19.05.1921
Sameinað þing: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

143. mál, fjármálanefnd

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg ætla ekki að svo stöddu að fara mörgum orðum um þessa till.; aðeins gera stutta grein fyrir, hvers vegna hún er fram komin.

Bankamálin hafa nú um mörg undanfarin ár legið fyrir Alþingi til úrlausnar í einhverri mynd, og altaf orðið að meiru og meiru deiluefni. Þessi mál hafa altaf reynst þinginu erfið viðfangs, þó aldrei hafi kveðið svo ramt að sem á þessu þingi. Eiga viðskiftavandræðin og fjárkreppan sinn þátt í því. Bankamálin eru líka í eðli sínu þannig vaxin, að það er eðlilegt, að þingið eigi erfitt með að byggja upp endanlegt, fast skipulag á þeim, án þess, að fyrir því liggi ákveðinn skipulagsgrundvöllur.

Nefnd þeirri, sem hafði með höndum bankamálin á þessu þingi, hefir ekki hepnast að finna leið til að leggja neina; till. fyrir þingið um fullnaðarfyrirkomulag bankamálanna. Jeg veit, að nefndin hefir sætt ámælum út af þessu. En þær ásakanir eru ástæðulitlar. Nefndin hafði við meiri örðugleika að stríða en margur hyggur, auk þess sem nefndarmenn voru svo mjög öðrum störfum hlaðnir, að þeir gátu ekki sint þessu máli nema með ígripum. Nú er komið að þinglokum og það er ekki sýnilegt, að útgert verði að þessu sinni um endanlega skipun bankamálanna í framtíðinni. Það má því gera ráð fyrir, að þetta mál verði tekið fyrir á næsta eða næstu þingum. Og verði þá sama undirbúningsleysið fyrir hendi, má búast við sama fálminu og sama aðgerðaleysinu, sem hingað til. En þetta mál þolir ekki langa bið.

Til þess nú að Alþingi verði kleyft að ganga frá þessu máli á viðunandi hátt, er nauðsynlegt, að gerður verði sem ítarlegastur undirbúningur milli þinga. Ef til vill þurfa einhverjir hv. þm. að vera þeirrar skoðunar, að þann undirbúning eigi stjórnin að gera. En þar til er því að svara, að Alþingi hefir haft þá reglu að láta milliþinganefndir undirbúa öll mikilvægustu og vandasömustu þjóðmálin. Skal jeg þar til nefna mentamálin, skattamálin, heilbrigðismálin og fossamálin. Jeg býst við, að það orki ekki tvímælis, að bankamálin sjeu eitt af stærstu og þýðingarmestu þjóðmálunum, og því sje full ástæða til að gera þeim sömu skil. Það er líka víst, að eitt misstigið spor á því sviði getur bakað þjóðinni ómetanlegt tjón. Og um það verður ekki deilt, að það skipulag, eða rjettara sagt skipulagsleysi, sem nú er á bankamálunum, er ekki einungis óviðunandi, heldur hættulegt efnalegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Það er því álit okkar flm. þessarar till., að rjett sje, að þingið skipi þriggja manna nefnd til að undirbúa þetta mál undir næsta þing. Yrði það þá meðal annars eitt verkefni hennar að gera till. um endanlegt og fast skipulag seðlaútgáfunnar, jafnframt öðrum endanlegum endurbótum á fyrirkomulagi bankanna.

Nú er enn fremur á það að líta, að þessi nefnd gæti einnig haft annað verkefni. Það vita allir hv. þm., að óhjákvæmilegt er að taka lán í útlöndum til þess að halda uppi viðskiftum landsins út á við. Gæti þá þessi nefnd verið stjórninni til aðstoðar og ráðuneytis um ráðstöfun á því fje.

Þá er og í þessu sambandi að geta þess, að líklegt er, að þingið geri þær ráðstafanir nú viðvíkjandi Íslandsbanka, sem ef til vill hafa það í för með sjer, að ríkissjóður kaupi hluti í bankanum. Er þá sjálfsagður hlutur, að rannsaka verður vel allan hag bankans áður en út í það er lagt, því ekki væri ráðlegt að kaupa „köttinn í sekknum“. Þessi nefnd virðist því sjálfkjörin til að framkvæma þessa rannsókn, og gæti þá um leið verið stjórninni til ráðuneytis, ef hlutakaup færu fram. Ætti svo nefndin að leggja skýrslu um þessi störf sín fyrir næsta þing.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um till., en minnast lítillega á brtt. þær, sem fram eru komnar. En það, sem jeg segi um þær, er upp á minn eigin reikning gert, því jeg hefi ekki borið mig saman við meðflm. mína.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 635, frá hv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Jeg get ekki felt mig við þá till., því að eftir henni á að stofna til nefndar á annan hátt en till. okkar fer fram á, sem sje að stjórnin skipi hana. En við viljum, að Alþingi kjósi 3 menn með hlutbundnum kosningum. Einnig tel jeg það galla á brtt., að hún gengur skemra en ákvæðið er í till. okkar á þskj. 623, og get jeg því ekki greitt henni atkv.

Þá er brtt. á þskj. 652 frá hv. samþm. mínum, hv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Um hana hefi jeg það að segja, að jeg gæti í rauninni fallist á annað orðalag á síðasta málslið fyrri málsgr. í okkar till. En síðari liður þessarar brtt. ruglar svo mjög efni aðaltill., að jeg get ekki gefið henni atkv. eins og hún er. Mætti ef til vill breyta henni svo, að jeg gæti fallist á hana. Jeg hygg því, að betra sje að geyma hana til síðari umr. í þeirri von, að samkomulag náist.