17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Sigurður Stefánsson:

Það mætti nú virðast að bera í bakkafullan lækinn að standa hjer upp og ræða um till. þá, sem liggur fyrir, svo mikið er búið um hana að segja, með og móti, og þó finst mjer, að jeg verði að kveðja mjer hljóðs.

Jeg bjóst við, þegar vantraustsyfirlýsing þessi kom fram, að á bak við hana lægju svo margar og þungar sakargiftir á hæstv. stjórn, að allir heilvita menn hlytu að sjá þær, þegar farið væri að reifa málið. Reynsla undanfarandi þinga hefir verið sú, að aldrei var af stað farið með slíkar till., nema nógar og gildar ástæður væru fyrir hendi. Jeg bjóst því fremur við þessu, af því að nú eru þeir tímar yfir okkur og fram undan, að þingið hefir annað og nauðsynlegra að starfa en að eyða í þetta mál, illa undirbúið, svona miklum tíma eins og raun hefir á orðið. Og það verð jeg að segja, að magrari framsöguræðu í slíku máli sem þessu hefi jeg aldrei heyrt heldur en hv. flm., þm. Dala. (B. J.), flutti hjer í gær. Öll þau atriði, sem hv. flm. (B. J.) bygði vantraust sitt á, hefir stjórnin nú hrakið lið fyrir lið, og það með miklu betri rökum. Því sá galli er á öllum þessum ákærum, þó að leitað sje með logandi ljósi, að þær byggjast sumpart á litlum eða engum rökum. Enda bera ræður þeirra manna, sem með vantraustinu hafa talað, merki þess, sem Matthías kveður einhversstaðar. Það eru „dauðastunur og dýpstu raunir“ yfir öllu þeirra röksemdaleysi.

Stjórninni er í raun og veru kent um alt, sem miður fer nú í þjóðlífi okkar Íslendinga. Jeg ætla ekki að nefna neinn sjerstaklega af þessum hv. deildarmönnum, sem móti henni hafa snúist. En þeir hafa allir, eftir því sem mjer skilst, ætlast til, að þessi ársgamla stjórn ætti að vera jöfn guði almáttugum. (Atvrh. P. J.: Eða jafnvel betri).

Stjórninni er kent um, hvernig sjávarútvegurinn sje kominn og hvernig síldarmarkaðurinn hefir verið og er í útlöndum. En hjer kemur nú það til greina, að síldarútvegsmennirnir hafa ekkert kært sig um afskifti stjórnarinnar í því máli. Og jeg verð nú að segja það, að jeg skil ekki svo hlutverk neinnar stjórnar, að hún eigi óbeðin að troða sjer inn í verkahring og atvinnuvegi þjóðarinnar. Það er ekki lengra síðan en 1918, að stjórnin tók að sjer að selja síld fyrir útgerðarmenn. Og henni tókst það vonum betur. Þó sögðu ýmsir á eftir: Þetta er illa selt. Við hefðum getað fengið hærra, hefðum við mátt ráða. Þetta eru nú þakkirnar. Og meðan þing og stjórn fær slíkar þakkir fyrir vel unnin störf vil jeg, að þeim sje svarað: Þið verðið að hjálpa ykkur sjálfir.

Þetta er nú ein af dauðasyndum stjórnarinnar, að síldarmarkaðurinn hefir brugðist á Norðurlöndum. Finst ekki hv. deildarmönnum þetta undarleg ákæra?

Þá er stjórninni gefið það að sök, að botnvörpuskipin liggja hjer við landfestar og fara ekki á flot. Hefir stjórnin lagt nokkrar hömlur á þennan útveg ? Eða hafa útgerðarmennirnir komið til stjórnarinnar og beðið hana hjálpar?

Jeg held, að einhverjar aðrar og dýpri ástæður liggi hjer til grundvallar. Útgerðarmenn hafa keypt skipin á óhentugum tíma. Átti stjórnin að banna það, úr því enginn leitaði ráða hennar? Verðið á afurðum hefir fallið, og nú treysta útvegsmennirnir sjer ekki til að halda þessum dýru skipum úti.

Er nú þetta dauðasök á stjórnina? Átti stjórnin í sumar, áður en sjeð var fyrir þetta fjárhagsöngþveiti, að taka lán, sem hún hafði ekki hugmynd um að nokkur vildi nota?

Og nú er heimtað af henni að taka lán til að styrkja þá, sem fullyrða, að ómögulegt sje að halda úti án þess að tapa stórfje. Sumir eru nú það efnum búnir, sem betur fer, að þeir myndu geta haldið úti skipum sínum án nokkurrar lántöku, ef þeir sæju það ekki fyrir, að útgerðin getur á engan hátt borið sig. Það hljóta allir að geta litið í sinn eigin barm um þetta efni. Það gera víst fáir að gamni sínu að tapa stórum fjárhæðum, eða halda uppi atvinnurekstri, sem á engan hátt ber sig. Og nú er heimtað af stjórninni að hlaupa undir baggann og hjálpa. Jú, það skyldi gleðja mig, ef hún gæti það, þ. e. a. s. betur heldur en bankarnir, en hvernig geta menn ætlast til, að stjórnin eða ríkið „financieri“ fyrirtæki, sem hinir vitrari menn og fróðu á þeim sviðum segja að sjeu dauðadæmd í bili ?

