17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3748)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg ætla mjer ekki að eltast við persónuleg illyrði eða hnútur, sem varpað hefir verið í minn garð, svo sem því, að jeg sje meðalmaður, sem sækist eftir vegtyllum. Slíkt kemur þessu máli svo lítið við. En hv. 1. þm. Árn. (E. E.) vil jeg segja það, að hann kemst aldrei svo hátt að vera talinn meðalmaður. Hann verður að láta sjer nægja að vera af öllum hv. þingmönnum talinn skilningslaust grautarhöfuð og þokuhali þeirra reikistjarna, sem honum stjórna og teyma hann fram og aftur eins og hund í bandi um hið pólitíska Ódáðahraun, er þeir hafa búið til.

Það er annars þessi hv. þm. (E. E.), sem einna mest hefir kveðið að hjer í andófinu og hæst hefir látið í, og hefir málstaðurinn fengið þar verðugan leiðtoga. Hann talaði allmikið um bankamál, og á þann hátt, að skoðast mætti sem heimboð til að rannsaka bankann hjá sjálfum honum. Annars þarf jeg ekki annað til að komast að raun um fjármálaspeki þessa hv. þm. (E. E.) en líta í reikninga útibús þess, fyrir árið 1919, er hann stjórnar. Þessir reikningar sýna sem sje það, að þessi hv. þm. (E. E.) hefir á því ári unnið það meistarastykki að láta útibúið tapa, einmitt á því ári, sem allir bankar og allir sparisjóðir græddu meira en nokkru sinni áður, Íslandsbanki t. d. 21/2 milj. kr. Þetta er nú fjármálaspeki hv. 1. þm. Ám. (E. E.). það er ekki furða, þó að hann geri sig breiðan og látist hafa vit á fjármálum og bankamálum. það er ekki furða, þó að hann telji sig sjálfkjörinn dómara í slíkum málum, hann, sem hefir 1919 stjórnað útibúinu sínu heimskulegar en nokkur dæmi eru til hjá fákænustu sparisjóðsstjórnum. Það er ekki furða, þótt þessi pólitíski reikistjörnuhali geri sig að dómara yfir mjer. En jeg læt hann vita, að jeg viðurkenni ekki hans dóm og bíð rólegur dóms þess hjá þjóðinni, sem hann ætlaði að hræða mig með. Við verðum báðir dæmdir við næstu kosningar, og get jeg vel beðið þess. Annars koma bankamálin í heild sinni til umræðu síðar, og gefst þá fari á að segja nokkur alvöruorð við þennan hv. þm. (E. E.), ef hann skyldi þá enn vera eins upp með sjer og nú.

Það var sagt í gær, að stjórnin hefði ekkert gert til þess að hjálpa atvinnuvegunum. Alt á að vera stjórninni að kenna, — það er svo sem ekki nýtt. Það er einstaklega þægileg aðferð fyrir þá, sem ekkert geta sjálfir, að slengja öllu á aðra, og þá helst á stjórnina.

Mjer skildist þessi sami hv. þm. (E. E.) álíta, að stjórnin hefði ekkert gert til að hjálpa Árnessýslu í fyrra í harðindunum. En hafi svo verið, fer hann vísvitandi með rangt mál, því hann veit, að stjórnin sendi þangað mikið af síld til skepnufóðurs og lánaði sýslunni andvirðið, og mikið af því er óborgað enn. Fól sýslunefndin hv. þm. (E. E.) að innheimta andvirðið, en hann hefir nú með sínum venjulega dugnaði sagt því starfi af sjer, eftir að hafa marglofað borgun eftir skamman tíma.

Ummæli þm. (E. E.) um yfirráð mín yfir bönkunum sýna svo mikla vanþekkingu, að allir þm. aumka hann. Veit hann þá ekki, að það er atvinnumálaráðherra, sem er yfirmaður bankanna?

Um lán handa ríkissjóðnum fór hann mörgum orðum, sem jeg hefi svarað á öðrum stað og hirði eigi að endurtaka hjer, en mikil er sú heimska, sem lýsir sjer í því, að alt megi bæta með lánum.

