20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

139. mál, vaxtakjör landbúnaðarlána

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hefi ekki öðru að svara hv. 1. þm. Árn. (E. E.) en því, að jeg álít hann vera barn, sem ekki hefir neitt vit á þeim málum, sem hann ber inn í þingsalinn.

Það er fásinna að hugsa sjer, að landsstjórnin geti ráðið vaxtakjörum bankanna. Jeg er viss um, að hv. flm. (E. E.) stendur einn uppi hjer á landi með þá skoðun. Þessi hv. þm. (E. E.), sem nú heimtar, að vextir af landbúnaðarlánum sjeu lækkaðir, gekk manna æstastur fram í því að fá þing og stjórn til þess að setja nú þegar á stofn sjerstaka lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem vitanlega getur alls ekki lánað undir 7–71/2%. (E. E.: Jeg hjelt, að hv. þm. (J. A. J.) væri búinn að fá nóga húðstrýkingu í veðbankamálinu). Já, jeg efast um, að mikið verði eftir af skinni hv. flm. (E. E.) eftir þessa frammistöðu. Það er annars ekki tími til kominn að dæma starf okkar beggja, en jeg er óhræddur við þann dóm, þegar hann fellur á sínum tíma. En jeg mun ekki gleðjast af því, þótt hans dómur verði harður.