10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

48. mál, sambandslögin

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal reyna að vera stuttorður, því að mál þetta hefir þegar tekið alt of langan tíma, þar sem vitanlega er alls ekki svo mikið, sem deilt er um. Okkur kemur saman um aðalatriðin, einkum hvað snertir 2. lið. Aðeins er deilt um það, að jeg áleit óþarfa að koma með mál þetta inn á þing, áður en stjórnirnar eru búnar að reyna að koma sjer niður á því máli með hjálp lögjafnaðarnefndarinnar. Mjer fanst óviðkunnanlegt að koma með það inn á þing, meðan það, eins og flm. (B. J.) rjettilega tók fram, svo að segja væri fyrir sáttanefnd. Og eins og kom fram í því, sem hann las upp, þá eru það stjórnirnar, sem fyrst eiga að hafa til meðferðar þau ágreiningsmál, sem fram kunna að koma. Það er ágreiningur um það, hvort taka eigi upp nafnið utanríkisráðherra og setja þá um leið upp sjerstaka stjórnardeild. En til þess að koma á fót slíkri skrifstofu þarf sjerstaka fjárveitingu. Það má vel komast af með það fyrirkomulag, sem nú er, fyrst um sinn; enn þá hefir ekkert rekist á.

Þá kem jeg að því atriði, sem ágreiningur er einnig um, að mjer finst engin þörf á því, að allir sendimenn, sem landið sendir, skuli bera sendiherranafn í hverju tilfelli.

Þetta er nú allur ágreiningurinn. Ef þingsályktunartillaga þessi verður samþykt, þá verður líka alt Alþingi að gera það, þar sem af því mundi leiða fjárútlát, og jeg gæti ekki tekið til greina slíka fjárveitingu aðeins frá annari deildinni.

En sem sagt, það er engin deila um aðalatriðin. Aðalágreiningurinn var frá byrjun um hinar till., sem nú er búið að taka burtu, og hv. þm. (B. J.) segir sjálfur, að að því leyti sem 1. lið snertir, þá er þar alls ekki spurning um 7. gr., því að þar er um algerl. innlent mál að ræða, svo það er mjög villandi að tala þar um framkvæmd á 7. grein sambandslaganna.

En eins og jeg sagði, þá getur stjórnin ekki tekið þessa þál. til greina nema hún komi frá öllu þinginu, auk þess sem fjárveiting yrði þá að fylgja.