18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

127. mál, landsverslunin

Magnús Kristjánsson:

Jeg get skilið, að hv. þdm. vildu fegnir, að umr. yrðu ekki mikið lengri. En það eru þó ekki nema sumir, sem ástæða er til að vorkenna, því aðrir hafa oft leyft sjer að þreyta bæði mig og aðra með löngum og oft óviðeigandi ræðum. Jeg vona því, að mjer fyrirgefist, þó að jeg leyfi mjer að svara með nokkrum orðum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann bað afsökunar á því að nefna innflutningshöft í sambandi við landsverslun. Það var engin ástæða til að biðja mig afsökunar á slíku. Það hefði verið meiri ástæða til að biðja afsökunar á því, að hann fór með rangt mál, þegar hann lýsti afstöðu stjórnarinnar eftir ummælum hæstv. atvrh. (P. J.). En jeg skal víkja að því seinna.

Jeg vil fyrst minnast á það, að hann gaf í skyn, að landsverslunin hefði notið góðs af innflutningshöftunum. Jeg vil mótmæla því afdráttarlaust. (J. Þ.: Jeg sagði, að hún hefði ekki skaðast á þeim). Það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. (J. Þ.) að vera nú að rifa seglin; það lítur út eins og honum finnist flest meðul verjanleg, þegar hann vill gefa það í skyn, að innflutningshöftin hafi verið sett vegna landsverslunarinnar. Hann veit vel, að þau voru ekki sett vegna hennar, heldur vegna fjárkreppunnar. Það er því mjög óviðeigandi og gegn betri vitund, þegar hann gefur það í skyn. Höftin voru sett vegna gjaldeyrisskorts og fjárkreppu, og jeg vildi mótmæla þessu nú þegar, og hann hefir gefið mörg önnur tilefni til mótmæla.

Þá er annað atriði, sem hann vildi gera sjer mat úr. Hann sagði, að í raun og veru ætti það tjón, sem kynni að verða á skipum landsins, að skrifast á synda-„registur“ hinnar skaðvænu, illræmdu og úthrópuðu landsverslunar. þetta var það, sem notað var til þess að fleyta þessum hv. þm. (J. Þ.) inn á þingið nú fyrir skömmu. Jeg gæti trúað því, að hann sjái eftir því áður en lýkur, að hafa valið þetta þrætuepli til þess að þóknast kjósendunum. (J. Þ.: Það var mjög geðfelt). Jeg hygg þó, að samviskan muni fyr eða síðar slá hann. Hún hlýtur einhvern tíma að vakna, og jeg býst við, að það verði í þessu lífi.

Það var ætlun mín þegar jeg byrjaði ræðu mína að ræða málið sem hóflegast, enda er jeg ekki enn kominn af þeirri braut, og jeg mun reyna að halda mjer á henni, þó að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) reyni með dylgjum að gefa í skyn, að ræða hv. 2. samþm. hans (J. B.) sje í alla staði skaðleg. Aftur mintist hann ekki á mína ræðu sem skaðræði, þótt hann viti, að jeg er hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) samsekur. Það er þetta hógværa blygðunarleysi, sem mjer leiðist sjerstaklega.

Þá vil jeg víkja að því atriði í ræðu hv. þm. (J. Þ.), sem jeg alls ekki get mælt bót, sem sje þegar hann hafði ummæli eftir hæstv. atvrh. (P. J.), sem hann aldrei hefir viðhaft. Mjer finst hv. þm. (J. Þ.) treysta of mjög á sljóleik hæstv. atvrh. (P. J.), þegar hann hefir eftir honum orð, sem hann alls ekki hefir mælt. Hv. þm. (J. Þ.) sagði, að hæstv. atvrh. (P. J.) hefði sagst aðhyllast till. meiri hlutans. (J. Þ.: Gæti fallist á). Nú rifar hv. þm. (J. Þ.) seglin eins og fyr. Hæstv. atvrh. (P. J.)sagði, að till á þskj. 431 og fyrri liður till. á þskj. 435 gengju í sömu átt. Þetta er alveg rjett, eins og jeg hafði búist við af honum. (J. Þ.: Hann sagði meira). Já, hann gerði það einmitt. Hann sagðist ekki geta lofað að breyta eftir till. hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vegna þess, að ekki væri hægt að framkvæma hana. Enn fremur, að hann vildi ekki lofa að binda sig, eins og hv. þm. (J. Þ.) og skoðanabræður hans vilja, svo að hann hafi ekkert svigrúm til þess að kaupa nauðsynjavörur, ef þörf krefði.

Þetta var aðalatriði. Aukaatriðin ætla jeg ekki að fara að eltast mikið við, til þess að hinn góði ásetningur okkar 3. þm. Reykv. (J. Þ.) verði ekki tómt loforð. Jeg ætla þess vegna að sleppa mörgu, sem jeg annars þyrfti að segja.

