09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3670)

48. mál, sambandslögin

Forsætisráðherra (J. M.) :

Það er að vísu svo, að þessi till. er mjög öðruvísi en þegar hún var fyrst fram borin. Sjerstaklega af því, að 4. liðurinn, sem alveg var ótækur, fellur burtu, þá verður till. öll önnur, og eins og stendur skilst mjer, að hv. flm. (B. J.) ætti að geta gert sig ánægðan með dagskrá hv. nefndar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) setti á þinginu 1920 þá kröfu fram, og krafðist þess af stjórninni, að einn ráðherrann hjeti og væri utanríkisráðherra. Jeg sagði þá og segi það enn, að jeg sje enga ástæðu til þess, og ef það er alvara hjá þinginu að heimta þetta af stjórninni, þá ætti það vitanlega að koma frá báðum deildum þingsins, en ekki aðeins að vera borið fram í þessari hv. deild.

Sumir hv. þm. munu má ske vera þeirrar skoðunar, að þetta kosti ekki neitt, sem er farið fram á í 1. lið till. En það er ekki rjett. Það kostar fje, og það talsvert.

Í framsöguræðu hv. þm. (B. J.), sem prentuð er, bendir hann á það, að ekki þurfi að bæta við ráðherra, og er það alveg rjett. En hann viðurkennir, að það þurfi að bæta við einni skrifstofu, ef meiningin er að skilja utanríkismálin alveg út úr, og því mun þetta hafa sjerstakan kostnað í för með sjer. Þessi mál hafa hingað til verið afgreidd á viðkomandi skrifstofum, og einn ráðherranna hefir svo skrifað undir brjefin, og skiljanlega hefir það engan aukinn kostnað leitt af sjer. En ef á að fara að gera sjerstakan greinarmun á þessu, þá er ekki hægt að komast hjá því, að talsverður kostnaður verði því samfara.

Jeg get ekki heldur sjeð, að okkar vegur vaxi nokkuð við þessa tilhögun. (B. J.: Minkar hann nokkuð?). Nei, en ef hann ekki vex, þá virðast mjer óþarfi að vera að kosta til þess, þar sem hægt mun að vinna að málunum á þennan hátt eftir sem áður. Jeg held, að hv. flm. (B. J.) geri of mikið úr því, að þörf sje á sjerstakri deild vegna þess, að útlendir menn þurfi að hrekjast milli deildanna. Því er svo hagað um þessi mál, að þau eru afgreidd af þeirri deild, sem þau heyra undir, t. d. símamál í sinni sjerstöku deild o. s. frv.

En ef stjórnarskifti yrðu og stjórn kæmi, sem hv. þm. (B. J.) vildi styðja, þá gæti hann krafist þess, að einn ráðherrann tæki upp þetta nafn. En sem sagt, þá stend jeg við það, sem jeg hefi sagt, að jeg sje ekki nauðsyn á því, að þetta nafn verði tekið upp. Jeg hefi ekki breytt skoðun minni á þessu eða þeim skilningi, sem jeg hefi lagt í þessa grein. Það er líka rjett, að það hefir engin áhrif, þótt Knud Berlin riti um þetta og skilji á annan veg, en ef ætti að fara að skrifa á móti því, þá ætti það ekki að vera með fáeinum línum, heldur með mörgum og góðum röksemdum.

Jeg er viss um, að það er langt frá því, að ráðandi menn í Danmörku vilji vanhalda samningana eða ganga á rjett okkar. Þetta vitum við hv. þm. Dala. (B. L?) báðir, og jeg get fullvissað hv. þdm. um, að sama hugsun er hjá þeirri stjórn Dana, sem nú er við völd.

Jeg held, að við þurfum ekkert að óttast þótt það kæmi fyrir, að skilningir okkar fjelli ekki saman um eitthvert einstakt atriði.

Ef átti að heimta þetta núna, þá hefði það átt að koma fram í báðum deildum, svo að alt þingið stæði á bak við, og það á ekki síður við 2. lið. Ef ágreiningur hefði risið, þá var það sjálfsagt frá þingsins hálfu að heimta af stjórninni að leggja málið í gerðardóm, og þá alt þingið.

