24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3657)

48. mál, sambandslögin

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg mun leyfa mjer að hafa formála nokkum fyrir máli mínu um aðalefnið.

Í júlímánuði 1918 sátum vjer að samningum við Dani, er lauk með þeim hætti, sem fullkunnugt er. Mjer var það ljóst, að vjer ljetum mikið til við Dani, til þess að fá þá til að viðurkenna fullveldi vort. Mjer var og ljóst frá upphafi, að mótstaðan gegn sáttmálanum hefði gert miklu meira gagn, það er að skilja, ýtt meira undir góða framkvæmd hans, ef hún hefði ráðist meira á 7. grein en hún gerði. Því að höfuðgalli sáttmálans er sú grein, að leyfa Dönum að fara með utanríkismál vor um 20 ár, þótt í umboði sje. Vjer gengum þó að sáttmálanum, sem sjálfsagt var.

Eftir því, sem stóðst í odda með oss og Dönum um eðli sambands þess, sem var í verki milli landanna, var það eigi hyggins háttur að láta ónotað tækifærið til þess að fá þá til að viðurkenna fullveldi Íslands, þ. e. viðurkenna, að sambandið væri og skyldi vera hreint konungssamband, svo sem vjer höfðum ætíð haldið fram að vera ætti og væri. Þessu færi mátti ekki sleppa, jafnvel þótt 7. gr. yrði svo, sem hún er.

Hvað hefði orðið, ef vjer hefðum eigi lokið málum vorum við Dani áður en vopnahlje komst á? Þá hefði sannarlega alt staðið í sama farinu sem áður, og vjer staðið þeim mun ver að vígi sem heimurinn er orðinn verri eftir stríðið en fyrir það. Þó munu sumir hafa gert sjer vonir um, að oss mundi auðnast að losna að fullu úr öllu sambandi við Dani, ef vjer segðum skilið við þá, í stað þess að gera sáttmála við þá. Þessir menn munu hafa bygt vonir sínar á því, að Englar mundu vilja sýna það í verki á oss, að þeir væru verndarar smáþjóðanna, sakir þess, að þeir höfðu þá vernd smáþjóðanna mjög á orði. En það mundu hafa orðið hin mestu vonbrigði. Var mönnum vorkunnarlaust að muna, hvað gerðist fyrir rúmri öld. Þá áttu Englar í stríði við Dani og höfðu gert sig líklega til að losa Ísland undan danskri óstjórn.*) En þeir hurfu frá því óðar en friður var saminn í Kiel 1814.*) þeir kusu þá heldur vingan stærri þjóðarinnar og mundu hafa gert svo enn. Og þótt vjer hefðum losnað með tilstyrk Engla, þá mundu þeir vafalaust hafa áskilið sjer að vera verndarar landsins, og mundi sú vernd hafa komið nær sjálfstæði voru en 7. grein sáttmálans, þótt leið sje.

Jeg gerði og ráð fyrir því, að þjóðin mundi gæta þess, að í framkvæmd sáttmálans væri því öllu haldið til skila, sem í honum felst oss til handa af góðu. Jeg bygði og á því, að þjóðin mundi þegar hefja undirbúning undir atkvæðagreiðsluna eftir 1940, því að jeg þóttist vita, að sá Íslendingur væri enginn í landinu, að hann ætlaði sjer eigi þá að losna við 6. gr. og 7. gr. sáttmálans og aðra annmarka hans, ef hann verður þá yfir höfuð endurnýjaður.

Jeg gekk því nokkurn veginn óhræddur að samningnum. En nú gerast þó hræðsluefnin fleiri en jeg hugði um stund. þess vegna vil jeg gera skyldu mína og vara Íslendinga við að „fljóta sofandi að feigðarósi“, og hvetja þá til að krefjast viturlegra framkvæmda á sáttmálanum og staðfastrar aðgæslu á því, að rjettur vor sje hvergi fyrir borð borinn. Ástæður eru margar og miklar til slíkrar kröfu af hendi þjóðarinnar til þings og stjórnar, og skulu nú taldar nokkrar þeirra.

