17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3753)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Þorleifur Jónsson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn, að jeg fari nú einnig að tala í þessu máli. Það hefir nú fjöldi þingmanna tekið til máls í því, og jeg hefi litlu við að bæta það, sem áður hefir verið sagt um það efni.

Í fyrra vetur, þegar þessi stjórn var mynduð, þá var undir eins auðsjeð, að hún var mjög veik stjórn. Hún virtist ekki hafa eindregið fylgi neins ákveðins þingflokks. Raunar munu flestir úr heimastjórnarflokknum hafa stutt hana, og auk þess utanflokkasambandið á sína vísu, sem jeg skoðaði sem eindregið fylgi. En eftir því, sem hv. þm. Stranda. (M. P.) hefir lýst yfir, hefir það aðeins verið hlutlaus afstaða. Sama er þá að segja um framsóknarflokkinn. í honum voru það aðeins 5–6 menn, sem hjetu stjórninni hlutleysi sínu á því þingi, eða að sinni. það var aðeins með það fyrir augum, að tekist gæti að mynda löglega stjórn, að þetta var gert, og leit illa út um tíma, að þetta ætlaði að lánast.

það mun enginn geta neitað því, að fylgi stjórnarinnar hafi verið mjög valt í fyrra, og þegar svo þess er gætt, að nú hafa 3 nýir þingmenn bæst við, sem eru beint kosnir sem mótstöðumenn stjórnarinnar, þá er ekki von, að fylgi hennar sje meira nú en þá.

Það má því heita, að stjórnin svífi nú í lausu lofti, og hlýtur það að vera mjög bagaleg afstaða fyrir hana. það er líka afleitt ástand í þinginu, ef ekki er hægt að mynda samfeldan meiri hluta um stjórnina. Jeg veit ekki til, að hæstv. stjórn hafi nú það fylgi, að með nokkru móti sje við unandi, og gæti maður vænst þess, að hún fyndi sáran til þessa veikleika. En hvað sem þessu líður, þá hafði jeg búist við, að afstaðan til stjórnarinnar mundi skýrast betur, er á þingið líður og hin stærri mál, sem fyrir þinginu liggja, koma til meðferðar. Jeg hafði búist við, að þau hlytu að skapa annaðhvort fylgi eða vanfylgi, og stuðla þannig að trausti eða vantrausti.

En nú hefir till. hv. þm. Dala. (B. J.) orðið til að raska að nokkru rás viðburðanna. Verð jeg að taka undir með hv. þm. Str. (M. P.) um það, að sú till. sje of fljótt fram komin. Og skal jeg taka það fram, að hvorki jeg nje neinn úr mínum flokki hafa átt þátt í því, að hún kæmi strax fram. Jeg tel það ekki heppilegt að koma svo flótt fram með slíka till., áður en þm. hafa áttað sig til fulls á frv. stjórnarinnar og sjeð afstöðu hennar í ýmsum stórmálum, sem liggja fyrir og nauðsynlegt er að koma fram.

Það vantar ekki, að í þessum umr. hafi verið kastað mörgum hnútum til stjórnarinnar, sumum verðskulduðum, og mikið fundið að gerðum hennar. Sjerstaklega hefir verið fundið að því, að hún hafi ekki útvegað gjaldeyrislán á rjettum tíma, og á þann hátt reynt að greiða úr vandræðum þeim, er að steðjuðu. En líklega er stjórninni nokkur vorkunn, þar sem hún hefir í byrjun reitt sig á Íslandsbanka, að hann gæti af eigin ramleik yfirfært peninga. En allir vita, að hann hefir reynst með öllu ómáttugur til þess. Stjórnin hefir því líklega verið í nokkrum vanda stödd, hvernig best yrði úr þessu greitt. En mjer finst ákaflega mikið velta á því, hvernig stjórninni tekst að ráða fram úr þeim vandræðum, sem þjóðin er komin í út af því, að ekki er hægt að fá póstávísanir eða peningaupphæðir „yfirfærðar“ til útlanda.

Þegar það varð augljóst út á meðal landsmanna, að tekið væri fyrir viðskifti milli Íslands og útlanda, þá sló eðlilega óhug miklum á landslýðinn. Það hafði aldrei komið fyrir áður hjer, að til þess örþrifaráðs þyrfti að taka að banna að senda smápóstávísanir til útlanda. Það má því geta nærri, hversu mörgum brá við, er boð komu frá póststjórn í sumar leið, að nú mætti ekki senda hærri fjárupphæð en 50 kr. í póstávísun til útlanda. Þetta kom sjer auðvitað mjög illa fyrir alla, og ekki síst fyrir þá, sem þurftu að senda vandamönnum sínum erlendis fje, t. d. námsfólki. Það var enginn annar vegur en að senda slíkt í póstávísunum. Ekki þýddi að senda Íslandsbankaseðla; það leit enginn við þeim í Danmörku. Að vísu var oft hægt að fá leyfi viðskiftanefndar til að senda hærri fjárhæðir en þetta, en það kostaði jafnan mikið stapp og símakostnað, og auk þess mun það og hafa komið fyrir, að neitað hafi verið, þótt vart væri ástæða til. Þetta hefir því alt verið mjög óvinsælt hjá landsmönnum, og það því fremur, sem almenningur úti um land áttaði sig ekki á því, að íslenska ríkið væri komið í þá fjárkreppu, að slíks þyrfti með.

Síðar með haustinu harðnaði þó enn í þessu tilliti. Því nú var, í október held jeg, með öllu bannað að senda nokkra póstávísun, og ekki fjekst leyfi til að innleysa smápóstkröfuávísanir frá útlöndum.

