16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3742)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal vera stuttorður. Mig langar aðeins til þess að segja nokkur orð enn þá einu sinni við hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann segir, að allir á Suðurlandi telji, að hið eina rjetta sje að taka stórlán, og jeg sje ekki Skagfirðingum sammála í þessu. En það mun best fyrir hann að skifta sjer ekki af Skagfirðingum; þeir mundu síst ljá honum lið á fjeglæfrabraut hans.

Fyrirspurnina um, hvar jeg hafi fundið 25 milj. kr., get jeg varla virt svars. En nú skil jeg, hvers vegna hv. þm. (Gunn. S.) er svo áleitinn við mig. Hann mun þurfa á fje að halda og vill ná í eitthvað af þessari fjárhæð, sem hann heldur að jeg hafi fundið. En „betur máttu ganga að, mannskræfan“, ef náð skal í nokkuð af því. Annars er þess að geta, að hinn umtalaði reikningur er eftir hagstofuna, en ekki eftir mig.

Jeg skil varla, að þessi hv. þm. (Gunn. S.) verði tekinn alvarlega hjer eftir, þegar hann er orðinn ber að því að ganga frá því, sem hann segir í margra votta viðurvist, og ber fram till., sem hann lýsir yfir að hann greiði atkv. á móti.