Fyrst vil jeg telja það, að sáttmálinn var saminn á skömmum tíma, og að mest af þeim tíma fór í þrátt um aðalatriði, en orðalag í ýmsum atriðum varð því eigi svo ljóst, sem skyldi. Kann því að orka tvímælis um skilning á einstökum atriðum, t. d. í § 7. Því er nauðsyn, að íslenska stjórnin haldi fast á þeim skilningi, sem hinir íslensku samningamenn og þingið lagði í sambandslögin, er það samþykti þau. Það tel jeg annað, að sáttmálinn gerir eigi með berum orðum ráð fyrir öllu, sem fyrir getur komið, sjá t. d. § 3. Þar er þá nauðsynlegt, að stjórn vor sjái um, að framkvæmdin verði samkvæm anda sáttmálans eftir vorum skilningi. Það tel jeg hið þriðja, að sjálfsagt má búast við því, að Danir reyni að teygja sáttmálann sjer í vil, sbr. skrif Knud Berlins um § 7 o. fl., og verðum vjer því vel að gæta vor og þola eigi nein undanbrögð eða rangar skýringar á ákvæðum sáttmálans. Það tel jeg hið fjórða, að stjórn vor gæti gleymt árvekninni, ef hún vissi eigi þá alþjóðar kröfu á hendur sjer, er hjer var nefnd, svo ríka, að hver minsta yfirsjón og vanræksla mætti endast henni til falls eða dóms. Það tel jeg hið fimta, að öllum almenningi þurfa þegar að verða kunn öll þau deiluatriði, sem fyrir koma, svo að hann lifi eigi í sífeldu tilhugalífi við Dani og haldi, að nú sje öllu vel borgið, hvernig sem með er farið. Hann verður að vaka yfir rjetti sínum og verður að vera óljúgfróður um fyrirætlanir og tilraunir hins aðiljans. Því verður stjórn vor að láta tafarlaust skríða til skarar um öll vafaatriði. Það tel jeg hið sjötta, að öll misgrip, sem verða í upphafi, verða að fordæmum, sem farið verður eftir síðar. Því er nú í upphafi mest nauðsyn á festu og skörungskap í framkvæmd sáttmálans.

Þá kem jeg að efni tillögunnar, að framkvæmd § 7. En til þess að ráða við sig, hverrar framkvæmdar skuli krefjast, þurfa þingmenn að gera sjer fyllilega ljóst, hvers konar samband nú er milli Íslands og Danmerkur.

Fullveldisnefndir Alþingis 1918 leiddu rök að því, að hjer væri um hreint konungssamband að ræða, og studdu þeir það mál báðir, Gjelsvik og Lundborg. Og með þessum skilningi samþykti Alþingi sambandslögin. Skýringar á vafastöðum mega því eigi koma í bág við þetta grundvallaratriði, og eru því allar slíkar skýringar útilokaðar. — Þar sem ákvæði sáttmálans (sambandslaganna) eru óljós eða ónóg, þá verður að fylla þau út eftir anda og grundvelli sjálfs hans og almennum venjum og hugtökum, er nú ganga meðal þjóðanna. par er nú annar mælikvarði.

Jeg vil þó geta þess, að Knud Berlin heldur því fram í bók sinni „Den dansk- islandske Forbundslov af 30. November 1918“, Kh. 1920, að sambandið sje málefnasamband af því að hann telur samið um að hafa sama konung. En Ragnar Lundborg hefir þó hrakið það gersamlega í „Syn og segn“ 1920 og í óprentaðri bók, þar sem hann sýnir fram á, að Ísland og Danmörk sjeu hvorki sambandsríki (Bundesstaat) nje ríkjasamband (Staatenbund), heldur sjeu ríkjasamningsaðiljar í samningssambandi (Staatenallianz).

Skilning þessara tveggja manna á § 7 er að sama skapi ólík. Knud Berlin segir á bls. 49, að Ísland geti eigi sjálft samið eða komist í sambönd við önnur ríki í 25 ár, og að konungur Íslands geti eigi komið fram fyrir þess hönd út á við og að hann geti hvorki sent erindreka nje tekið við þeim. Þetta þykist hann byggja á 7. gr. sáttmálans. Ragnar Lundborg kemst að gagnstæðri niðurstöðu með betri skilningi á sömu grein: „Ísland hefir ótakmarkað jus legationum, sendirjett og viðtökurjett, þ. e. a. s. sama rjett til þess að senda og taka við ríkjaerindrekum (diplomat) sem hvert fullvalda ríki hefir“. Knud Berlin hefir fylgismenn í þessuni skilningi, þar sem er Funder, skrifari dönsku samninganefndarinnar, sem heldur því fram í skrifi sínu um sáttmálann, að Íslendingar geti eigi sent ræðismann eða sendiherra til Kaupmannahafnar, heldur verði forstöðumaður í danskri stjórnarskrifstofu í Reykjavík og forstöðumaður fyrir stjórnarskrifstofu Íslands í Kaupmannahöfn að heita „skrifstofustjóri, deildarstjóri, stjórnarfulltrúi eða þess háttar“. Hafa þau nöfn aldrei heyrst hjer í Nd.

Þessar kenningar þeirra fjelaga hefir eigi aðeins Ragnar Lundborg hrakið með fyllstu rökum, heldur hefir og stjórn Danmerkur og konungur þess lands hrakið hana í verki. Því að hingað var þegar sendur danskur sendiherra, og hefir því Danmörk játað ótvíræðlega rjett Íslands til þess að taka við sendiherrum annara þjóða. Nú er Danmörk í sjálfsvald sett í 15. gr. sáttmálans, með hverjum hætti hún gætir hagsmuna sinna hjer, og er því hjer fenginn órækur vottur um skilning þeirrar stjórnar, sem var þá í Danmörku. En sem menn vita, var það sú hin sama, er samþykti sáttmálann.

