06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir vænt um það, að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir komið fram úr sauðargærunni; hún er honum ekki eðlilegur búningur. Hv. þm. (Jak. M.) hefir reyndar áður sagt það, sem hann hamraði á nú, um rangar og villandi skýrslur, og hefi jeg áður mótmælt því, og geri mjög ákveðið enn, enda hefir hv. þm. (Jak. M.) aldrei reynt að sanna þetta. Ef það væri satt, mundi það ekki heldur falla vel inn í „meinleysið“, sem á að vera í þál. Hv. þm. (Jak. M.) sagði einnig, að það væri ekki mikið, sem stjórnin hefði gert eða lagt fyrir þingið og fengið fram. Um þetta þarf jeg ekki að deila við hann. Og þó að þingið hafi sagt áður, að þetta ætti að gera, þá hefir það ekki sagt, hvernig ætti að gera það. Að öðru leyti getur hv. þm. (Jak. M.) gert eins lítið úr þessu og hann vill. Sumum mundi þó kann ske finnast það eitthvað, þegar t. d. er m. a. lagt fram endurskoðað alt skattakerfi landsins.