10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (3675)

48. mál, sambandslögin

Bjarni Jónsson:

Jeg vænti þess, að hæstv. forseti veiti mjer sama rjett sem öðrum frsm., og leyfi mjer að halda hjer dálítinn ræðustúf, þótt í þriðja sinn sje. Minna tillæti get jeg ekki sýnt hinum gráskeggjaða öldung þarna á horninu, arfþega Jóns Sigurðssonar frá Ísafjarðardjúpinu. Það er nú kann ske einhver munur að vera þingskepna úr Dölunum. Fylgir því minni vegur, en eigi þykir mjer ólíklegt, að þingskepnunni úr Dölunum veitist ljettara að valda sínum arfi en arfþega Jóns Sigurðssonar sínum.

Þá skal jeg snúa mjer að ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Jeg hygg, að það hafi ekki verið nema eitt atriði í ræðu hans, sem jeg þarf að svara. Hann sagði það, að framferði mitt gæti ekki talist fullkomlega „loyalt“ gagnvart danska hluta nefndarinnar. En þetta er fjarri sanni. íslenski hluti nefndarinnar ljet bóka álit sitt um þetta efni í fyrra, og var það þýtt á dönsku og fengið þeim í hendur, svo dönsku nefndarmennirnir máttu vel um það vita. Svo því er ekki hjer til að dreifa, að verið sje að vega aftan að þeim. Það var ekkert annað en þetta, sem jeg þurfti að svara hæstv. forsrh.

Þá mun jeg snúa máli mínu að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), arfþega Jóns Sigurðssonar. Þá kom kærleikurinn fram hjá hv. þm. (S. St.). Fyltist hann fjálgleik og miskunnsemi við mig og þótti ekki gustuk að fara illa með mig. En jeg get látið hv. þm. (S. St.) vita, að hann getur ekki farið illa með mig; hann fer aðeins illa með sjálfan sig.

Hv. þm. (S. St.) sagði, að allsherjarnefnd ljeti sjer í ljettu rúmi liggja allar vitleysur mínar og hártoganir. En það, sem jeg sagði, studdist við prentað mál, undirskrifað af öllum nefndarmönnum. Jeg held, að skrif þetta sje verk hv. þm. (S. St.), því að fáum öðrum trúi jeg til þess að hafa svo skarpan heila að geta raðað saman öllum þeim mannýgu hugsanahrútum, sem þar stangast. Og held jeg, að arfþega Jóns Sigurðssonar sje hollara að þegja en verða sjer oftar eins til skammar.

Þá er eitt dæmi enn um rökfimi þessa hv. þm. (S. St.), að hann telur íhlutun sama sem íhlutunarsemi. Hv. arfþegi Jóns Sigurðssonar! Mikil er heimska mannanna.

Þá sýndi hv. þm. (S. St.) dæmi prestmælgi sinnar, með því að kalla það lýðháskólatildur, hjegómagirni, flónsku, asnaskap, að hafa utanríkisráðherra fyrir Ísland, og hefi jeg ekki talið upp nema einn tíunda hluta af faguryrðum þessa kostaþingskjörgrips þeirra N.-Ísf. (S. St.). Það hefði sennilega þótt einkennilegt í Noregi um 1905, að kalla það tildur að vilja hafa norskan utan ríkisráðherra. Nú er líkt ástatt um Íslendinga, og sýnir þetta skilning hv. þm. (S. St.) á landsmálum. Það er ekki hæg að saka menn um það, þó að þeir verði elliærir, en hitt er miður ákjósanlegt, er þeir hafa áhrif á stjórnmál landsins.

Ummæli hv. þm. (S. St.) um Knut Berlin og Ragnar Lundborg voru tuggir upp eftir hæstv. forsætisráðherra. Það er satt, að Knud Berlin mun í litlum metum í Danmörku nú, en á skammri stund skipast veður í lofti. Hann hef haldið fram ákveðinni skoðun um þetta mál, og líkindi eru til, að stjórn Danmerkur fallist á hana, að minsta kosti um útsenda ræðismenn. Er því full ástæða til að hefjast handa hjer.

Hv. þm. (S. St.) þurfti ekki að nefna Ragnar Lundborg, því að hæstv. forsætsráðherra hafði tekið það alt fram áður. Jeg kannast við, að hann fór rje með, en þó að Ragnar Lundborg hafi verið í afhaldi hjá mjer, þarf jeg ekki að láta hann ráða skoðunum mínum.

