19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Það er efni þessa frv. að heimila landsstjórninni fje til þess að láta framkvæma rannsóknir til undirbúnings virkjunar Sogsfossanna og lagningar járnbrautar austur í sýslur. Á Alþingi 1919 var samþykt þingsályktunartill., sem heimilaði fje til rannsóknar viðvíkjandi Sogsfossunum, en þar var járnbraut ekki tekin með. Þetta frv. er því víðtækara.

Út frá því er gengið, ef úr virkjun Sogsins verður, að þá verði um leið lögð járnbraut austur þangað. Nú hyggja menn, að hún gæti orðið hluti úr væntanlegri járnbraut lengra austur, og því er þetta látið fylgjast að.

Málið var í samvinnunefnd fossamála, og varð hún, að undanskildum einum eða tveimur mönnum, sammála um að leggja til, að það yrði samþykt óbreytt. Jeg vil því fyrir hönd nefndarinnar óska þess, að háttv. deild samþykki frv. óbreytt og flýti fyrir því, með afbrigðum frá þingsköpum, svo að það megi verða að lögum.