Enn má nefna skilning, sem Alþingi mun seint ganga fram hjá eða telja ómerkan. En það er skilningur Alþingis sjálfs, sama þings, er samþykti sáttmálann. Það samþykti þessa grein með þeirri skilning, sem er í áliti fullveldisnefnda þingsins 1918 (Alþt. 1918, A, sambl.þ., bls. 24).

„Hið eina, sem í fljótu bragði gæti virst vera sameiginlegt, eru utanríkismálin. En það er þó ekki. Í fyrsta lagi gerir 7. gr. ljóslega ráð fyrir íslenskum utanríkismálum, og þótt annar þjóni oss eftir umboði, þá er og verður það eigi ástæða til að telja utanríkismálin sameiginleg. En auk þess liggur alt undir samþykki vort, sem gert er í þeim málum, og enn má geta þess, að vjer getum sent svo marga fulltrúa út, sem vjer viljum, og gætum því tekið alla meðferð utanríkismálanna sjálfir, þótt vjer tækjum eigi umboð af Dönum“. Næsta þing, skipað sömu mönnum, ákvað svo að senda íslenskan sendiherra til Kaupmannahafnar, og stjórn vor hefir nú framkvæmt það. Með þessu hefir þá þing og stjórn Íslands sýnt í verkinu, að þau telja Ísland hafa rjett til þess að senda sendiherra til annara ríkja. Og þetta hefir konungur Danmerkur og stjórn viðurkent, með því að veita honum viðtöku, svo sem og konungur Íslands og stjórn hafa neytt rjettar vors til þess að taka við sendiherrum annara ríkja, þá er hinum danska sendiherra var veitt viðtaka hjer. — Þá hefir og stjórn Þýskalands sent sendiherra til konungsins yfir Íslandi, og er sá í Kaupmannahöfn, þar sem konungur Íslands býr að jafnaði. Ekki er þá stjórn Þýskalands sammála Knud Berlin um það, að konungur vor geti eigi komið fram fyrir vora hönd út á við, og hefir hún sýnt þann skilning í verki. Og vafalaust mundi hún hafa sent hingað til Reykjavíkur þennan sendiherra, ef gengi marksins væri eigi svo lágt, sem það er. Því að þótt svo sje í orði kveðnu, að sendiherrar sjeu sendir konungum landanna, þá getur það eigi átt við hjer, þar sem svo sjerstaklega stendur á, að konungur er einn og ábyrgðarlaus í öðru landi. Ríkin verða að senda sendiherra sína hingað, því að hjer er sú stjórn, sem ræður utanríkismálum Íslands og ber ábyrgð á stjórnarstörfum konungsins yfir Íslandi.

Jeg geri mjer í hugarlund, að nokkrir kunni þeir menn að vera, sem nú vilja spyrja: Hvað vilt þú með þingsályktun, úr því svo margir skilja 7. gr. sáttmálans á þennan veg? Þar til svara jeg þessu. Jeg ávarpaði þá stjórn, er nú situr, þegar hún tók við, og bað hana lengstra orða að gera svo, sem segir í tillögunni. En hún hefir eigi verið svo skjót til framkvæmda, sem jeg hefði kosið. Nú vil jeg reyna, hvort eigi verður greiðara um framkvæmdirnar, ef deildin æskir þess öll. Í annan stað þykir mjer eigi víst, að allar danskar stjórnir til 1940 líti svo á, sem hin fyrsta. Og í þriðja lagi er eigi nóg að skilja slíkan sáttmála rjett, heldur þarf og að sýna öllum heimi skilninguna með framkvæmdinni. Við hinu er og hætt, sem fyr var sagt, að lengi búi að fyrstu gerð, og mun því eigi seinna vænna að gera alt, sem gera ber og með þeim hætti, sem vera ber.

