06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir það nærri leiðinlegt, þegar hv. andstæðingar setja upp þessi hvítasunnuandlit og þykjast vera svo ósköp meinlausir og saklausir. Alt á að vera eftir rjettum reglum og þarf endilega að koma fram, og ef stjórnin segist ekki vera ánægð með niðurstöðu á einhverju ákveðnu máli, þá lýsa þeir undrun sinni yfir því, að stjórnin skuli vera að gera svona mikið úr öðru eins smáræði. En svo verða þeir steinhissa, ef hún ekki rýkur upp á nef sjer og segir af sjer út af einhverju, sem þeim finst mikilvægt, en stjórnin kann ske lítur alt öðruvísi á.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) segir, að hv. peningamálanefnd geti ekki starfað, ef stjórnin sitji áfram. Jeg verð nú að segja, að jeg hefi ekki orðið var við, að henni hafi orðið svo mikið úr verki þann langa tíma, sem hún hefir starfað, að það geti talist stórt tjón, þó að hún hætti.

þá gægðist það upp hjá sama hv. þm. (Jak. M.), að nefndin geti ekki starfað, nema stjórnin fari frá, og að það liggi til grundvallar fyrir till. Ef það er grundvöllurinn, þá er ekki hægt að neita því, að hjer er um grímuklædda vantraustsyfirlýsingu að ræða. Jeg hefi auðvitað ekkert út á það að setja, þó að hv. þm. reyni að koma stjórninni frá. En þeir verða bara að gera það á rjettan og þinglegan hátt.

Hv. þm. (Jak. M.) talaði um seðlamálin og viðskiftahöftin. Jeg veit ekki, hvort hann hefir átt við atkvgr. um sitt eigið frv. En það hefði verið beint hlægilegt, ef stjórnin hefði farið að gera það að ágreiningsatriði.

Eða seðlamálin. Hví skyldi stjórnin fara að gera þau að ágreiningsatriði, meðan alt er í einum graut og ekkert komið fram frá hv. peningamálanefnd nema brotasilfur eða eitthvað enn ónýtilegra.