20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3726)

133. mál, undirbúningur slysa og ellitrygginga

Flm. (Jón Baldvinsson):

Út af síðustu orðum hæstv. atvrh. (P. J.) vil jeg geta þess, að þessi slysatryggingarlög, sem nú eru í Danmörku, eru þannig til komin, að sjerstök nefnd var skipuð 1910 til að samræma þau lög, er þá voru til um þetta efni, og leggja fastan grundvöll undir tryggingarnar, en í það er sami grundvöllurinn og bygt er á í till. minni. þessari endurskoðun var lokið 1911, en vegna veikinda innanríkisráðherrans tafðist það nokkuð lengi, og kom ekki fram aftur fyr en á árinu 1915.

Tryggingarmál hafa oft verið til umræðu hjer á Alþingi, en þau hafa, að því er mjer virðist helst, beinst að því að koma á innlendri líftryggingu, en minna um slysa- eða ellitryggingar. Þess vegna fanst mjer ástæða til að koma fram með þetta sjerstaklega. Og jeg álít það ekki lakara fyrir stjórnina, þótt þessi ákveðni grundvöllur, sem bygt er í till. minni, sje þegar lagður í tryggingarmálum okkar, og það því fremur sem einnig er bygt á því sama, hjá nágrannaþjóðunum, og verður fyr eða síðar ofan á hjer. Löggjöf okkar er líka í flestu sniðin eftir löggjöf frændþjóða okkar á Norðurlöndum, og því þá ekki að fara að þeirra ráði einnig í þessari löggjöf?

Dagskrána get jeg auðvitað ekki samþykt. Jeg tel ljettara fyrir stjórnina að starfa, þegar hún veit, á hvaða grundvelli hún á að vinna, og það er sú stefna, sem fyr eða síðar verður ofan á hjá okkur í tryggingarmálunum.