Og nú er þar á að líta, hvernig beri að skilja 7. gr. sáttmálans, og hvern veg eigi að framkvæma hana. Fyrsta málsgrein hennar hljóðar svo: Danmörk fer með utanríkismál Íslands í umboði þess. Danmörk gerir Íslandi þann greiða að fara með utanríkismálin, þ. e. að reka erindi Íslands í utanríkismálum eftir umboði og fyrirsögn þess. Þetta er nákvæmlega sama eðlis sem greiði sá, er sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi gerði Englendingum í stríðinu, að fara með erindum þeirra þar (á dönsku: varetage deres Interesser). Samskonar umboð getur hver danskur sendimaður fengið til þess að fara með erindum vorum á þeim stað, sem hann er. Og utanríkisráðherra Dana getur því og orðið samskonar umboðsmaður vor til þess að flytja hinum einstöku sendimönnum vilja umbjóðandans í hvert sinn og í hverju máli. En hvorki hann nje þeir hafa nein umráð yfir því, hvað gert er, og þótt þeir vildu gera eitthvað upp á eigin hönd, þá er það ógilt, nema samþykki rjettra Íslenskra stjórnarvalda komi til. Ýmsir menn halda því fram, að 7. gr. sjálf sje það umboð, er hún nefnir. En sje svo, þá er það umboð innihaldslaust og þýðir því eigi annað en heimild til þess, að Danir þeir, er starfa að utanríkismálum þess ríkis, megi og taka við umboði til þess að fara með erindum Íslands, og heimild til þess, að Ísland eða stjórn þess megi gefa þetta umboð. En hið eina rjetta í framkvæmdinni er það, að hver sá danskur erindreki, sem vjer viljum láta starfa fyrir oss, fái til þess sjerstakt umboð frá oss, þ. e. frá utanríkisráðherra vorum, og síðan fyrirsögn fyrir hverju því verki, er hann skal vinna. Þetta skal og tilkynna stjórn hvers ríkis, þar sem slíkir umboðsmenn vorir eru, svo að þau viti, að vjer höfum þar sendiherra, ræðismenn o. s. frv. Enginn annar skilningur kemst að, þar sem vjer erum fullvalda ríki og höfum ekkert sameiginlegt við Dani, nema konunginn af hendingu. Þriðji liður greinarinnar sýnir, að greinin er að minsta kosti ekki sjálf umboð fyrir Dani að fara með öll vor utanríkismál. því að þar er gert ráð fyrir, að stjórn Íslands geti sent menn úr landi á sinn kostnað til að semja um sjerstök málefni. En þar sem sáttmálsgreinin sjálf er ekki neitt allsherjarumboð, þá sjest á því, að sjerstakt umboð verður að koma til, ef danskur erindreki á að fara með erindum vorum. Enn er þess að geta, að Danir hafa víða erindreka, þar sem oss er þeirra engin þörf. Þeir hafa þá ekkert umboð til að fara með utanríkismál vor, enda væri það óeðlilegt, þótt fyrsti liður greinarinnar heimili oss að gefa þeim það og þeim að taka. Ef vjer hins vegar þurfum að hafa erindreka þar, sem Danir hafa engan, þá getum vjer sent þangað íslenska sendimenn samkvæmt þriðja lið. Sýnir það og, að greinin er ekki umboð handa Dönum til þess að fara með öll vor utanríkismál.

Greinin er því rjett skilin svo: Danmörk gerir Íslandi þann greiða, að bjóða erindrekum sínum að fara með erindum Íslands, ef það og þar sem það vill gefa þeim umboð til. En Ísland hefir óskertan rjett til þess að láta sína eigin menn gera það, þegar það kýs, og hefir óskorað jus legationum, sendirjett og viðtökurjett. Rjett íslensk stjórnarvöld fullgera og staðfesta alla ríkjasamninga Íslands, samkvæmt 7. gr., 4. lið.

En hver eru nú þessi rjettu stjórnarvöld og með hverjum hætti veita þau samþykki sitt?

Ísland er fullvalda ríki og ræður öllum sínum málum sjálft, og þá einnig utanríkismálum. Rjett stjórnarvöld eru því sömu stjórnarvöld, sem ráða utanríkismálum í öðrum löndum: konungur, þing og utanríkisráðherra, eða aðrir ráðherrar, er undirrita þau með konungi.

Jeg hefi áður talið þá, er eigi aðeins neita því, að utanríkismál Íslands sjeu sameiginleg við Danmörk, heldur halda því fram, að íslenska konungsríkið hafi fullkominn sendiherrarjett, jus legationum, bæði sendirjett og viðtökurjett. Þeir voru Ragnar Lundborg, fullveldisnefndir Alþingis, Alþing 1918 og Alþing 1919, stjórn Íslands og konungur þess, stjórn Danmerkur og konungur og stjórn Þýskalands. Hjer við má bæta ágætum fræðimanni á þessu sviði, Gjelsvik. Því að hann ljet þessa skoðun ótvírætt í ljós, þá er jeg bar málið undir hann. Og enn skal þess getið, að Knud Berlin heldur því fram, að Ísland hafi sín sjerstöku utanríkismál, þótt þá verði óskiljanlegt, hvernig hann kemst að sinni niðurstöðu.