Mjer er þetta mál vel kunnugt, þar sem jeg er póstafgreiðslumaður, og jeg minnist þess, að þegar þetta bann skall yfir, voru 4 eða 5 póstkröfubögglar liggjandi á póstafgreiðslunni á Hólum. Þetta voru mjög verðlitlir bögglar, en ekki fjekst leyfi til að innleysa þá, og varð því að senda þá til baka.

Þegar þetta almenna bann kom, um að ekki mætti senda nokkra póstávísun, þá fyrst sló verulegum óhug á fólkið úti um land. Það var mjög ilt, að stjórnin skyldi þurfa að taka til slíkra örþrifaráða. En maður hlaut að líta svo á, að svona ráðstöfun væri ekki gerð nema í ítrustu nauðsyn, og að stjórnin hefði sannarlega ástæðu til að sporna við eftir mætti peningastreymi til útlanda, þegar svo erfiðlega gekk með alla yfirfærslu og Íslandsbanki gat ekki int af höndum þá skyldu að yfirfæra fjárhæðir.

Síðan hefir þetta að vísu nokkuð skánað. í janúar kom út tilkynning um það, að senda mætti 50 kr. póstávísanir til útlanda, án þess að fá leyfi útflutningsnefndar. Jeg hefi annars ekkert heyrt um það, síðan jeg kom hingað, hvort búið væri að koma verulegu lagi á með póstávísanir til útlanda. Því það er svo undarlegt, að maður er miklu ófróðari um slíka hluti hjer í Reykjavík, rjett undir handarjaðri stjórnarinnar, heldur en þegar maður er uppi í sveit. Jeg býst auðvitað við, að þetta sje orðið, og vildi líka óska, að svo væri.

Nú vildi jeg gjarna við þetta tækifæri fá greinargerð stjórnarinnar á því, hvort hún treysti sjer ekki til að yfirfæra fjárupphæðir, sem ekki nema því meiru, til Danmerkur og annara ríkja, og hvort eigi má búast við, að þessu fargi verði af ljett, sem ríkti hjer í sumar og haust.

Mjer finst þetta velta á allmiklu. Það er óneitanlega hinn mesti bagi fyrir einstaklinginn, sem þjóðina í heild sinni, er póstkröfur og pantanir verða að sendast til baka, bara sökum þess, að ríkið getur ekki yfirfært fjeð.

Þá vildi jeg gjarna fá að vita það, hvernig stjórnin hugsar sjer að komast út úr fjárkröggunum. Því þótt skattafrv. stjórnarinnar sjeu bæði mörg og umfangsmikil, þá er jeg hræddur um, að það fáist aldrei nóg með því einu í tekjuhalla fjárlaganna, sem er nú um 2 miljónir króna, og búast má við, að þingið verði að bæta einhverju við, sem til útgjalda horfir.

Það er, eins og gefur að skilja, þýðingarmikið og alvarlegt mál, að tekjur og gjöld ríkissjóðs standist nokkurn veginn á. Jeg býst nú raunar við, að hæstv. stjórn treysti sjer ekki til að svara þessu, og vísi til frv. Það er að vissu leyti rjettmætt. En ef þau hrökkva ekki til, hvernig á þá að fara að, til að komast yfir örðugleikana ?

Þá er enn eitt, sem jeg vildi spyrja stjórnina um, og það er, hvort ekki sje búið að afnema seðlaskrifstofuna. Jeg er í sjálfu sjer ekki á móti því, að það væri rjett um tíma að viðhafa skömtun, á meðan vörur voru svo dýrar. En nú, er vörur eru óðum að falla í verði, þá álít jeg ekki lengur nauðsynlegt að halda skömtuninni áfram. Jeg hygg, að það hafi verið stakasti óþarfi að úthluta seðlum fyrir svona langan tíma, 3–4 mánuði. Nú er komið fram í marsmánuð, og ætla jeg, að það væri heppilegast, að skömtunin hætti nú þegar, enda getur verið, að stjórnin hafi hugsað sjer það, þótt jeg hafi ekki fengið vitneskju um það.

Eins og jeg tók fram áðan í ræðu minni, þá álít jeg, að þessi till. hv. þm. Dala. (B. J.) sje of snemma fram komin. Stjórnin ætti einmitt að standa og falla með frv. þeim, sem fram eru komin, og svo því, hvernig hún býst við að geta framkvæmt ýmislegt af því, sem nú krefur skjótrar og hagkvæmrar úrlausnar. Því þótt ýmsar gerðir hennar hafi valdið nokkurri óánægju, þá er ekki óhugsandi, að hún geti komið sjer upp algerðum meiri hluta, ef hún snýst heppilega við málum þeim, sem nú liggja fyrir og bíða úrlausnar. Sum þeirra mála eru ágætlega fallin til að sjá af, hvaða afstöðu beri að taka til stjórnarinnar, eins og t. d. Íslandsbankamálið, sem er eitt af þeim þýðingarmestu. Jeg fyrir mitt leyti hefði gjarna viljað sjá, hverja stefnu stjórnin tæki í því máli, þegar þingið tekur það til meðferðar.

Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, geta menn rent grun í, hvers vegna jeg mun ekki greiða vantraustsyfirlýsingu hv. þm. Dala. (B. J.) atkv. mitt að svo stöddu máli. Afstaða mín til stjórnarinnar er ekki ákveðin enn, og hlýtur mjög að fara eftir þessu, sem jeg hefi þegar um getið. Ef nú svo fer, þegar til þessara mála kemur, að þingi og stjórn geti ekki komið saman, og stjórnin getur ekki aflað sjer nægilegs fylgis, þá álít jeg rjett, að hún beiðist lausnar, og þá verður hægara að skipa löglega stjórn, með meiri hluta þings að bakhjalli en nú er.