18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

127. mál, landsverslunin

Jón Þorláksson:

Jeg get fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar þakkað hæstv. stjórn fyrir að geta aðhylst till. okkar, sem jeg vona, að verði samþykt. Var mjer enda kunnugt um það áður, að hún mundi geta það, og mundum við hafa borið málið fram í öðru formi en í þál.formi, ef svo hefði eigi verið.

Jeg ætla ekki að fara út í ástæðumar fyrir því, hvers vegna meiri hlutinn lagði ekki til, að heimildin til verslunarrekstrarins yrði af stjórninni tekin með því að breyta hlutaðeigandi lögum. Við höfum ekki farið fram á það, að stjórnin yrði svift heimildinni, og er því lagalega heimildin enn til staðar, þó að till. okkar verði samþykt. Getur stjórnin því gripið til hennar ef ástæður kunna að breytast svo, að það verði nauðsynlegt. Getum við, sem stuðningsmenn stjórnarinnar, að sjálfsögðu gert okkur það að góðu, að stjórnin geri það, ef brýn þörf er á, en hins vegar treystum við því, að stjórnin telji ekki annað brýna þörf en sem er það í raun og veru.

Hv. þm. Ak. (M. K.) þarf jeg litlu að svara. Talaði hann hógværlega í þetta sinn, enda ber svo lítið á millum hans og okkar meiri hlutans, að nærri lá, að við 4 nefndarmennirnir gætum fylgst að um nefndarálit og till. Hann taldi ástæður breyttar nú frá því, er þær voru, er nál. meiri hlutans var samið. En þetta er ekki rjett. Aðstaða okkar að kaupa vörur og koma þeim til landsins er ekki verri nú en hún var þá; hafa vörur einmitt talsvert lækkað og flutningsgjöld sömuleiðis síðan, svo að erfiðleikarnir hafa fremur minkað en vaxið. Má segja, að eini þröskuldurinn á veginum sje fátækt okkar, erfiðleikarnir á að borga.

Fyrir útkomunni á rekstri landsverslunarinnar er gert grein í nál. meiri hlutans, og er enginn ágreiningur um lokatöluna. Hið raunverulega tap á árinu 1920 er það, sem varasjóðurinn hefir lækkað um, og er greint frá því í nál., af hverju þetta tap stafar, kolalækkuninni, og mundi þetta vera talið verslunartap hjá öllum öðrum verslunum. En þó að verði að telja þetta svo, þá er ekki verið að leggja það forstöðumönnum verslunarinnar til lasts, heldur hefir þetta orðið fyrir ófyrirsjáanlega rás viðburðanna.

Okkur skilur einkanlega á um framtíðarhugsjónirnar. Er hv. þm. Ak. (M. K.) þar samherji hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), og telur, að í hans stefnu felist framtíðarhugsjón, sem þjóðin enn sje ekki nægilega þroskuð til að veita móttöku eða skilja.

En það er alt önnur hugsun, sem vakir fyrir mjer en sú, að ein stjórn framkvæmi alt og að landsmenn sjeu eins og auðmjúk börn, sem taki möglunarlaust móti öllu, sem heimilisfaðirinn rjettir að þeim. En þetta er það, sem vakir fyrir hv. 2. þm. Reykv. (J. B.).

Þá eru það einstök atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), sem jeg get ekki komist hjá að svara.

Hann rjeðist allógætilega á mig fyrir ummæli, sem jeg hafði haft hjer fyr á þinginu, þegar rætt var um skipun viðskiftamálanefndar og afnám innflutningshaftanna. Jeg gerði þá grein þess, að viðskiftanefndin, sem þá sat, var notuð eftir fyrirmælum stjórnarinnar til þess að neita öðrum um innflutning á þeim vörum, sem landsverslunin seldi, jafnvel þó að aðrir gætu flutt þær inn og selt þær með miklu lægra verði, sökum lækkandi verðlags þessara vara erlendis. Olli þetta mikilli óánægju, sem von var, og gat ekki haldist til langframa. Bjóst jeg ekki við að þurfa að elta ólar um þetta nú, og síst við samnefndarmann minn, hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Hefði honum verið innan handar að koma með þetta í nefndinni, ef hann hefði ekki ætlað sjer með þessu að slá ryki upp í augu annara en hv. þdm., sem hjer eru viðstaddir, utan þingsalsins. Hann leyfði sjer að segja, að jeg hefði borið „tylliboð“ hjer inn í þingsalinn, og átti þar við tilboð um hveiti frá Englandi, sem jeg skýrði frá að fá mætti, komið hingað á innflutningshöfn, fyrir kr. 48.30 sekkinn, 63 kg. En þessi hv. þm. (J. B.), sem sjálfur á sæti í viðskiftamálanefndinni, hefir gleymt því, að sú nefnd fjekk nokkrum dögum seinna upplýsingar um hveitiverð frá Verslunarráði Íslands og Sambandi íslenskra samvinnufjelaga, sem staðfestu algerlega það verð, er jeg hafði skýrt frá. Sjerstaklega skýrði S. Í. S. frá hveitiverði, sem að vísu kom ekki alveg heim við umgetið tilboðsverð, heldur var nokkru lægra. Jeg hafði ekki þessi skjöl við hendina, því að jeg átti ekki von á þessari árás, en mjer hefir nú hepnast að láta ná í þau, og er nú þessi skýrsla frá S. Í. S. hjer. Jeg get ekki sjeð í fljótu bragði, hve miklu lægra verð það er, sem S. Í. S. gefur upp, en það, sem jeg skýrði frá, því að S. Í. S. gefur upp verð vörunnar, kominnar í hús, en jeg fluttrar á höfn, en þetta skal jeg athuga nánar. Og með því hv. þm. (J. B.) sjálfur hafði þessa skýrslu til athugunar í nefndinni, þá er annaðhvort, að hann er óvenjulega minnissljór, eða hefir talað hjer á móti betri vitund.