Niðurlagið á 4. lið 7. gr. sáttmálans er mjög óljóst orðað, þó var oss, hinum íslensku samningamönnum, frá upphafi ljóst, hversu rekja skyldi það hnoða. Og í undanförnum athugasemdum hefi jeg reynt að benda þm. á, hversu það skal gera. Orðin hljóða svo: „Ríkjasamningar þeir, sem Danmörk gerir eftir að sambandslög þessi hafa náð staðfestingu, skuldbinda ekki Ísland, nema samþykki rjettra íslenskra stjórnarvalda komi ti 1“. Þegar nú utanríkismál ríkjanna eru fullkomlega aðskilin, þá þarf eigi að setja í lög eða samning neitt ákvæði um, að ríkjasamningar þeir, er Danmörk gerir fyrir sjálfa sig, skuldbindi eigi Ísland. Það liggur í hlutarins eðli. Orðin geta því eigi þýtt annað en þetta: „Ríkjasamningar þeir, er danskir umboðsmenn gera fyrir Íslands hönd, eftir að sambandslög þessi hafa náð staðfestingu, skuldbinda eigi Ísland, nema samþykki rjettra íslenskra stjórnarvalda komi til“. Og það þýðir aftur, að umboð vort til danskra erindreka getur eigi náð lengra en til undirbúnings samninga. En samþyktin hverfur ætíð undir íslensk stjórnarvöld, þ. e. konung Íslands og þann ráðherra, er skrifar undir með honum, það er að segja venjulega hinn íslenska utanríkisráðherra. Ef þetta væri ekki svo, þá væru utanríkismál vor í fullri óreiðu. Ef t. d. danskur utanríkisráðherra undirritaði með konungi vorum samning við eitthvert ríki, þá væri það brot á 7. gr. sáttmálans, því að þá vantaði samþykki rjettra íslenskra stjórnarvalda, eða samningurinn væri með öðrum orðum ekki skuldbindandi fyrir Ísland. Einhver kynni að vilja svara þessu svo, að konungur Íslands væri þó rjett stjórnarvald og að þessi meðferð væri samkvæm 17. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir svo: „Konungur gerir samninga við önnur ríki“. En sá maður mundi hafa gleymt 1. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem stendur: „Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn“. því að samkvæmt henni verður ætíð einhver íslenskur ráðherra að bera ábyrgð á stjórnarathöfnum konungsins, ekki síður undirskrift samninga en öðrum athöfnum hans. En danskur ráðherra getur eigi borið ábyrgð fyrir Alþingi og yrði því konungur að vera einvaldur í utanríkismálum vorum, ef sú aðferð væri rjett, sem jeg gerði ráð fyrir, og væri þá brotin 1. gr. stjórnarskrárinnar. En þá þyrfti hann eigi heldur að ómaka neinn danskan, þýskan eða enskan eða rússneskan ráðherra til undirskriftar með sjer, enda væru þeir allir jafngildir til undirskriftar með konungi Íslands.

Þótt jeg hafi farið þessum orðum um ábyrgðina gagnvart Alþingi í utanríkismálum vorum, þá hefði þess eigi verið þörf, því að Lundborg hefir tekið þetta skýrt fram í „Serprent av Syn og segn 1920“, bls. 13. Skal jeg lesa orð hans með leyfi forseta:

I en konstitutionelt styrd stat måste altid någen minister taga det konstitutionella ansvaret även för utrikes politiken. Den danske utrikesminister ár en dansk ämbetsman och ingen unionell sådan och bär ej detta ansvar gentemot Ísland. Därav följer att nágen av de isländske ministrarna måste göra det.1)

En hitt skiftir þó mestu máli hjer í deildinni, að Alþingi 1919 og 1920 hefir haft þessa skoðun og lýst yfir henni í ekki ómerkara skjali en stjórnarskráin er. Seytjánda grein hennar hljóðar svo: „Konungur gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann eigi slíka samninga gert, ef þeir hafa í sjer fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til“. Þessi grein í sambandi við 1. gr. stjórnarskrárinnar sýnir, að skoðun Alþingis er nákvæmlega hin sama, sem jeg hefi nú lýst.

Jeg þarf því eigi að efa það, að þingið sje enn á sama máli. En mjer þykir það eigi nóg, að einhver af ráðherrunum beri ábyrgð á utanríkismálunum, heldur tel jeg nauðsynlegt, að öll utanríkismál hverfi undir einn ráðherra.

Jeg skal ekki fjölyrða mjög um sjerstaka liði tillögunnar.

Um 1. lið er það að segja, að ætlun mín með honum er sú, að öll utanríkismál hverfi undir einn ráðherra, er heiti utanríkisráðherra Íslands. Enginn skilji þó orð mín svo, að með þessu vilji jeg stofna nýt ráðherraembætti, en sjerstök skrifstofudeild verður að vera fyrir þau mál. Hitt er algengt, að einn maður gegni mörgum ráðherrastörfum. Tökum til dæmis forsætisráðherrann hjer. Hann er nú þegar bæði forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og kirkju- og kenslumálaráðherra. Þar hefir hann þriggja ráðherra starf, og tæki hið fjórða, ef hann yrði utanríkisráðherra. Jeg vil einkum færa þrjár ástæður fyrir því, að þessi breyting sje nauðsynleg: 1. Að óheppilegt er, að utanríkismálin þvælist milli allra skrifstofanna og enginn hafi yfirlit yfir þau.

