17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (3763)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það mun ekki seinna vænna að þakka fyrir þær kveðjur, sem mjer óverðugum hafa verið sendar.

Mjer komu á óvart köpuryrði hæstv. forsrh. (J. M.) til mín. Jeg sje, að jeg hefi skrifað heila blaðsíðu af þeim, og mundi nú gjalda honum þau, ef aðrir hefðu ekki gert sig maklegri. Til hans þóttist jeg hafa talað með fullri hæversku.

Þá vil jeg aðeins geta þess, að þótt sama sje, hvort atkvæði ráðherranna eru talin með eða ekki, er þó skemtilegra, að þeir greiði ekki atkv.

Annars er hjer margs að minnast, því að margir hafa að mjer vikið ýmsum orðum, t. d. hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), þó ekki fari jeg að kryfja hans ræðu að sinni, af einskærri hlífð við hann sjálfan. Einnig sagði hæstv. fjrh. (M. G.) það, sem ekki var rjett, að till. mín væri sprottin af forvitni einni saman. En þó að svo væri, mun hann vita það, að forvitni er undirrót allrar þekkingar, og liggja því til grundvallar till. minni hinar bestu hvatir, þær sem sje, að fá vitneskju um það, hvort núverandi stjórn er þingræðisstjórn eða ekki.

En þá kem jeg að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), og er hann svo gamall þingmaður, að jeg verð að meta hann því meira og dvelja litla stund við ræðu hans. Þar sem hann sagðist ekki hafa fundið neinar röksemdir í minni ræðu, mun það vera því einu að kenna, að hann hafi aðeins leitað með Saltvíkurtýrunni úr Vigur. Og þar sem hann sagði um mína ræðu, að hún hefði aðeins verið „dauðastunur og dýpstu raunir“, verð jeg að heimfæra til hans ræðu orð hins sama skálds og hann vitnaði til, og segja, að hún hafi verið „reykur, bóla, vindaský“. Annars var margt það í ræðu þessa hv. þm. (S. St.), sem hefði getað komið stjórninni til að biðja guð að vernda sig fyrir vinum sínum, t. d. það, sem hann sagði um síldina.

Þá verð jeg að minnast stuttlega á það, sem sagt hefir verið um lántökuna, og þá fyrst að leiðrjetta það, að nokkur hafi verið að heimta hjer 20 miljóna lán. það hefir aðeins verið farið fram á það, að tekið yrði óákveðið lán, til þess að halda áfram arðberandi atvinnuvegum. Og samanlögð fjármálaspeki hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir ekki hnekt þeirri skoðun, að búhnykkur hefði verið að slíku láni. Annars get jeg í þessu sambandi bent á það, að jeg hefi fyrir nokkrum árum bent á ráð til þess að bjarga landinu, þegar borga þurfti 3–4 krónur fyrir hverja 1 áður, sem sje það, að gjalda eftir verðlagsskrá og vísitölu, og taka tekjur allar með sama hætti. Þetta þótti þá lítið fjármálavit, þótt annað kunni nú að sýnast.

Jeg held svo, að jeg verði að sleppa hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og bollaleggingum hans um það að flytja þingið að Þingvöllum eða austur að Firði, eða hvert það nú var. Hugleiðingar um orsakir fjárkreppunnar voru ekki svo djúpristar, að það svari kostnaði að hrófla við þeim.

En hins vegar verð jeg að þakka hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fyrir þá hugulsemi hans að skrifa lýsingu á mjer sem þingmanni. Jeg hlakka til þess að lesa hana og þykist vita, að hún verði höfundinum lík um hæversku og fagra ásýnd, og mjer og öðrum til ánægju. Hins vegar verð jeg að öðru leyti að reynast honum svo vanþakklátur að segja honum hreinskilnislega frá því, að mjer hefði aldrei dottið í hug að eyða tíma í það að skrifa lýsingu á honum. Þess þarf ekki heldur, að því leyti sem hann hefir sjálfur lýst sjer í þessum umræðum, og ekki síst fjármálaviti sínu og atvinnumála, þótt jeg yrði reyndar ekki svo frægur að skilja til fulls, hvað hann fór þar. Enda bar öll ræða hans þess vott, að hann vildi draga fjöður yfir aðalatriði þessa máls og væri það ljúfara að skeggræða við mig en að verja stjórnina.