Þegar hv. þm. (S. St.) hafði haft þetta upp, tók hann að mæla frá sjálfs síns brjósti, og voru það gífuryrði og fúkyrði að vanda. Hann talaði um mont, þrætugirni og annað, sem jeg nenni ekki að hafa yfir. Jeg býst við að Jóni Sigurðssyni hefði þótt gaman að hlusta á hv. þm. (S. St.), og hefur honum líklega ekki þótt það með öl spauglaust, að þm. kallaði sig arfþegi hans. Vitanlega hefir hv. þm. (S. St.) aldrei borið giftu til að hafa skilning á sjálfstæðismálum landsins, og nú þegar ellihroki hans meinar honum að fara að ráðum sjer vitrari manna, kemur allur sá misskilningur í ljós. Hv. þm. (S. St.) fær ekki skilið, hver hagnaður okkur megi að því verða, að fara sjálfir með mál okkar, en fyrir því hef hann sjálfur barist, þegar hann var á sínum rjetta stað, attaníoss. Nú blaðrar hann um sendiherra í öllum ríkjum, skrafar um 10–15 milj. kr. útgjöld til utanríkismála, og ætlar hann þá líklega ekki að vera eins knífinn við þá og hann er, þegar um fjárlögin er að ræða. Ef hann væri ekki farinn að ryðga í reikningnum og búinn að gleyma öllu því, sem hann hefir áður lært, vissi hann, að ekki er fram á annað farið en að einn ráðherranna hafi utanríkismál á hendi og heiti rjettu nafni utanríkisráðherra, og að stjórnin fylgi þeirri skoðun, að þeir menn, sem í stjórnarerindum eru sendir í önnur lönd frá Íslandi, heiti sendiherrar um stundasakir. Skyldi Jón Sigurðsson ekki hafa fallist á röksemdir þessa kosta og kynjagrips. Jeg sagði ekki skepna, því að það er hv. þm. (S. St.) ekki, nema þá skepna skaparans, ef skaparinn hefir getað skapað slíkt.

Það er rjett hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að til misklíðar er ekki komið, en jeg vil búa svo tryggilega og skilmerkilega um hnútana, að til hennar þurfi ekki að koma. Jeg sagði, að þetta væri rjett hjá hæstv. forsrh. (J. M.), en þó að hv. þm. (S. St.) hafi tuggið það upp, efast jeg um, að það hafi við annað að styðjast í höfði hans en illgirni til málsins. Hjer er aðeins um það að ræða, að undirbúa væntanlegan samning og samkomulag á komandi sumri, og gera það svo, að við stöndum ekki ver að vígi en Danir.

Margt var það, sem hv. þm. (S. St.) ætlaði okkur að gleypa, en fátt lagði hann til frá sjálfum sjer annað en tilhæfulausar staðhæfingar og skammaryrði. Hann bar það á mig, að jeg ætti mitt eigið afkvæmi. Þetta var sagt nokkuð oft í deildinni hjer fyrir skömmu um hæstv. stjórn, og þótti hæstv. forsrh. (J. M.) það þá heldur miður sæmilegt eða þinglegt. En arfþegi Jóns Sigurðssonar var svo lystargóður að eta það upp einu sinni enn, og honum velgdi ekki við, því að hann hefir eflaust sjeð hann svartan fyr. Því næst hóf hv. þm. (S. St.) ljótan munnsöfnuð, að sið sínum, og talaði aðallega um fúlegg. Hann þekkir þau úr Vigur.

Það er öllum kunnugt, að með sáttmálanum er hafið nýtt kerfi í íslenskum stjórnmálum. Með honum er lokið öllu sjermálastandi og deilum um það, hvort eitthvað sje sjermál eða sammál. Sá gamli afturhaldsandi, sem lýsti sjer í þessari deilu, er dáinn og grafinn, en eftir er aðeins kross á leiði hans, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann hefir fengið mál og kallar það nú gorgeir að berjast fyrir viðurkenningu á rjettindum Íslands. Í hjarta sínu gremst honum líklega, að nokkur skuli halda því fram, að rjettindi Íslands sjeu til, en það hefir Jón Sigurðsson sannað og mætti sá, er kallar sig arfþega hans, vita það. Það var skoðun Jóns Sigurðssonar, sem sigraði 1918. Þá fengum við viðurkendan þann rjett, sem hann sannaði, að við ættum. Þessa viðurkenningu vorum við yfirleitt búnir að fá á öllum sviðum nema einu, utanríkismálunum. Á þeim varð aðalbreytingin. Það vill löngum verða svo, þegar þjóð sækir rjettindi sín til annarar þjóðar, sem þeim hefir haldið, að utanríkismálin verða aðaldeiluefnið, af því að þau eru í raun og veru mikilvægust sjálfstæði þjóðanna. Svo var um Norðmenn og Svía, svo er um Íslendinga og Dani. Norðmönnum nægði það ekki, að þeirra menn voru skipaðir í sænsk virðingarembætti til þess að fara með utanríkismálin. Þjóðarmetnaður sá, sem Austmenn hafa varðveitt, krafðist þess, að þeir færu með þau sjálfir. Þeir voru þess albúnir að fara í stríð til þess að berjast fyrir þessum rjetti, en þó var málefnasamband milli Noregs og Svíþjóðar, en milli Íslands og Danmerkur er hreint konungssamband. þetta höfum við fengið viðurkent, og nú er aðeins eftir að framkvæma það. Utanríkisráðherra Íslands á að stjórna öllum utanríkismálum þess, skipa menn í þesskonar embætti, ráða starfi þeirra og skrifa undir allar ákvarðanir þar að lútandi með konungi. þetta er íslenska skoðunin. En arfþegi Jóns Sigurðssonar (S. St.) er á annari skoðun. Hann vill, að öll utanríkismál Íslands sjeu í höndum Dana, vill helst, að utanríkismál Íslands sjeu ekki til, og ef Ísland vill eitthvað skifta sjer af þeim, kallar hann það íhlutunarsemi. Hann segir, að nægilegt sje að hafa fengið rjettinn viðurkendan, þó að hann sje ekki notaður, og á hann sje gengið. Það á að salta þessi rjettindi, eða verra, það á að láta þau verða fúlegg úr Vigur.