Hv. þm. (J. Þ.) mótmælti því eindregið, að horfur væru nú ískyggilegar í viðskiftalífinu. Jeg bjóst þó við því af þessum hv. þm. (J. Þ.), sem oft hefir verið viðbrugðið fyrir vitsmuni og eftirtekt, að hann hefði veitt því athygli, sem er að gerast í heiminum. Jeg get ekki skilið annað en hver hugsandi maður hljóti að álíta það styrjaldarbliku, þegar bandamenn, sem staðið hafa saman í ófriðnum mikla, Bretar og Frakkar, eru orðnir svo ósammála, að lítið útlit er fyrir, að þeir geti jafnað það með sjer friðsamlega. Þá má að minsta kosti búast við stórtíðindum fyr en varir. Hv. þm. (J. Þ.) verður að viðurkenna, að þótt nú sje margt bölvað, þá getur ástandið þó orðið verra síðar, þegar afleiðingar hinna stórkostlegu verkfalla og annara óeirða úti í heiminum koma fullkomlega í ljós.

Þá er enn eitt atriði. Hv. þm. (J. Þ.) sagði, að ef þing og stjórn gerðu ráðstafanir til að selja almenningi vörur undir verði, þá hlyti það að falla á reikning landsverslunar. Þetta er hreinasta kórvilla, að það eigi nokkuð skylt við landsverslunina, þó að slíkar ráðstafanir sjeu gerðar. Þessi rök hv. þm. (J. Þ.) falla því alveg um sjálf sig.

Þá kemur að þessu margumtalaða tylliboði, sem nýlega var minst á hjer. Það er tylliboð vegna þess, að rangt var skýrt frá vörumagni. Það voru ekki nema 50 kg. í pokanum, í staðinn fyrir 63 kg. Jeg fer því ekki lengra út í það, en það eru nægar sannanir fyrir hendi.

Þá var það eitt atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lagði talsverða áherslu á. Það var það, að kolainnflutningur hefði verið bannaður á síðasta ári, og útgerðarmenn því átt mjög erfitt uppdráttar. Þetta er algerlega rangt; kolainnflutningur var alveg frjáls, enda veit jeg, að æðimargir kolaformar komu hingað hindrunarlaust til ýmsra. Einhver tók til, að eftir áramót hefði það ekki verið. Honum svara jeg, að það sje gjaldeyrisskorturinn, sem hafi verið orsök þess, að lítill innflutningur hafi verið. Útgerðarmönnum var aldrei meinað að flytja inn kol árið 1920, nema hvað gjaldeyrisskortur kann að hafa hindrað það.

Út af samanburði á landsverslun og kaupmannaverslun, þá vil jeg drepa á eitt atriði. Hv. þm. (J. Þ.) sagði, að kaupmannastjettin hefði orðið fyrir hörðum dómum, að altalað væri, að kaupmenn hefðu hækkað verð á öllum vörum þegar Norðurálfuófriðurinn hófst. Jeg hygg, að þetta fari ekki fjarri; vil þó ekki segja, að allir kaupmenn hafi gert það. Jeg ætla að nefna eitt dæmi.

Hjá verslun, sem átti talsverðar birgðir af kolum og salti þegar ófriðurinn skall á, gátu viðskiftavinir hennar ekki fengið salt, nema að lofa fiski fyrir verð, sem kaupmaður setti, og síðar var neitað um vörurnar. Þessi kaupmaður geymdi svo vörurnar þangað til þær voru komnar úr 20 kr. upp í 200–300 kr. Jeg nefni þetta aðeins sem dæmi, veit að það var ekki alment, sem betur fór.

Aðeins eitt atriði enn þá vildi jeg minnast á. Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) þóttist hafa fengið höggstað á mjer þar sem jeg ljet í ljós, að jeg aðhyltist skoðun hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), þótt þess yrði langt að bíða, að hún fengi fylgi hjer. Þetta hjelt hv. þm. (J. Þ.), að myndi ráða niðurlögum mínum. En jeg er ekki hræddur við það. Tíminn mun leiða það í ljós, að stefnan er ekki skaðleg, enda hafa mörg lönd hjer í álfunni viðurkent hana, þó það hafi ekki verið gert hjer enn þá; en þess verður ef til vill ekki langt að bíða.

Þetta er nú það bitra vopn, sem hv. þm. (J. Þ.) ætlaði að nota til að spilla fyrir mínum málstað.

Það var nú ekki meiningin fyrir mjer að gefa ástæðu til illinda í kvöld, svo jeg ætla ekki að fara lengra. Jeg vildi aðeins spyrja hv. þm. (J. Þ.) að því, hvort það sje framtíðarstefna hans að hlynna að hagsmunum örfárra einstaklinga á kostnað almennings.