Þá kemur nú annar fjármálaspekingurinn frá, hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Hann byrjaði á því að lesa upp greinarkafla eftir mig, — slitinn út úr rjettu samhengi auðvitað, því skýrsla mín um bankann er í fullu samræmi við alt það annað, sem jeg hefi sagt og skrifað um það mál. Hinu get jeg auðvitað ekki gert að, þó að sumt af því veði, sem bankinn átti — fiskurinn — hafi seinna reynst skemt. Annars virtist þennan hv. þm. (Þór. J.) helst langa til þess, að sem flestir viðskiftavinir bankans yrðu gerðir gjaldþrota, og hirði jeg ekki að elta ólar við slíkar firrur, frekar en við stagl hans um grautarpottana og bitana. Í þeim orðum hans skaut reyndar upp því gamla heimastjórnareinkenni að þykjast eiga allan heiminn. Annars er það einkennilegt að heyra slíka menn bera aðra brigslum og er orðinn hvimleiður þeirra skopleikur í þessu máli sem víðar. Þeir þykjast vera að verja stjórnina, en þora þó engu öðru en því, að vefja hana fyrst í pappír og svo í ull. Manni dettur í hug um þessa menn það sem kveðið var: Hvað vilt þú í kór, sem ekki kant að syngja?

En samt, hvað eru þessir allir hjá einum öðrum? Hvað vilja þeir etja við hv. þm. Ak. (M. K.)? Hann byrjaði á því að segja, að þessar umræður væru skrípaleikur, líklega þá af því, að enginn vildi verða til þess að bjóða stjórninni fylgi, öðru vísi en í ullarreifum, uns einn deildarmaður gerði þeim þann grikk að bera fram traustsyfirlýsingu. En hvað verður? Rýkur ekki allur skarinn upp og heldur sjerstakan fund um það, hvernig vinda eigi sig úr vandræðunum. Og stjórnin verður að horfa þegjandi á eftir þeim. Það er ekki óskemtilegt að eiga slíkt fylgdarlið, og því segi jeg það enn: Guð varðveiti stjórnina fyrir vinum hennar.

Annars er þetta, að bera fram till., sem maður ætlar þó að vera á móti, engin nýlunda hjer á Alþingi, þótt jeg hins vegar myndi ekki gera það. Slíkt hefir oft tíðkast, er menn vildu drepa eitthvert mál með atkvæðamagni. Nægir mjer að benda á Benedikt gamla Sveinsson, er hann á Alþingi 1897 tók upp frv. Valtýs (valtýskuna), er Valtýr hafði undan skotið, til þess eins að drepa það, og hann leyfði sjer að greiða atkvæði á móti frv. Svo þetta getur ekki ótítt kallast nje óþinglegt. En hitt er óþekt áður, að stuðningsmenn stjórnarinnar neiti að greiða henni traustsyfirlýsingu, og hóti með þingsafglöpun, ef þeir komist ekki hjá því.

En takist nú ekki að greiða þessari dagskrá atkvæði sín, þá hafa þeir aðra til taks, loðna dagskrá, sem á að sýna það, að þeir hafi ekki þorað að bera ábyrgð á stjórninni, og þessu ætla þeir að slá fram í fáfróða kjósendur.

Og aumingja stjórnin horfir á þennan skrípaleik, en hún hefir ekki klappað, og ekki heldur kvartað.

Það var einhver þm., sem gat þess, að atvrh. (P. J.) ætti að vera fómarlambið, þessi þingeyski bóndi, en það hefir líka flogið fyrir, að einn af varnarmönnum hans eigi að taka sess hans, og þá líklega bóndinn, ef fylgja á þingvenju þeirri, sem tíðkast hefir um skeið.

