafnhvatvíslega og hann hefir hagað sjer. Og jeg bjóst alls ekki við eins illvígri árás frá hans hendi og nú hefir sýnt sig.

Hv. flm. (E. E.) sagði, að óvissan hefði skaðleg áhrif á siðferði þings og stjórnar. Jeg get vel hugsað mjer, að það geti haft skaðleg áhrif á hv. stjórnarandstæðinga að geta ekki komið fram vilja sínum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. En jeg get ekki kannast við, að þessi óvissa, sem hv. flm. (E. E.) talar um, hafi haft nokkur skaðleg áhrif á störf stjórnarinnar. Jeg neita því, að hún hafi haft áhrif á störf þings eða stjórnar yfirleitt. Jeg get bent á það, að á öllum stórmálum, sem stjórnin hefir lagt fyrir þingið, hefir verið höfð svo góð meðferð, að hver stjórn mætti vel við una.

Þá sagði hann, að stjórnin hefði ekki fylgi þingsins. Jeg veit ekki til, að hingað til hafi annað sannast en að hún hafi nægilegt fylgi meiri hlutans til þess að geta setið áfram. Annars er það andstæðinganna að sanna það, að stjórnina bresti fylgi, en ekki hennar, fremur en eða fyr en henni sýnist.

Jeg man ekki til, að stjórnarandstæðingar hafi nema tvö ráð til þess að koma ráðuneyti frá: annaðhvort að fá vantraust samþykt eða að drepa þau mál, sem ráðuneytinu er sjerstaklega ant um og vill setja á oddinn. Á þessu þingi er ekki hægt að benda á nein slík úrslit mála.

Á hinn bóginn er hverjum hv. þm. frjálst og rjett að bera fram þinglega vantraustsyfirlýsingu á stjórnina.

Þessi till. hvílir á alveg samskonar grundvelli og till. hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem hann lýsti yfir, að hann myndi ekki greiða atkv. sjálfur. Það er dálítið annað form, en mjög svipuð aðferð og tilgangur.

Jeg hefi lýst yfir því, bæði hjer og í hv. Ed., að ráðuneytið viðurkendi ekki rjett hv. andstæðinga til þess að ráða því, hvenær það spyrði þingið eða leitaði trausts hjá því. Jeg kvaðst ekki mundi taka tillit til þess, þó að slík krafa kæmi fram úr þeirri átt. Og mjer er ekki heldur kunnugt um, að slíks hafi nokkum tíma fyr verið krafist. Ráðuneytið getur því með engu móti tekið á móti slíkri till.

Jeg hefi áður sagt það mjög ljóst, að ráðuneytið vill ekki brjóta þá venju, sem komin er á hjer á landi um það, að til þess að taka til greina vantraust, hefði stjórnin rjett til að heimta, að báðar deildir þingsins, eða sameinað þing, taki afstöðu til till.

Jeg get því sagt það nú þegar, að ráðuneytið mun ekki taka tillit til þessarar till., eins og hv. flm. (E. E.) virðist ætlast til. Jeg veit það, að hv. flm. neita því ekki, enda sjest það á greinargerð till., að hún er grímuklædd vantraustsyfirlýsing. En jeg skal ekki fara út í það, því jeg vil gjarna stilla því svo til, að ekki þurfi langar umr.

Jeg vil þó ítreka það, að rjettara er að bera till. upp fyrir báðum þingdeildum. Það er líka rjett af öðrum ástæðum heldur en jeg þegar hefi tekið fram. í till. felst sem sje meira en vantraust. Það er ætlast til, að farið verði inn á alveg nýja braut. Deildin á að gefa viðurkenningu sína á þeim nýja sið, að stjórnarandstæðingar, sem ekki eru þess megnugir að fá þingmenn til þess að lýsa vantrausti sínu á stjórninni á bindandi hátt, geti heimtað, að þingið gefi traustsyfirlýsingu eða að stjórnin fari fram á traustsyfirlýsingu frá þingsins hálfu. Ef hv. deild vill taka upp þennan nýja sið, þá mun ráðuneytið þegar beiðast lausnar, því slíkt vill það ekki láta bjóða sjer.