2. Að óþægilegt er fyrir útlendinga að þurfa að hrekjast úr einni skrifstofu í aðra til þess að geta fundið þá menn, er utanríkismálin hafa með höndum og þeir eiga erindi sín við.

3. Að það er er ekki vansalaust þjóð og þingi að sjá ekki til þess, að haldið sje uppi heiðri landsins, en það er ekki gert, meðan landið hefir ekki sinn utanríkisráðherra.

Jeg vil minna hjer á orð eins hv. þm. í deildinni, er hann hafði nýlega um þetta á kosningafundi um daginn, að engan veginn væri það lítils virði, að sýnast vera það, sem maður er. Jeg hvet engan til að sýnast annað eða meira en hann er, en þótt einhverjir sjeu svo yfirlætislausir, að þeir vilji jafnan setjast í krókbekkinn, þá hafa þeir enga heimild til að sýna þá auðmýkt, þegar þeir fara með umboð þjóðar sinnar.

Að þetta sje framkvæmt, sýnist mjer ekki vera annmörkum bundið, og jeg skil ekki, að það ætti að geta móðgað neinn. Sáttmálinn ætlast beint til þess í 15. gr., að Ísland gæti hagsmuna sinna í Damörku, með hverjum þeim hætti, sem það vill, og þá einnig með því að senda þangað sendiherra og sýna með því, að vjer höfum jus legationum. En þótt vjer hefðum engin önnur afskifti af utanríkismálum, þá þyrftum vjer þó að hafa utanríkisráðherra yfir þessum eina sendiherra.

Jeg vil enn nota tækifærið til þess að minna á það, að ekki er nóg fyrir afskekt land, sem um margar aldir hefir hangið í perlufestinni Ísland, Færeyjar og Grænland, að senda í eitt skifti fyrir öll til ríkjanna skjal um það, að á því herrans ári 1918 hefði Ísland verið viðurkent fullvalda ríki. Stjórnmálamenn sitja ekki á hverjum degi í skjalasöfnum til þess að leita að einhverjum lappa um stjórnarfar Íslands. Þeir þurfa að vita þetta og skilja á annan hátt, ef að gagni á að verða. Þeir þurfa að sjá fullveldi vort í atburðum sjálfs lífsins og viðskiftunum við oss. En til þess að það megi verða, þurfum vjer að hafa sendiherra í útlöndum með fullkomlega jafnri virðingu við aðra slíka sendiherra og utanríkisstjórn hjer heima fyrir. Þetta mál er því hvorki tildur nje heimska, eins og sumir vilja halda fram, heldur er hjer um lífsnauðsyn að ræða og virðing þjóðarinnar í veði, ef eigi er framkvæmt.

Fáfræðin um Ísland er svo mögnuð, að rækilega þarf að taka þar í taumana. Það er því full þörf á íslenskri utanríkisstjórn, svo að þjóðirnar viti, hvar samningavaldið er, hvar hinn íslenski utanríkisráðherra er, enda taldi hæstv. forsrh. (J. M.) í ræðu fyrir skömmu, að nafnið væri þýðingarmikið.

Annar liðurinn hljóðar um það, að halda fast fram skilningi hins íslenska hluta ráðgjafarnefndarinnar, eftir 16. gr. sambandslaganna, að þeir menn sjeu íslenskir embættismenn, sem sendir eru eftir 7. gr. 3. lið þangað, sem engir danskir sendiherrar eru eða ræðismenn, og slíkt hið sama ráðunautar, sem sendir eru eftir sömu grein, sama lið.

Í fundargerð hins íslenska hluta dansk-íslensku ráðgjafarnefndarinnar frá 7. júní 1920, var 2. mál á dagskrá utanríkismál. í fundargerðinni segir svo:

„Að tilhlutun forsætisráðherra var rætt um væntanlegan sendiræðismann í Miðjarðarhafslöndunum. Út af þessu samþykti nefndin svolátandi yfirlýsingu: Nefndin lýsir því áliti sínu, að tjeður ræðismaður verði íslenskur embættismaður, enda þótt utanríkisráðherra Dana undirriti skipun hans í umboði íslensku stjórnarinnar, (var gert ráð fyrir, að hann gæti það á ábyrgð íslensku stjórnarinnar); að honum beri að senda skýrslur sínar beint til íslensku stjórnarinnar; að honum verði greidd laun og skrifstofufje beint úr ríkissjóði Íslands, og að skylda hans til að leggja fje í lífeyrissjóð og rjettur hans til lífeyris, þegar hann sleppir stöðunni, fari eftir íslenskum lögum. Og sama skilning heldur nefndin fram um ráðunaut (attaché), ef það yrði að ráði að senda hann í stað ræðismanns.“