Það er skrípaleikur að bjóða stjórninni slíka steina fyrir brauð, sem þessi ullardagskrá gerir, og það er lítilþægni stjórnarinnar að þiggja fylgi slíkra manna. Væri jeg í stjórninni, myndi jeg segja við slíka menn: Nei, þakka fyrir, verið þið sælir.

En fyrstu verðlaun fyrir leikhæfileika fær þó að sjálfsögðu skrípið að norðan, með rassaköstunum á trjehestinum. Harma jeg það mjög vegna Akureyringa, að þeim skyldi ekki auðnast að sjá, þegar hann þeysti þembinginn hjer í deildinni í gær og barða fótastokkinn.

Varnir eru engar fram komnar; stjórnin hefir ekki varið sig. Hún hefir ekki getað gert neina grein fyrir því, hvers vegna hún hefir ekki tekið gjaldeyrislán á hentugum tíma, eins og henni hefir verið bent á. En það hefir brunnið við hjá hæstv. stjórn, að hún hefir snúið umr. upp í þrátt og köpuryrði til mín og annara. Þó er það svipur hjá sjón hjá því, sem varnarleikarar stjórnarinnar hafa gert, enda hafa þeir gengið lengra í því efni, sem þeir eru óvitrari. Jeg gaf þó engum tilefni til þess, því jeg hóf umr. með rökstuddu máli og fullri hæversku. Enginn þeirra hefir þorað að verja stjórnina, nema hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), eins og hans var von og vísa; hinir hafa verið frakkastir til skammanna.

Ekki verður sannara sagt um þessa strútfugla stjórnarinnar en að þeim farist eins og strútnum, er hann stingur höfðinu inn í runnana. En þó mun þjóðin sjá í gegnum þann hrísrunn, svo ekki komast þeir hjá ábyrgðinni. Traustsótti og ullarást tekur ekki af þeim ábyrgðina, svo alt verður árangurslaust. Þeir hafa nú snúið öllum vörnum sínum upp í skammir, og er það löngum fangaráð þeirra, sem vonda samvisku hafa og illan málstað.

Að koma flugum í munn manna tekur ekki heldur af þeim ábyrgðina. Það hefir verið stungið saman nefjum um það hjer í deildinni, að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) ætli að síma til útlanda atkvæðaúrslitin um dagskrá hans. Slíka ógurlega frjett gæti heimurinn ekki staðist. En hvort sem símað verður, eða ekki, sjest þó, hversu þeir eru dyggir stjórnarfylgifiskarnir, sem ekki þora að greiða atkv. með traustsyfirlýsingu nje móti vantrausti. Fáfróðum mönnum má villa sýn, en ekki fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi.

Hvernig sem þeir koma þessari till. fyrir kattarnef, þá bera þeir alla ábyrgð á athöfnum og athafnaleysi stjórnarinnar. Og þessi skollaleikur þeirra hjer ber þeim engan ávöxt; hann er aðeins aðgangur að þeim sjálfum, sem hafa valdið því, að stjórnin hlýtur að skoða þetta eins konar traust.

Á hverju bera þeir þá ábyrgð?

1. Á vanrækslu utanríkismála allra, nema sendiherrasending til Kaupmannahafnar, sem þakka má ef til vill að nokkru leyti hæstv. fjrh. (M. G.).

2. Á þeirri stefnu, sem forsætisráðherra (J. M.) nefndi, og áður var táknuð með þeim fleygu orðum, „að gera sjer mat úr því“, og notað var 1903, þegar ráðherranum var hnoðað inn í ríkisráðið. Jeg hefi ávalt talið rjettara að gæta meira sóma landsins en að vera að hugsa um að borga Dönum þann greiða, sem þeir gerðu okkur, er þeir viðurkendu sjálfstæði okkar.

