07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

40. mál, póstlög

Magnús Pjetursson:

Jeg er fylgjandi brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) á þskj. 232. Það, sem meðal annars veldur því, er, að jeg er líkast til nokkuð kunnugri þessu máli heldur en ýmsir aðrir þm., vegna þess, að jeg hefi haft dálítil póstafgreiðslustörf með höndum. Meiri hlutinn af póstávísunum eru símaávísanir, og það getur því varðað allmiklu að gera þeim misjafnt undir höfði.

Hæstv. atvrh. (P. J.) talaði um, að mikil hætta væri á misritunum. Jeg skal benda á þá leið, að krefjast þess að merkið Tc., sem svo margir kannast við, sje sett á símapóstávísanir, til þess að tryggja þær gegn misritun.

Jeg rengi það ekki hjá hæstv. atvrh. (P. J.), að ávísanir sjeu stundum tvísendar, en það þarf ekki að koma fyrir. Því eins og háttv. frsm. (Jak. M.) tók fram, ætti hún þá að vera með sama númeri. Einkum er það þó óhugsandi, að pósthúsið borgi sömu ávísun tvisvar.

Hæstv. atvrh. (P. J.) segir, að símaávísanir verði oft að greiða jafnsnemma og þær koma. Jeg veit, að póstávísanir út um land verða oft að liggja lengi, án þess að afgeiðslan geti borgað þær, vegna þess að fje fæst ekki úr póstsjóði, en fyr er ekki hægt að borga.