17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Þórarinn Jónsson:

Það er sannast að segja, að margt hefir verið sagt og mörgu þyrfti að svara, en hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir tekið af mjer ómakið í mörgum atriðum, enda þýðingarlaust að elta öll smáatriði.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) beindi orðum sínum til mín út af því, er jeg hafði sagt viðvíkjandi lántökunni. Hann sagði, að öll þjóðin stæði nú á öndinni út af því, hvort ríkið tæki lán. En jeg held, að hann standi fremur sjálfur á öndinni. (Gunn. S.: Rangfært). Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að mótmæla þessu; jeg hefi skrifað það orðrjett niður, en jeg get gert hv. þm. (Gunn. S.) það til geðs að eyða ekki fleiri orðum við hann. Hann hvort sem er fellur undir sama númer og sumir aðrir hv. þm., sem talað hafa um lántökuna og jeg mun víkja orðum mínum að.

Jeg lauk orðum mínum, er jeg svaraði hv. þm. Dala. (B. J.) með því að halda því fram, að spegilmynd lántökunnar væri það, hvernig Íslandsbanki væri nú kominn, lánaði of mikið, og því væri kreppan; alt væri stoppað. Af því dró jeg þá ályktun, að eins mundi fara fyrir ríkinu. Þetta hefir enginn vefengt með neinum rökum. Og færi ríkið að styðja bankann með lántöku, þá yrði það að teljast óforsvaranlegt, áður en hagur bankans er rannsakaður. Hv. þm. Dala. (B. J.) viðurkendi nú þessa kreppu í bankanum. En í sumar gaf hann skýrslu um bankann sem bankaráðsmaður, og sannaði þar, eða ætlaði að sanna, að bankinn ætti alls úrkostar. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp nokkur orð úr skýrslu þessari. Hann segir:

„Smærri víxlar mega heita krosstrygðir, en hinir stóru verslunarvíxlar gætu ekki átt sjer stað með slíkum krosstryggingum, því þá myndi alt sitja fast. Jeg þóttist því þurfa að athuga sjerstaklega, hversu vel þessir stóru víxlar væru trygðir. Þar voru þá alstaðar vörur til tryggingar, sem voru langsamlega nægar til lúkningar, þótt seldar yrðu mun lægra en nú er verðið. En auk vörutrygginga voru og eignir, sem voru í flestum tilfellum næg trygging, einar út af fyrir sig, og þar sem minst var, reyndist þó vara og eignir til samans svo næg trygging, að bankinn mundi fá skuld sína, hversu sem tækist. Eiginlegir verslunarvíxlar hafa oltið og velta áfram, gjaldast, koma aftur á skömmum fresti, og eru því tryggingarnar og þekking bankastjórnar á mönnum full trygging fyrir, að engin hætta stafar af þeim.“

Þannig lýsir hv. þm. Dala. (B. J.) ástandinu, og skemti jeg nú mönnum með orðum hans, en ekki með mínum. En þrátt fyrir þessa álitlegu skýrslu er nú svo komið, að bankinn getur ekki fullnægt viðskiftaþörfinni og hefir alveg mist traust í útlöndum. því gengur hann ekki eftir einhverju af útistandandi fje, sem eftir þessari skýrslu sýnist ekki myndi þrengja neitt að gjaldþegnum? Hefði fje verið náð inn, mundu seðlar bankans ekki hafa staðið eins illa í útlöndum. En stöðvunin nú stafar af lánunum. Óforsjál stjórn hefir lánað út á rýrar eða engar tryggingar. Hún hefir lánað út á fiskinn í sjónum, og jeg hefi ekki eins mikla trú á dánarbúinu eins og hv. þm. Dala. (B. J.). Þessi lánaleið er í mínum augum hin mesta fjarstæða. Við bændurnir höfum lært að lesa smáa stílinn; við kunnum tvö orð, sem ekki finnast í nokkrum orðabókum þessara fræðimanna, sem hjer hafa talað fyrir lánunum, þ. e. sparsemi og að borga. Í kring um þetta er farið. Þeir minnast aldrei á að spara og draga saman seglin, og því síður á að borga. En það þekkjum við sveitamennirnir og álítum, að það verði að ske.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) spurði, hvort jeg mundi bregða búi næsta vor. Satt að segja finst mjer þetta nokkuð nærgöngult. Jeg hefi ekkert talið fram fyrir honum fjárhag minn, og ætla mjer ekki að gera, en það get jeg sagt honum, að lán til framkvæmda á þeirri atvinnugrein, sem stórtap er alveg fyrirsjáanlegt á, myndi jeg aldrei taka. En hitt er ekki þar með sjálfsagt, að hætta. En leiðina þar í milli er ekki til neins að tala um við hv. þm. (Jak. M.), hann skilur hana ekki. Og enn þá rekur hann sama erindið fyrir útgerðarmenn togaranna, að fá lán á lán ofan, þrátt fyrir það, þó að útgerðarmennirnir sjálfir sjeu gersamlega fallnir frá því og telji það óhamingju og óráð. Enda mun það sýna sig síðar, hver ástæða væri til þessa, þegar hagur þeirra kemur betur í dagsljósið.

Hv. þm. Dala. (B. J.) þótti það fulldjarflega til orða tekið, þegar jeg sagði, að þeir vildu nota ríkissjóðinn til þess að halda uppi þeim fjármálavitfirringum, sem til eru á landi hjer. En jeg sný ekki aftur með það. Hv. þm. hafa bara ekki haft eftirköstin nógu vel í huga.

Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um afleiðingarnar af því, ef togararnir hættu veiðum. Jeg býst ekki við, að það komi til ófyrirsjáanlegs hungurs fyrir það. Eða hafa togararnir fiskað fyrir Reykjavík? Jeg hefi ekki heyrt það. Jeg skil ekki, að það sje ægileg grýla á Reykvíkinga, þó að togararnir hætti um tíma. Þeir þurfa ekki að vera svangir fyrir það.

Mjer kemur ekki til hugar að mæla á móti nauðsynlegum lánum til skynsamlegra framkvæmda, bæði hjer í Reykjavík og annarsstaðar. En hv. þm. láta sjer ekki nægja með það. þeir vilja láta taka marga tugi miljóna og halda, að það sje nóg til viðreisnar að taka lán á lán ofan takmarkalaust. Jeg sje hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hrista höfuðið. En jeg get sagt honum það, að þessi fjármálaskoðun er svo rótgróin úti um land, að mjer er nær að halda, að hann næði hvergi þingkosningu þar, þótt hann túlkaði þessa gullnu lántökuskoðun sína með allri sinni mælsku og skýrleik, þótt hún þyki góð og gild hjer í Reykjavík.

Hv. þm. Dala. (B. J.) stefndi til mín ýmsu, sem raunar snerti minst málið sjálft. Út af því, að jeg var að minnast á flokkagrautinn hjer á Alþingi, sagði hann, að jeg væri sá alþektasti grautarkökkur, sem hefði sjest í flestum grautarpottum þingsins. Jeg skal lofa honum að eiga það sjálfum. Hitt skal jeg játa, að augu hans hafa ekki aðallega staðið til grautarins í pottunum, heldur hins, ef bitar kynnu að vera niðri í þeim, sem hægt væri að ná í með lagi. Og fjármálaframsýni hans hefir notið sín best á því sviði. Hún kemur einnig allvel fram í skýrslunni um Íslandsbanka, sem jeg las upp úr áðan, enda er hún borgun fyrir einn bitann, er hann hefir krækt upp úr kjötpottum þingsins fyrirfarandi.

Annars kemur það ekkert við mig, þótt eitthvað sje sagt um mig, sem þeir menn ekki trúa, sem á hlýða. Og flest ummæli hans um mig voru svo illa sniðin, að enginn, sem hjer er staddur, gat trúað þeim. Það hefir því litla þýðingu að fara út í fleira, sem hann vjek að mjer.

Hv. þm. (B. J.) segir, að dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sje komin fram vegna þess, að við þorum ekki að greiða atkvæði um vantraustsyfirlýsinguna. En þetta er rangt. Jeg er í engum vafa um, hvernig jeg mundi greiða atkv., þó að vantraustið kæmi hjer eitt til atkv., og þess óska jeg helst.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) fann sig knúðan til að víta mig fyrir að hafa nefnt nafn Magnúsar Stephensens að ófyrirsynju. Jeg hjelt, að jeg hefði alls ekki dregið minningu hans neitt niður með því að nefna hann. Jeg tók fram, að hann hefði verið lofaður fyrir fastheldni á landsfje. Jeg stend við það, og hann má vel leiða það út af orðum mínum, að mjer þyki vænt um, að stjórnin heldur fast á fje ríkissjóðs. En hann nefndi annan mann í ræðu sinni. Það var Jón Sigurðsson. Hann sagði, að hann hefði verið lágt settur í mannfjelaginu. (E. E.: Jeg sagði, að hann hefði ekki verið í neinni líkri virðingarstöðu og fjármálaráðherrann). Ónei. Hv. þm. (E. E.) bar hann saman við sjálfan sig. Þóttist jeg þá vita, að hann vildi láta hv. deildarmenn skilja það, að Jón Sigurðsson hefði aldrei komist svo hátt að vera settur yfir hengingarvíxlastofnun austanfjalls, og þannig stæði hann æðimikið ofar í mannfjelaginu en Jón Sigurðsson hefði staðið.

Hv. þm. Str. (M. P.) sagði, að jeg hefði haft rangt fyrir mjer um það, að þessar umræður veiktu samúð meðal þingmanna. Jeg býst þó við, að hv. þm. (M. P.) geti sannfært sig um það af fyrri reynslu, að það hefir æðioft bólað á því, að sá flokkurinn, sem ósigur bíður við stjórnardeilu, gerir alt, sem hann getur, þeirri stjórn til miska, sem situr í óþökk hans, með því að tefja fyrir og jafnvel ónýta frv. hennar. Þetta er alkunnugt. Hv. þm. Str. (M. P.) þarf ekki annað en spyrja aðra hv. deildarmenn um þetta, ef hann veit það ekki sjálfur.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) nefndi mig eitthvað á nafn undir sama númeri og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem hefir tekið að mestu af mjer ómakið að svara honum. Hv. þm. (M. J.) ályktar nokkuð einkennilega. Hann þykist vera að sanna, að lán sjeu sjálfsögð, með því, að ekki sje hægt að draga úr framleiðslukostnaðinum nema með lánum. Mjer er ómögulegt að skilja þetta. Sú rjetta viðleitni atvinnurekenda er einmitt að reyna að draga úr rekstrarkostnaðinum, án þess að taka lán. En þessir hv. þm. sjá engin önnur bjargráð en lán. Jeg er hissa á, að enginn þeirra skuli hafa nefnt þekkingarlán; sumum mundi þó ekki vera vanþörf á því.

Jeg hefi skrifað hjer ýmislegt fleira niður, sem ástæða væri til að svara, en mjer finst það vera illa farið með tímann. Vil gera mitt til, að endi verði rekinn á þetta sem fyrst.