19.05.1921
Sameinað þing: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (3628)

143. mál, fjármálanefnd

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er einn meðal flm. till. á þskj. 623. þegar jeg skrifaði undir þá till., var tilgangur minn enginn annar en sá, að hin fyrirhugaða nefnd ætti að vera stjórninni til aðstoðar og meðráða um bankamálin í heild sinni og væntanlega lántöku ríkisins, og jeg hefi að engu leyti skift um skoðun í þessu efni síðan.

Till. er tvíliðuð. Fyrra atriði hennar lýtur að framtíðarskipulagi bankanna. Jeg tel þetta atriði sjerstaklega nauðsynlegt, eins og hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) tók fram, að skipaðir yrðu menn til þess að gera till. um framtíðarskipulag bankamálanna. Það mega gjarnan vera innlendir menn, ef þeir leita fyrir sjer til erlendra sjerfræðinga, sem reynslu og þekkingu hafa á þessum málum, því ekki er við því að búast, að við höfum innlendum mönnum á að skipa með fullkomna sjerþekkingu á þessum málum.

Hitt atriðið, sem till. beinist að, er, að væntanleg nefnd sje í ráðum með stjórninni um útvegun væntanlegs gjaldeyrisláns.

Frá sjónarmiði okkar, sem tjáð höfum okkur andstæða hæstv. stjórn, er talsverð trygging í því fólgin að hafa slíka nefnd stjórninni til ráðuneytis og aðstoðar. En auk þess eru og meðal tillögumanna nokkrir hv. þm., er eigi hafa talið sig andvíga stjórninni. Sje jeg því ekki annað en stjórnin geti verið ánægð með till. þessa.

Jeg er ósammála hv. þm. G.-K. (B. K.) um, að væntanleg nefnd eigi eingöngu að rannsaka bankamálið, og því ósamþykkari honum í því, að stjórnin eigi eingöngu að skipa nefndina. Og mjer kemur þetta kynlega fyrir, eftir því, sem hv. þm. (B. K.) hefir látið uppi um traust sitt á þessari stjórn. Hann sagði, að nefndin ætti að vera óháð bönkunum, og vil jeg undirstrika það, og enn fremur, að nefndin ætti að vera ópólitisk, og þætti mjer líka best fara á því. En það er síður en svo, að meiri trygging sje fyrir því, að nefndin verði óháð bönkunum og ópólitísk, skipi stjórnin hana.

Jeg skal viðurkenna, að í brtt. á þskj. 635 og 652 er ýmislegt gott, en jeg vildi beina því til flutningsmanna að taka þær aftur til síðari umr., því verði aðaltill. vísað til síðari umr., er öllu hægra að koma brtt. að þá.