3. Þeir bera líka ábyrgð á þeirri heimastjórnarstefnu, sem nú stingur upp höfðinu hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að draga sáttmálann nýja niður í uppkastið sæla frá 1908, og hann orðaði svo laglega í þessu þakkarávarpi til hæstv. forsrh. (J. M.). Ekki segi jeg, að ástæðulaust hafi verið að koma með þetta þakkarávarp, enda mátti og sjá það í þessum harmagrát þingmannsins, að hann taldi forsrh. (J. M.) það til skaða, að hann hafði um skeið hallast að minni stefnu.

Minna mætti og á grein, sem þessi sami hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) skrifaði um fánamálið í Lögrjettu, og náði þó fram að ganga, þrátt fyrir andróður hans. Hv. þm. (J. Þ.) segist hafa skrifað lýsingu mína. Vil jeg nú gera honum nokkur skil og senda honum sína lýsingu, eins og hann hefir hana best skrifað. Hún sýnir þó, hvað hann hefir viljað gera fyrir land sitt og þjóðina. Sannast þar sem fyrri, að verkin dæma þig.

Þeir bera líka ábyrgð á framkvæmdaleysi stjórnarinnar atvinnuvegunum til stuðnings, og í öllum bjargráðum við hag almennings. Þeir bera ábyrgð á, eins og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) rjettilega tók fram, að til ónýtis fari alt það fje, sem nú liggur í skipum og öðru þeim fylgjandi. Maður veit ekki, hvað lengi þeir ætla að verða að safna því fje í sparisjóðsbókina; jeg hefi ekki sjeð þann útreikning, veit ekki heldur, hversu reikningsfróðir þeir eru, eða hvort fremur megi á þeim byggja en útreikningum á brúm eða öðrum mannvirkjum, sem allir kannast við.

Þeir bera og ábyrgð á því, er stjórnin hefir mánuðum saman haldið við verslunarhallæri í landinu með viðskiftahömlunum, og með því dregið fje úr vösum alls almennings, og mega það blóðpeningar kallast.

Þeir bera og ábyrgð á þessari ullarkembu gagnvart kjósendum, sem borin er hjer fram, vegna þess að menn þora ekki að segja afstöðu sína til stjórnarinnar.

Þessir ullarkembumenn bera loks ábyrgð á því, að svo lítilþæg stjórn fer með völdin áfram, svo lítilþæg, að hún þiggur alt. Því hvað er henni boðið ?

Jeg ætla að endingu að endurtaka það, hvað stjórnin er lítilþæg, og bæti við einu atriði, þ. e. dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), þessa stólpagrips stjórnarinnar. Dagskrá hv. þm. Str. (M. P.) er þó enn þá gleggri, og hefði þm. (J. Þ.) átt að ganga inn á hana. Dagskráin segir þetta:

Þeir eru ekki tilbúnir að fella stjórnina og telja vantrauststill. of snemma upp borna. Það getur ekki verið afstaða þeirra til hinna ýmsu mála og frv. stjórnarinnar, sem veldur þessu, því frv. voru þm. send löngu fyrir þing, og nú búið að athuga þau í nefndum hjer á þinginu í mánuð, svo um þau ættu þeir að vera búnir að skipa sjer. Nei, þeir eru ekki tilbúnir að fella stjórnina, af því þeir vita ekki heldur, hverjir eigi að taka við.

En svona á það ekki að ganga. Í þessu máli á að ganga hreint að verki.

Þó að jeg hafi borið fram þessa till., þá veit jeg, að jeg hefi unnið stjórninni miklu þægra verk heldur en allir þeir, sem þóst hafa verið að bera blak af henni. Nú veit hún, að hún fær að heita stjórn, þangað til mennirnir, sem vísa nú vantrauststill. frá, eru tilbúnir að fella hana. Og gerist hún svo lítilþæg að þiggja náðarbrauð þessara fylgifiska, þá segi jeg: Verði henni að góðu.

Og hefi jeg þá lokið máli mínu.