Þessum skilningi vil jeg, að stjórnin haldi fram, ef ágreiningur verður, en það er eigi ennþá víst, að svo verði. þegar svo danska ráðgjafarnefndin settist á fund með oss, 5. ágúst 1920, svöruðu þeir þessum atriðum svo:

„I det vi erkende at Forbundslovens § 7 lader sig, hvad Sager af den foreliggende Karakter angaar, udföre i Praksis ad forskellige Veje, maa Nævnets danske Afdeling hævde, at den Ordning, som de Islandske Medlemmer af Nævnet har givet Udtryk i deres Erklæring i alt Fald ikke stemmer med de danske Medlemmers Opfattelse af Ord og Aand i Forbundslovens § 7, der forudsætter Enhed i det danske Udenrigsstyre, som paa Islands Vegne tillige varetager dettes udenrigske Anliggender, jfr. de fælles Bemærkninger til § 7. Den danske Afdeling maa forbeholde sig fornöden Tid til Sagens nærmere Overvejelse og til Forhandling med den danske Regering i Lighed med, hvad man maa antage, har fundet Sted for den islandske Afdelings og den islandske Regerings Vedkommende, hvorefter Sagen vil kunne optages til endelig Dröftelse indenfor Nævnet ved dettes Möde i kommende Aar.*)

Af þessu má öllum vera það ljóst, að hjer er ekki lýst neinu stríði af hálfu hins danska hluta nefndarinnar, heldur hafa þeir aðeins áskilið sjer frest til að ræða málið og bera sig saman við dönsku stjórnarvöldin,**) enda þótt þeir hafi skilið greinina öðruvísi.

Orð dönsku nefndarmannanna um, að danska utanríkisstjórnin þurfi að vera ein heild, lúta að athugasemdum samningamanna við 7. gr.: „Enda þótt danska utanríkisstjórnin, sem fer með utanríkismál Íslands í umboði þess, hljóti að vera ein, undir einni yfirstjórn, til þess að girða fyrir gagnstæðar ályktanir og framkvæmdir, hafa þó, o. s. frv.“ Þessi orð eru inn komin að tilhlutun hinna dönsku samningamanna, og vjer mótmæltum þeim eigi sakir þess, að skynsamlega upp tekin og rjett skilin eru þau rjettmæt. Og þar sem hinir dönsku samningamenn voru gáfaðir menn, þá verðum vjer að ætla, að þeir hafi lagt sama í þessi orð og vjer, þótt orðalagið megi telja villandi. — Hjer getur alls eigi verið að ræða um stjórnina í utanríkismálum Dana. Hún breytist hvorki nje raskast, þótt þeir fari með vor mál í umboði, hvort sem það er að öllu leyti eða nokkru leyti. Nei, hjer er átt við dönsku utanríkisstjórnina, sem fer með utanríkismál Íslands í umboði þess; hjer er átt við hina dönsku umboðsmenn, sem fara með mál vor. Hjer segir því, að stjórnin á utanríkismálum Íslands þurfi að vera ein o. s. frv. En það verður hún eins, þótt umræddir sendimenn verði íslenskir embættismenn, því að bæði þeir og umboðsmennirnir vinna undir einni yfirstjórn, undir utanríkisráðuneyti Íslands. Auk þess er til öryggis tekið fram í greininni, að umboðsmennirnir skuli fá að vita um, hvar og hvenær íslenskir menn koma inn í kerfið, til þess að samvinna geti verið á milli, eða með öðrum orðum til þess, að íslenska utanríkisstjórnin verði ein heild. Þetta liggur í athugasemdinni og annað ekki.

En því ber jeg þetta fram hjer, að stjórnin geti haft nokkum styrk að baki, ef til deilu kemur.

3. liðurinn er um það, að þessir sendimenn heiti sendiherrar. Og er það til þess, að þá hafi þeir lykla að dyrum og eyrum manna, sem þeir kæmist eigi annars til, eins og forsætisráðherra hefir tekið rjettilega fram hjer á þinginu nýlega.

4. liður, að samningar fyrir Íslands hönd verði gerðir af þessum mönnum. En til þess liggja þau rök, að sjálfs er höndin hollust, því að þótt útlendir menn væri allir af vilja gerðir, mundi þó giftudrýgra, að í stað þeirra kæmi íslenskir menn, fæddir og uppaldir við íslenska staðháttu, og nákunnugir íslenskum málum.

5. liður, að sjá um, að sendiherra vor í Kaupmannahöfn gangi þar að öllu til jafns við sendiherra annara þjóða. Því hefi jeg sett inn þetta atriði, að jeg hefi heyrt ávæning af því, að svo sje eigi áður.