Jeg flutti ekki þetta tilboð inn í deildina til árásar á landsverslunina, heldur til þess að sýna, að það var óverjandi að halda innflutningshöftunum. Þeim manni, sem hafði tilboðið í höndum, var neitað um innflutningsleyfi af því að landsverslunin seldi þá hveiti fyrir miklu hærra verð.

Í orðum mínum lá engin árás á landsverslunina, enda var það ekki tilætlun mín, þó að jeg álíti rangt að halda henni áfram.

Hv. sami þm. (J. B.) tók nokkuð upp úr einhverri blaðagrein. Jeg þarf ekki að tala neitt um það, því jeg hefi ekki verið neitt við þá blaðagrein riðinn.

Annars er ekki ástæða til að gera að umtalsefni margt af því, sem hann sagði; allra síst að svara þeim sögum, sem hann kvaðst hafa heyrt, og flytti inn í þingsalinn vegna þess, að enginn fótur væri fyrir þeim. Það er nokkuð einkennilegt að flytja sögur inn í þingsalinn fyrst og fremst vegna þess, að enginn fótur sje fyrir þeim. Mjer finst betur við eiga að flytja þær sögur, sem eru sannar og rjettar. Hitt yrði alt of langt mál. Og það er ekki eingöngu um landsverslunina, að svona sögur ganga; kaupmenn fá engu síður að kenna á því, og það ganga margar staðlausar sögur um þá. T. d. sagði hv. þm. (J. B.), að þegar stríðið hefði skollið á, hefðu allir kaupmenn hjer á landi sett upp vörur sínar, og er slíkt öldungis staðlaust fleipur.

Jeg verð að leiðrjetta það, að kolainnflutningur hafi verið frjáls hingað til lands á síðasta ári. Að minsta kosti mun útgerðarmönnum og öðrum þeim, sem mesta þörf hafa fyrir kol, ekki hafa fundist hann frjáls.

Það er óhapp, sem enginn getur ráðið við, að sama daginn, sem innflutningshöftin eru afnumin hjer, skellur á kolaverkfall í Bretlandi. Síðan hafa ekki fengist nein kol þar, og engin kol komist til landsins, nema einn eða tveir smáfarmar, sem menn höfðu ráðist í að kaupa áður en innflutningsbanninu hjer var afljett, í trausti þess, að innflutningshöftin væru úr sögunni áður en farmarnir kæmu hingað, sem og varð.

Mjer liggur við að biðja hv. þm. Ak. (M. K.) afsökunar á því, að jeg mintist á innflutningshöftin í sambandi við landsverslunina, því að í raun og veru snerta þau ekkert þá ákvörðun, sem á að taka hjer í kvöld og tilheyra liðna tímanum. En það er vegna hinna hvatvíslegu og röngu ummæla hv. 2. samþm. míns (J. B.), að jeg hefi neyðst til að gera það.

Jeg vil þá minnast ofurlítið á annað, sem hv. sami þm. (J. B.) hefir tvisvar minst á hjer í deildinni. Það eru ummæli sem fjellu á þingmálafundi hjer í bæ, á þá leið, að ef landsverslunin væri gerð upp, myndi hún reynast stærsta þrotabú landsins. Mjer þykir rjett að gera nokkra grein fyrir þessum ummælum, þótt þau ekki kæmu frá mjer, heldur öðrum góðum manni. Hann sagði, að ef landsversluninni væri talið til útgjalda tapið á kolum og salti, og skipatap landssjóðs og verðfallið á þeim, og fyrirtækið gert upp nú, þá væri það stærsta þrotabúið, sem nokkurn tíma hefir orðið á þessu landi. Jeg vil að vísu ekki gera þessi ummæli að mínum. Hins vegar verða hv. þdm. að kannast við, að skipastóll landssjóðs er fallin svo mjög í verði, að ekki er hægt að meta hann helming af hinu upprunalega verði, svo að þar má reikna 2 milj. kr. tap, þótt því gróði verslunarinnar væri nógur til þess að bera tapið á kolum og salti, sem ekki er, þá er hallinn á þessum stríðsráðstöfunum einar 2 miljónir, og svo stórt þrotabú hefir aldrei verið til á þessu landi. Með þessu vil jeg gera hv. þm. ljóst, að maðurinn sagði ekki annað en það, sem hann gat staðið við sem sannleika, þó það væri borið fram í formi sem ekki allir vilja gera að sínu.

Að lokum vil jeg leiðrjetta það, að viðskiftahöftin hafi ekki náð til matvöru, sem landsverslunin verslaði með. (J. B.: Það eru ekki mín orð. Jeg sagði, lítið náð til hennar). Hv. þm. (J. B.) sagði það, þó hann vilji nú taka það aftur.

Viðskiftanefndin hefir skýrt mjer frá því, að innflutningur hafi yfirleitt verið frjáls, nema með þessar vörur. Innflutningur á öðrum vörum var leyfður nokkurn veginn eftir því, sem um var beðið. Þetta á sjerstaklega við þann tíma, þegar vörur voru farnar að lækka í verði.

Jeg ætla ekki að þreyta hv. deild meira, en vona, að hún samþykki till. meiri hluta nefndarinnar, sem eingöngu miðast við hag og þarfir ríkissjóðs og landsmanna.