Hv. þm. (B. J.) veit það, að það er skoðanamunur á því, hvort sendikonsúlarnir skuli teljast íslenskir eða danskir embættismenn. Það var meining þingsins að senda slíkan mann til Miðjarðarhafslandanna, og væri hann íslenskur embættismaður, en það hefir ekki getað orðið úr því vegna þess, að ágreiningur hefir orðið um þetta, hvort hann etti að vera danskur eða íslenskur.

Þessu var hreyft í ráðgjafarnefndinni í síðasta fundi hennar, hvort öll nefndin gæti ekki fallist á skilning hins íslenska hluta hennar og þá skilning íslensku stjórnarinnar og þingsins. En það var óskað eftir, að málið biði til næsta fundar, að mjer skilst, til að hugsa um málið og taka það til sjerstakrar athugunar. Mjer finst rjett að láta það bíða þangað til þessi nefnd kemur saman aftur núna í sumar. Jeg tel það ekki rjett, að Alþingi sje að blanda sjer í málið meðan það svo að segja er fyrir sáttanefnd.

Þegar jeg rak mig á þetta í fyrra sumar, er verið var að útnefna mann, er senda átti til Miðjarðarhafslandanna fyrir okkar hönd, þá kom það fyrst til athugunar hjá stjórninni, hvort hún ætti að leggja málið í gerðardóm. En jeg vildi ekki vekja mikla deilu út af því, og undir engum kringumstæðum fyr en búið var að bera það undir alt þingið. Þetta skilst mjer, að hv. þm. Dala. (B. J.) ætlist til, að sje gert. En ef það er ekki svo, þá er þýðingarlaust að vera að skora á stjórnina að gera þetta; hún hefir sagt sinn skilning á málinu, og það yrði enginn styrkur fyrir stjórnina, þó að þessa hv. deild samþ. ályktun í þessa átt. Það hefði enga þýðingu, nema ef beint er ætlast til, að þetta sje þegar lagt í gerðardóm. En ef hv. þm. Dala. (B. J.) ekki óskar þess, þá er þetta, eins og jeg hefi sagt, þýðingarlaust.

Jeg fyrir mitt leyti vildi ekki hafa neinn ágreining við Dani nú, og það mætti vonandi laga þetta í ráðgjafarnefndinni, svo að við mætti una. En svona samþykt mundi fremur spilla en bæta samkomulagið. Það gæti ekki heldur komið til mála, að stjórnin gerði neitt fyr en hún hefði borið sig saman við alt þingið. Þetta mun jeg svo láta nægja um 2. lið að svo stöddu.

Um 3. liðinn verð jeg að segja það, að jeg sje ekki, að vegur okkar verði meiri þó að þeir menn, sem við sendum til samninga við aðrar þjóðir, hjetu sendiherrar um stundarsakir. Það gæti beinlínis orðið hlægilegt. Það hafa oft verið sendir menn frá stórveldum til slíkra samningagerða án þess að hafa sendiherranafnbót. Það væri spaugilegt, ef við sendum mann á einhverja „konference“, ef hann væri sá eini, er bæri þessa nafnbót. Það verður að fara eftir því, sem er siður hjá allflestum þjóðum, þegar við þurfum að semja.

Jeg er alveg samdóma þeim hv. þm., er sagði, að þetta væri tildur að heimta það, að í hvert skifti sem sendir væru menn til að semja, að þeir skyldu nefnast sendiherrar, eða einhver þeirra. (B. J.: Það stendur í tillögunni, að þeir eigi allir að heita það). Jeg man það, hv. þm. (B. J.) þarf ekki að segja mjer það. Við vitum það báðir, að það má senda verslunarerindreka, en það heyrir undir 7. gr.

Mjer finst þetta alt svo þýðingarlítið, og get jeg ekki annað sjeð en að hv. þm. Dala. (B. J.) með þessu hafi náð því, sem hann hefir ætlast til, því það er ómögulegt, að hann hafi meint, að hún kæmi til framkvæmda, því þá hefði hann látið bera hana upp í hinni deildinni líka.