05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

2. mál, erfðafjárskattur

Frsm. (Jakob Möller):

Fjárhagsnefnd hefir orðið sammála um að leggja það til, að frv. þetta verði samþykt með þeim breytingum, sem nál. fylgja, þó að nefndin í rauninni geri ekki ráð fyrir, að það verði mjög afdrifamikið. Breyting sú, sem stjórnin fer fram á til hækkunar á skattinum, nær að eins til eins erfðaflokksins, sem sje nánustu erfingja, og hún er mjög lítil. Aðalbreytingin verður að teljast fólgin í þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til að tryggja betur en áður rjett framtal til skattsins. Þó virtist nefndinni, að ef framfylgt væri þeim lögum, sem nú eru til, þá mætti það takast eins vel eins og samkv. þessu frv. Það er mest undir því komið, hvernig lögunum er framfylgt, en vitanlega getur eins brostið eitthvað á í því efni, þó að lögunum verði breytt.

Nefndin hefir orðið ásátt um að bera fram þá brtt., sem hjer liggur fyrir á þskj. 182, um að fósturbörn njóti sama rjettar og önnur kjörbörn, eða þurfi ekki að svara hærri skatti en niðjar arfleiðanda.

Þetta kemur til af því, að það er mjög fátítt hjer á landi, að menn ættleiði börn, en hitt aftur mjög algengt, að menn taki að sjer börn til fósturs án þess og ali þau upp, og vilji yfirleitt að öllu leyti gera eins vel til þeirra eins og kjörbörn væru. Nefndin finnur ekki ástæðu til að gera greinarmun á því, eða hvetja til þess, að sá siður takist hjer upp að ættleiða börn. Nefndin var í nokkrum vafa um það, hvort taka þyrfti fram í lögunum, að þetta ætti að eins við þau fósturbörn, sem eru arfleidd með arfleiðsluskrá, en sá ekki ástæðu til þess, vegna þess, að fósturbörn eru ekki arfgeng að lögum, nema þau sjeu þá arfleidd í arfleiðsluskrá.

Nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til hinna brtt., sem liggja fyrir, hvorki með eða móti.

Brtt. á þskj. 209 fer fram á þá breytingu á 1. lið 2. gr., að þar komi einnig „af fjórðungshluta“. Nefndin telur þar farið inn á aðra braut, en finnur þó ekki ástæðu til að leggja á móti þeirri tillögu.

Eins er það um brtt. á þskj. 210, sem einn nefndarmanna er flm. að. Nefndin telur það litlu máli skifta, hvort sú till. verður samþ. eða ekki, en nefndarmenn hafa óbundið atkvæði um hana.