19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3832)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forseti (B. Sv.):

Það er hvergi heimilað í þingsköpum, að einstakir þm. megi rita í gerðabók þingsins dóma sína um úrskurði forseta, eða pára þar hvað sem þeim sýnist. (Þór. J.: En er það bannað?). Hv. þm. (Þór. J.) hyggur ef til vill, að alt megi í þessa bók rita, sem ekki er berum orðum bannað í þingsköpum, t. d. markaskrá norðan úr Húnavatnssýslu eða annan álíka fróðleik. Annars vil jeg minna hv. deildarmenn á það, að þessar umræður koma út í þingtíðindunum, og þá fyrir almenningssjónir, svo að þeirra mikilvægu skoðanir í þessu máli hverfa ekki undir mæliker, þótt hvorki verði haggað við úrskurði mínum nje bókuninni um afdrif dagskrárinnar.