Stjórninni er kent um, hvernig landbúnaðurinn sje kominn, og að hún eigi sök á því, hvað bændur sjeu illa staddir. Gat stjórnin sjeð fyrir, að svona gæti farið? Jú, segja andstæðingar stjórnarinnar, hún átti að sjá það, hún átti að taka lán til að hjálpa í væntanlegri neyð. En hjer rekur að sama, góðir menn, og með sjávarútveginn. Þessi atvinnuvegur er svo hlaðinn skuldum á skuldir ofan, að bankarnir geta ekki lánað. Og þegar peningastofnanirnar geta ekki lánað, á þá ríkið að taka reksturinn? Jeg get ekki sjeð, að hægt sje að saka stjórnina í þessu efni.

Þá er stjórninni kent um, að Íslandsbanki sje kominn í fjárkröggur, og því haldið fram, að stjórnin hefði átt að troða peningum upp á bankastjórnina, að henni nauðugri. Bak við allar þessar lántökur liggur ekki sú hugsun, að bjarga atvinnuvegunum, heldur það, að atvinnurekendurnir eigi að lifa og deyja upp á stjórnarinnar náð. En slíkur hugsunarháttur er áreiðanlega vissasta ráð til þess að fara með landið á hausinn. Landsstjórnin á ekki að vera hvekkur í hvers manns koppi. Hún á ekki að blanda sjer inn í þau mál, sem einstaklingar þjóðarinnar vita miklu betur deili á.

Stjórninni er kent um gjaldeyrisskortinn, og þó vita allir, að ráðstafanir hennar voru allar í samræmi við vilja síðasta þings. þingið verður því að ásaka sjálft sig fyrir að hafa gefið þessar heimildir. En nú er það vitanlegt með þennan gjaldeyrisskort, að hann er ekki eins dæmi hjá okkur. Hann er engu minni í öðrum löndum, enda eru sömu ráð höfð þar og hjer. Það má nú segja sem svo, að stjórnin hefði getað ljett af þessum viðskiftahöftum fyr, en jeg verð þá að segja fyrir mig, að hefði jeg verið í stjórninni, þá hefði jeg talið rjettara, þegar svona skamt var til þings, að láta slíkar ráðstafanir bíða og lofa þinginu að hafa síðasta orðið um það mál.

Það, sem felst þá í öllum þessum ásökunum, sem komið hafa fram í umr. og stefnt er að stjórninni, er þá þetta: Stjórnin á alstaðar að grípa fram í, þegar atvinnurekendum gengur ekki alt að óskum, með öðrum orðum, stjórnin á að búa fyrir alla atvinnurekendur landsins. En slíkum hugsunarhætti mótmæli jeg; hann er siðspillandi, enda leifar frá þeim gamla tíma, er Íslendingar lifðu og dóu upp á kongsins náð.

það er eins og þurfi að gera alt aðrar ráðstafanir hjá okkur en hjá öðrum þjóðum. Þær telja viðskiftahöftin bjargráð, og næsta þjóðin okkur, Danir, munu nú hafa sannfærst um, að viðskiftahöftunum hafi verið of snemma ljett af þar í landi. Með þessu segi jeg ekki, að halda eigi þessum höftum, enda mun í ráði að upphefja þau. En svo skulum við bíða og sjá, hvernig fer. Þessi höft voru lögð á viðskiftin samkvæmt ályktun þingsins. Hefði stjórnin tekið slíkar ráðstafanir upp hjá sjálfri sjer, hugsa jeg, að margir hefðu frekar orðið til þess að ásaka hana. En einmitt af því, hvernig henni hefir farist í máli þessu, á hún miklu fremur skilið að fá þakkir þings og þjóðar.

Jeg ætlaði ekki að fara í orðahnippingar við einstaka hv. deildarmenn. Það hefir mikið verið talað um „lánleysi“ stjórnarinnar, en hvernig sem fer um þessa vantraustsyfirlýsingu, þá verð jeg nú að segja það, að á henni er hinn mesti lánleysisblær.

Annars er hún alleinkennileg, þessi fjármálapólitík, sem nú hefir stungið upp höfðinu hjer í deildinni. Það er altaf klifað á því að taka lán á lán ofan, en aldrei minst á það, að lán þessi þurfi að borga, og hvernig eigi að borga þau. Og hvar á að taka fje í afborganir og vexti? Ja, kannske með nýjum „hengingarvíxlum“? Eða á að hækka skattana? Svari nú þeir, sem hafa horn í síðu þessara nýju skattafrv. stjórnarinnar. Það er hægt að taka lán til arðvænlegra fyrirtækja; þau eru ekki hættuleg. En þessi eyðslulán, sem upp eru jetin fyrirfram, koma þjóðinni og ríkinu á kaldan klaka fyr en síðar.

Hvað sem sagt verður um Magnús Stephensen landshöfðingja, sem jeg þekti sem stjórnmálamann í 20 ár, og betur heldur en nokkur þeirra manna, sem nú sitja á þingbekkjunum, þá er mjer óhætt að fullyrða það, að hefði hann farið með stjórn landsins nú, þá myndi hann ekki hafa verið mánuð lengur ráðherra á þessu þingi án vantraustsyfirlýsingar, og segi jeg það honum til lofs.