Hv. þm. vita um, með hvaða hug sáttmálinn var gerður 1918. Það var til þess ætlast, að Íslendingar færu sjálfir með utanríkismálin, en til þess þurfti að hafa einhvern, sem bæri ábyrgð á þeim fyrir Alþingi. Ef svo verður ekki, flækjast þessi mikilsverðu mál milli stjórnarskrifstofanna, og framkvæmdir þeirra verða af handa hófi, eða þau verða alveg lögð í hendur Dana, og sjálfstæði Íslands er þá nafnið eitt. þetta ætti arfþegi Jóns Sigurðssonar að sjá, ef hann er sá frelsisgarpur, sem Ísfirðingar eflaust halda hann, úr því þeir senda hann á þing. Það var ljóslega til þess ætlast, að Ísland hefði jus legationum, enda hafði það fengið fulla viðurkenningu fyrir þeim rjetti. Frá Noregi komu heillaóskir, frá ríkisþinginu, en engin viðurkenning hefir enn komið frá norsku stjórninni, og hún hefir hjer aðeins ræðismann en ekki sendiherra. Það er þó ekki svo, að hún sje ekki full af velvildarhug til vor Íslendinga, en hún virðist ekki hafa skilið sáttmálann milli Íslendinga og Dana rjett, sem ekki er von, þar sem hann hefir ekki verið rjett framkvæmdur. Sænska stjórnin sendi sendiherra um stundarsakir í fyrra, en jeg sá í blaði, að þingið sænska hefði neitað fjárveitingu til sendingar sendiherra hingað. Vegna þess, hve slælegar hafa verið framkvæmdir allar á þessari grein sáttmálans, telja Svíar þar sennilegast móðgun við Danmörk, að senda hingað sendiherra, og ekki munu þær hljómsterku raddir um þjóðernisgorgeir, tildur, mont, uppskafningshátt og spjátrungsskap, sem ómað hafa hjer í sölum Alþingis, ýta undir erlendar þjóðir að sýna viðurkenningu á fullveldi Íslands. Jeg veit um þessar þjóðir, hversu velviljaðar þær eru Íslandi, og sjerstaklega íslenskri menning, og að ástæðan til þess, að viðurkenning hefir ekki komið enn frá stjórnum þeirra, er sú, að þær hafa ekki á rjettan hátt verið látnar vita um, hvern skilning beri að leggja inn í 7. gr. Þjóðverjar eru þeir einu, sem hafa sýnt fulla viðurkenningu á Íslandi, þar sem þeir hafa sent sendiherra til konungsins yfir Íslandi, sem búsettur er í Danmörku. þetta ætlast jeg til, að hv. þingmenn skilji. Það kann að vera, að það sjeu fleiri en þessi arfþegi Jóns Sigurðssonar (S. St.), sem vilja halda, að það sje illkvitni úr mjer, fúlmenska og þrætugirni, að jeg skuli halda fram rjettum skilningi á 7. gr., en vonandi verða þeir ekki margir. Það er ljettur leikur fyrir fulltrúa þessarar þjóðar, að bregðast henni þegar mest ríður á. En svik eru það, þjóðsvik, og svik við Alþingi 1918, og svik við rjettan málstað.

Af því að þessi hv. arfþegi Jóns Sigurðssonar er ræðumaður og vanur að tala bæði um það, sem er á himnum uppi og á jörðu, bendi jeg honum á kvæði eitt eftir Árna Garborg, þar sem maður nokkur, þjóðsvikari eins og hann, er að gera kölska reikningsskap gerða sinna, og segir:

Margir una þeim ljetta leik,

á lönd í friði herja.

Þig fylgispakur að fullu jeg sveik

það fólk, sem jeg átti að verja.

En hann getur þess líka, að fólkið hafi tekið þessu illa, og heldur áfram:

Nú burtu hræddir þeir hafa sig,

og hagnýtist illa verkið;

með hrolli stara þeir hvast á mig

og horfa á svikamerkið.

Svo biður hann kölska að taka það af, svo að hann geti borið höfuðið hátt hjá þjóð sinni, en kölski vill ekki verða við því, og segir:

Meinsvara brennisteins bragð á vör

best er mjer gleði fundin.

Og geðþekk er mjer þín frægðarför,

til fagnaðar þjóðin bundin.

Á hlið við Júdas og hlið við Kark

hlaust þú hið efsta sæti.

En höfuðs þíns biksvart brennimark

burt jeg ei numið gæti.

Það fylgir þjer yfrum æfihaf

og utar lífsins kveldi.

Það getur alls ekki gengið af

í gervöllum helvítis eldi.