í „Politiken“ 2. jan. hefi jeg nýlega lesið, að sendiherra vor hafi verið í konungsboði með þar tilteknum dönskum embættismönnum „og andre Rangspersoner“. Hvort af þessu megi ráða, að hann sje eigi í sendiherraflokknum, veit jeg ekki. En ef svo er, þá er slíkt óþolandi, og vil jeg skora á stjórnina að hlutast til um það, að sendiherra vor verði þar engin hornreka framvegis.

Jeg hefi og heyrt, að sendiherra vorum sje eigi ætlað að bera erindi sín upp fyrir utanríkisráðherra Dana sem öðrum sendiherrum, heldur forsætisráðherra. Jeg veit eigi sönnur á þessu, en ef svo er, þá er það gert til þess að villa öðrum sýn á því, hversu háttað er sambandi þessara konungsríkja. En nú gef jeg stjórninni tækifæri til að gefa skýrslu um þetta. Og ef alt er svo sem vera ber, þá má þessi liður falla niður.

6. liðurinn er af því fram kominn, að jeg sje í „Dansk Hof- og Statskalender“, að Jón Sveinbjörnsson einkaritari konungs Íslands, er þar talinn með dönskum embættismönnum, og er þar nefndur „Kabinetssekretær for Íslands Anliggender“, og sama mun hann hafa á nafnspjaldi sínu. þetta vona jeg, að stjórnin sjái um, að verði lagað, því það gæti haldið uppi endurminningunni um „hin sjerstaklegu málefni Íslands“, og er það bæði skaði fyrir Ísland og móðgun við hið íslenska ríki og konung þess.

Að lokum vil jeg svo beina þeirri áskorun til íslensku stjórnarinnar, að hún sjái um, að tilsvarandi bók komi út á íslensku fyrir Ísland, og í þeirri bók á J. Sv. að teljast, því að hann er ekki einkaritari konungsins í Danmörku, heldur konungsins yfir Íslandi.

þá er ráðgjafarnefndin átti fund í Danmörku síðast, þá fundum vjer að því, að Ísland eða Íslendingar væru í danskri starfsmannaskrá. Voru þá höfð góð orð um að laga þetta. En nú hefi jeg hjer milli handa nýja útgáfu alveg óbreytta að þessu leyti. Áskorun mín til stjórnarinnar er þá sú, að hún gefi út á hverju ári starfskrá (þ. e. Hof og Statskalender) fyrir Ísland, og einkum að hún sjái um, að oss sje eigi gerð sú háðung, að vorir menn sjeu settir í starfskrár annara ríkja, sem Ísland væri hluti úr þeim.

Jeg hefi áður við þessa stjórn reynt að koma ýmsu fram, sem miðar að því að efla sjálfstæði þess íslenska ríkis og fylgja fram rjettum skilningi sáttmálans, en hefi fengið daufar undirtektir, og það leitt til lítilla framkvæmda af hennar hálfu. Jeg er seinþreyttur til illinda, en nú er þó svo komið, að mjer er full alvara, að þessi tillaga nái fram að ganga, enda tel jeg ósennilegt, að þm. taki sjer það þrifaverk fyrir hendur að drepa niður rjettum skilningi á 7. gr. sáttmálans.

*) Í ríki með þingbundinni konungsstjórn verður ætíð einhver ráðherra að bera ábyrgðina, einnig í utanríkismálunum. Danski utanríkisráðherrann er danskur embættismaður og ekki sambandsráðherra og ber eigi þessa ábyrgð gagnvart Íslandi. Þar af leiðir, að einhver af íslensku ráðherrunum verður að gera það.

*) Þótt vjer játum, að 7. gr. sambandslaganna megi framkvæma á ýmsa lund í slíkum málum, sem þessu, verður þó hinn danski hluti nefndarinnar að halda því fram, að það fyrirkomulag, sem hinir íslensku nefndarmenn leggja til í yfir lýsing sinni, sje að minsta kosti ekki í samræmi við skilning hinna dönsku nefndarmanna á orðum og anda 7. gr., sem byggir á því, að danska utanríkisstjórnin sje ein, sem einnig fer með utanríkismál Íslands í umboði þess, sbr. sameiginlegar athugasemdir við 7. gr. Hinn danski hluti verður að áskilja sjer nægan tíma til nákvæmrar íhugunar á málinu og til að ræða það við dönsku stjórnina, svo sem vjer gerum ráð fyrir, að átt hafi sjer stað um íslensku nefndarmennina og íslensku stjórnina. Síðan má taka málið til úrslitameðferðar á fundi nefndarinnar næsta ár.

**) Hjer hjá oss leitar stjórnin ráða hjá nefndinni, en ekki öfugt.