04.03.1921
Neðri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (3682)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Bjarni Jónsson:

Jeg hygg, að í löggjafarsögu okkar Íslendinga sje um einna auðugastan garð að gresja hjá bæjarstjórn Reykjavíkur, ef leita skal að gerræði í löggjöf.

Kemur þetta gerræði í ljós í því frv., er hjer var næst áður til umr. Þar er einstökum flokki eigenda sýnt gerræði, með því að þeim er ekki gert jafnhátt undir höfði og öðrum eigendum.

Í því frv., sem hjer liggur fyrir, er einnig gerræði sýnt einstökum mönnum, og er í því fólgið, að bæjarstjórnin vill svifta alla þá kosningarrjetti, er eiga ógoldin skattgjöld í bæjarsjóð, þegar kosning fer fram. Er heimilt, samkvæmt frv., að strika út af kjörskrá, rjett fyrir kosningu, alla þá menn, sem ekki hafa greiðslum lokið til bæjarsjóðs, Þetta er gerræði við einstaka menn, en jafnframt ágætt vopn í hendi bæjarstjórnar til þess að hafa áhrif á kosningar. Hún heimtir gjöldin inn, og henni er í lófa lagið að ganga vægt eftir greiðslum hjá þeim mönnum, er henni eru andvígir, en strika þá síðan út af kjörskrá rjett fyrir kosningar. Mega nú allir sjá, hve þetta ákvæði frv. er rjettlátt og heppilegt.

Þó kemur fram í þessu frv. nokkuð, sem annars er fágætt hjá bæjarstjórninni, og það er, að í fyrri hluta frv. er um allmikla rjettarbót að ræða, þar sem feld eru niður bæði gjaldskylda og þeginn sveitarstyrkur sem skilyrði fyrir kosningarrjetti. En þegar til seinni hluta frv. kemur, keyrir um þvert bak. Því þar eru þær rjettarbætur teknar aftur, sem heimilaðar voru í fyrri hlutanum. Er þar ekki eingöngu sýnt gerræði einstökum flokki manna, heldur líka allri heilbrigðri hugsun, því fyrri og síðari hluti frv. stangast eins og reiðir hrútar.

Í fyrri hluta frv. er gjaldskyldan tekin burtu, og svo sveitarstyrkurinn, sem skilyrði fyrir kosningarrjetti. Þetta hvorttveggja er mikil rjettarbót. Er það einn mesti smánarbletturinn á íslenskri löggjöf, að slík skilyrði skuli eigi hafa verið niður feld úr stjórnarskrá vorri. En ekki er það mín sök, því jeg gerði alt sem jeg gat til þess að fá þessi skilyrði burt úr stjórnarskránni.

En enn þá heldur bæjarstjórnin fram skilyrðinu um óflekkað mannorð í þessu frv. Það þykir enn þá sjálfsagt og rjett, að flekkað mannorð svifti menn helgustu borgararjettindum. En flekkað mannorð er það kallað, ef menn þola refsingu fyrir hin stærri afbrot.

Sjálf tekur þjóðin sjer vald til þess að refsa slíkum mönnum, og mælikvarðinn á mannorð hennar og siðgæði ætti að vera sá, hvernig henni ferst við þessa menn.

Sumir vilja í þessu efni fylgja fram reglunni: „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“, og gæti þá samkvæmt henni refsing fyrir öll stærri afbrot varað æfilangt.

Aðrir halda því fram, að refsingin sje og eigi að vera afbrotamönnunum til betrunar. Og virðist sú stefna vera hjer ríkjandi, eins og nafnið „betrunarhús“ bendir til. Jeg vil nú ósagt láta, hvort sú betrunarvist og þau ágætu uppeldisbrögð, sem þar eru um hönd höfð, sjeu veslingum til góðs. En ef sú skólavist er afbrotamönnum til betrunar, þá ættu þeir ekki að koma verri út aftur. Og finst mjer þá harla undarlegt að banna þeim mönnum kosningarrjett og önnur borgararjettindi, sem ef til vill í mörg ár hafa notið fyrirmyndaruppeldis í betrunarskóla þjóðarinnar. En eins og nú standa sakir, er slíkum mönnum ekki aðeins bannaður kosningarrjettur, heldur hafa þeir einnig fyrirlitningu almennings.

Úr því nú bæjarstjórnin á annað borð gekk svona langt, eins og fyrri hluti frv. ber með sjer, þá tel jeg rjett, að gengið sje enn feti lengra og þessum mönnum leyft að fljóta með upp að kjörborði. Þeir eru ekki svo margir, að það geri nokkurn verulegan mun, og svo er hitt, að jeg fyrir mitt leyti treystist ekki að taka þá menn alla í ábyrgð, sem nú ganga óhindraðir að kjörborði, vegna þess, að þeir eru af almenningi taldir hafa óflekkað mannorð.

Svo er þetta alveg hugsunarvilla, þegar frv. fellir niður sem kosningarrjettarskilyrði skattgjald í bæjarsjóð og það að vera skuldlaus fyrir þeginn sveitarstyrk, að taka atkvæðisrjettinn af mönnum, ef þeir hafa ekki greitt sveitarútsvar sitt vissan dag þetta og þetta ár. Hvers vegna ætti að taka atkvæðisrjett af þeim, sem ekki getur borgað skuld sína við sveitarsjóðinn, þar sem hver önnur lögmæt skuld getur ekki svift menn atkvæðisrjetti. Þetta er mjög ósamhljóða hjá höfundi frv., að seinni partur greinarinnar tekur gersamlega aftur það, sem veitt er í fyrri setningunni og jeg tel vel gert og lofsvert.

Jeg vona, að hin háttv. nefnd, sem fer með málið hjer í deildinni, geti lagað það svo í meðferðinni, að þær rjettarbætur, er það ber með sjer, fái að njóta sín, en kippi burtu þessari hugsunarvillu, sem felst í því.