24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3658)

48. mál, sambandslögin

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi sagt hv. þm. Dala. (B. J.), að jeg væri ófáanlegur, að svo vöxnu máli, til þess að ræða þessa till. við hann hjer í hv. deild. Jeg hefi enn fremur sagt honum frá því, að jeg hafi beðið hæstv. forseta að stilla svo til, að ráðuneytið gæti haft einkafund með hv. þm. á morgun til þess að gefa skýrslu um nokkur mál, þar á meðal að minsta kosti eitt af þeim atriðum, sem um ræðir í till.

Þá hefi jeg látið þess getið við hann, að jeg yrði að líta svo á, að í till. feldist vantraust á mjer, eða ekki fult traust á meðferð minni á þeim málum, sem um ræðir í till.

Mjer dettur ekki í hug, að hv. deild samþykki svo þýðingarmikla og athugaverða till. íhugunarlaust, og tel sjálfsagt, ef hún á fram að ganga, að henni verði vísað til nefndar. En jeg tel ekki fallið að ræða till. frá minni hálfu nú.

Mjer þykir þó rjettara að lýsa yfir því nú þegar, svo ekki verði um vilst, að verði till. samþykt endanlega þannig, sem hún nú er, þá tel jeg það vott um, að jeg hafi ekki það traust hv. deildar, sem jeg tel mjer nauðsynlegt til þess, að jeg geti haldið áfram því starfi, sem jeg hefi með höndum, enda tel jeg till. að ýmsu leyti svo athugaverða, að jeg vil ekki taka á mig ábyrgðina á henni.