Þá var sami hv. þm. (E. E.) að tala um það, að veðdeild Landsbankans væri ómöguleg, og getur hann, sem starfsmaður bankans, átt um það við sjálfan sig og sína yfirboðara, hvernig hann fer hjer að því að halda uppi virðingu og áliti bankans. Eina bótin er, að enginn tekur mark á orðum hans.

Þá kom hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og vildi helst tala um viðskiftahöftin, og kom þar með gamlar og marghraktar missagnir um afstöðu stjórnarinnar. Þarf jeg ekki að rekja það hjer, en get vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt um málið. En að öðru leyti skal ekki standa á stjórninni, þegar þessi mál sjálf koma hjer til umræðu.

Svo kom hv. þm. Dala. (B. J.), og var nú tiltölulega vingjarnegur í minn garð, — hældi mjer jafnvel, — þó að hann hafi að sjálfsögðu orðið að vinna það upp á samverkamönnum mínum í stjórninni. Eitt aðalatriðið, sem hann talaði um, var annars gamla gróðasagan um lánið í Ameríku, þetta mikla bjargráð, sem stjórnin á að hafa vanrækt. Um þetta má auðvitað deila að eilífu. En benda má þó líklega á það, að hingað til hafa Ameríkumenn ekki verið taldir þeir skussar í fjármálum, að þeir færu að lána svona eitthvað út í loftið, aðeins til þess, að aðrir gætu grætt á þeim, og er sennilegt, að þeir hefðu eitthvað sjeð við þeim leka, að ekki færi gengismunurinn alveg í vasa okkar. Að minsta kosti hafa þeir sjeð fyrir því, er aðrar þjóðir hafa tekið lán. En fjármálaspekingurinn frá Vogi treystir sjer náttúrlega betur en öðrum til að fá hagkvæmt lán, en hitt er annað mál, hvort aðrir treysta honum jafnvel.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að viðskiftahöftin hjeldu uppi dýrtíðinni í landinu, og að kaupmenn vildu afnema þau, svo þeir gætu jafnað verðfallinu milli þeirra vörutegunda, sem þeir hafa nú, og þeirra, sem þeir flyttu inn á næstunni. Ef þetta er rjett, þá er betra, að höftin hafi verið, því þá hafa kaupmenn ekki getað keypt eins mikið inn áður en verðfallið kom. (B. J.: Því verra, sem búið er að borga meira). En eftir því, sem minna er innflutt, því minna þarf að borga.

Þá þótti hv. sama þm. (B. J.) það undarlegt og ekki afsakanlegt, að stjórnin skyldi ekki taka síldina í sínar hendur. Það er nú svo komið, að ef stjórnin tekur einhverja vöru til þess að selja hana fyrir framleiðendur, þá er hún skömmuð, og geri hún það ekki, er hún líka bannsungin.

Viðvíkjandi barnakennurunum er það að segja, að það er ekki jeg, sem hefi kveðið upp þennan umtalaða úrskurð, heldur fyrirrennari minn, flokksbróðir þingmannsins, eins og hv. þm. (B. J.) hlýtur að vita. Jeg hefi ekki annað gert en að fylgja þeim úrskurði, sem búið var að fella áður en jeg tók sæti í ráðuneytinu. En vitaskuld álít jeg úrskurðinn rjettan.

Að jeg breyti fjárlögunum eða borgi ekki út upphæðir þær, sem þar eru nefndar, er fjarstæða. Og það er misskilningur, að stjórnin sje skyldug að borga út alt, sem í fjárlögunum stendur, ef því er að skifta. T. d. ef maður deyr, sem á að fá styrk, hverjum á þá að borga? Eða ef maður tekur að sjer annað starf og sinnir í engu því, sem hann átti að fá styrkinn til, á þá að borga honum út? Nei, það getur ekki verið nein ástæða til að heimta slíkt af nokkurri stjórn.