19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í D-deild Alþingistíðinda. (3822)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Gunnar Sigurðsson:

Jeg veit ekki betur en að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) kæmi með sína athugasemd í fundarlok og að ágreiningsatriði hans sjeu bókuð í fundargerðinni og þar rjett tilfærð. Því er rjett að bera fundarbókunina undir deildina og leita samþykkis hennar. Hitt getur ekki komið til mála, að fara nú að breyta úrskurði forseta, sem feldur var á næstsíðasta fundi. Ef það ætti að fara að tíðkast að rífast út af úrskurðum forseta í byrjun hvers fundar, þá gæti teygst úr þingtímanum.

Jeg vildi annars gera þá fyrirspurn til þessara virðulegu undirskriftarmanna, undir hvaða grein þingskapanna þetta muni eiga að heimfærast?

Annars finst mjer, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem er nýr þm., geti viðurkent, að þetta tiltæki hans, að skrifa í gerðabókina athugasemdir sínar milli funda, sje af fljótfærni gert og af því, að hann sje óvanur allri þingvenju. Vildi jeg því skora á hann að falla frá þessari athugasemd, og mun jeg álíta hann mann að meiri fyrir. Hitt er öðru máli að gegna um menn, sem búnir eru að sitja tugi ára á þingbekkjum, að þeir skuli gera sig seka í slíkri þingsafglöpun og þessari; það er ófyrirgefanlegt.

3823

Þórarinn Jónsson: Jeg leit svo á, er hæstv. forseti feldi úrskurð sinn um dagskrána, og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gerði við þann úrskurð athugasemd, að þá hefði sú athugasemd komið nógu snemma fram, og því — (Forseti hringir).