07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (3683)

120. mál, launalög

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að skrafa mikið um þetta mál nú við þessa umr., en eftir að hafa hlýtt á umr. hjer í deildinni get jeg ekki stilt mig um að benda nefndinni á ýmislegt, sem gæti komið henni að haldi.

Það er þá fyrst, að hæstv. forsrh. (J. M.), sem er talinn góður lögfræðingur, hefir bent á, að þessum lögum mætti alls ekki breyta, en hæstv. fjrh. (M. G.), sem líka er talinn góður lögfræðingur, virðist vera á þveröfugri skoðun. Nefndin sjer, að hjer hefir hún flókið viðfangsefni til að greiða úr, og lögfræðingar í allshn. geta nú, eftir þessa umr., farið að hugsa sig um, hvernig eigi að gera upp á milli þessara tveggja lögfræðinga, (B. H.: Þá snúum við okkur til lögfræðingsins úr Dölunum). Já, það gæti nú verið gott; hann er vitanlega hjer staddur, sýslumaður Dalamanna, en hann er veikur. Það, sem háttv. þm. (B. H.) ætti að harma, er nú það, að stjórnin er orðin sjálfri sjer sundurþykk, og að svo virðist, sem hæstv. fjrh. (M. G.) ætli að drepa hæstv. forsrh. (J. M.) af sjer.

Annað, sem jeg vildi benda nefndinni á, og virðist vera rík hvöt fyrir hana til þess að vinna að því, að slíkt stórmál, sem þetta, nái fram að ganga; það er fjárhagsvoðinn, sem nú vofir yfir oss. Úr honum þarf vissulega að bæta, og það á nú líka að gera hjer. Að hugsa sjer, að þessir stórmiklu fjármálaspekingar þessa þings skuli nú samt ekki finna neitt betra ráð til þess að bæta úr vandræðunum en að ganga í vasa embættismannanna. Þarna er fundinn sá rjetti gróðavegur, því að það má nærri geta, hvort ekki muni verða nokkrar miljónir, sem græðast, þegar litið er til þeirra, sem ríkið sjálft hefir tekið að sjer að launa. Nefndin ætti sannarlega að athuga þetta djúphugsaða fjárhagsbragð, sem á að bjarga landinu.

Það er einn embættismaður hjer á landinu, sem hækkað hefir í tigninni og orðið bæjarfógeti í stað lögreglustjóra, og hefði því átt að fá sömu laun og bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum. Hann hefir skaðast um 2400 kr., en nú vill hæstv. stjórn og þing ganga inn á að veita honum 2000 kr., og virðist hjer, sem þing og stjórn beinlínis láti múta sjer. Þetta hjer er nú svipað, og bendir í þá átt, að bæði sje nú þröngt fyrir dyrum um fjárhaginn, og góðir fjármálamenn sitji að starfi.

Jeg fyrir mitt leyti hygg, að allir dómarar sjeu hæfir að dæma í þessu máli. Það hefir verið úrskurðað hjer á þingi af hæstv. forseta, að embættismenn hjer greiði atkv. um slík mál sem þetta, þar eð þau snerta heila stjett, og frá því sjónarmiði mun verða litið á dómhæfi þessara manna. Ef ætti að fylgja sama mælikvarða, mætti enginn þm. og enginn embættismaður, ekki einu sinni hreppstjóri, greiða atkv. móti frv. Er það auðsætt, að með þessu máli þarf eigi að óttast það, að frv. falli. Er þetta nóg sönnun þess, að hjer á Alþingi sitja menn, sem vita, hvað þarf að gera, og hvernig á að koma því fram.

Vona jeg, að sú hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, gefi gaum þessum till. mínum og taki þær til greina.