06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Jakob Möller:

Jeg ætla mjer ekki að lengja umr. mikið. En út af síðustu orðum hæstv. forsrh. (J. M.) vil jeg undirstrika það, að það var engan veginn aðallega tilgangur till. að koma stjórninni frá. Tilgangurinn er aðeins sá, eins og hv. flm. (E. E.) tók fram, að fá hreinar línur, fá að vita það, hvort stjórnin hefir fylgi meiri hluta að baki sjer eða ekki. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að það á ekki að þurfa að koma hæstv. stjórn í neinn æsing.

Hæstv. forsrh. (J. M.) neitaði því, að stjórnin hefði átt nokkuð erfitt uppdráttar á þessu þingi. Jeg get þó bent á a. m. k. tvær atkvgr. hjer í deildinni, sem hæstv. stjórn hlýtur að telja sjer andvígar, sem sje um innflutningshöftin og seðlamálið. Stjórnin lýsti að vísu ekki beinlínis yfir, hvað hún myndi gera, ef seðlaútgáfunni yrði ekki endanlega skipað. En það er alkunnugt, að henni var mjög umhugað um að koma fram endanlegu skipulagi. þetta mál gaf fyrsta tilefnið til þess, að við bárum fram þessa till. Við flm. álítum, að þeir þm., sem vilja láta stjórnina sitja áfram, verði að taka tillit til vilja hennar í slíkum málum. Hins vegar álítum við, að meiri hluti, sem myndast kann um slík mál, hljóti að heimta að fá vissu um það, hvernig afstöðu stjórnar og þings er varið.

Það er þannig rangt hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að þetta sje grímuklædd vantraustsyfirlýsing. Við höfðum till. einmitt í þessu formi af því, að við vildum ekki hafa hana vantraustsyfirlýsingu. Það er því óviðkunnanlegt, ef hæstv. stjórn ætlar alls ekki að taka till. til greina, þó að hún gangi fram. Það er engin tilviljun, að till. þessi er komin frá peningamálanefndinni, eða er flutt af fjórum nefndarmönnum. Skipun peningamálanefndarinnar gaf einmitt alveg sjerstakt tilefni til að bera slíka till. fram. Nefndin er þannig skipuð, að aðeins 2 af 10 nefndarmönnum úr báðum deildum munu geta talist fylgismenn stjórnarinnar, en 6 eru algerlega andvígir henni og treysta henni alls ekki til að fara með þessi mál. Hjer í deildinni hefir nefndin skipast þannig, að 4 af 5 nefndarmönnum eru algerlega andvígir stjórninni. Það er því auðsætt, að samvinna getur engin átt sjer stað milli nefndar og stjórnar. Hefir það og tilfinnanlega komið fram. Ef því stjórnin situr áfram, þá verður nefndin væntanlega neydd til að skila af sjer, því það nær ekki neinni átt, að nefnd sje að berja fram till. sínar í svo mikilvægum málum á móti vilja stjórnarinnar, enda væri það í alla staði óeðlilegt, að þær till. gengi fram, og gæti sú barátta þá aðeins orðið til að tefja fyrir. En það verða allir, bæði hv. þm. og hæstv. stjórn, að gera sjer ljóst, að stjórnin verður að hafa meiri hluta þingsins með sjer, og njóta fylgis þess meiri hluta til að fá því framgengt, sem hún vill, eða að fara frá að öðrum kosti. Ef meiri hlutinn er á móti stjórninni, þá verður hann að heimta að fá sjer samhenta stjórn. í till. felst ekkert annað en krafa um þennan sjálfsagða hlut.

Annars ætla jeg ekki að fara út í gerðir stjórnarinnar í einstökum málum.