12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3861)

125. mál, eignarumráð ríkisins yfir vatnsréttindum í Soginu

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Tillaga sú, sem hjer er til umræðu, á þskj. 425, og jeg er flutningsmaður að ásamt tveimur öðrum hv. deildarmönnum, stefnir að sama takmarkinu og frv., er nú hefir verið hjer til umræðu, um sama efni. En nokkur atriði, er okkur flm. þótti vanta í frv., og önnur atriði, er okkur þótti þar ofaukið, höfum við aukið við eða felt úr með till., eftir því, sem okkur hefir þótt við eiga. Það er þá fyrst á það að líta, að okkur þótti ástæða til að ítreka áskorun þingsins til stjórnarinnar 1919, þess efnis, að afla ríkinu vatnsrjettinda í Soginu. Þykir mjer því meiri ástæða til, að þessu sje fylgt á eftir, er það er vitanlegt, að eignarrjettur þessara fallvatna er á margra höndum, en mikilsvert, að alt sje vel á hreinu og aðgengilegt, áður en til starfrækslu kæmi. Það gætu líka hlotist miklir vafningar af því eftir á, ef undir högg væri að sækja með eignarráð, er landið t. d. þyrfti nauðsynlega á fossunum að halda til sinna nota síðar meir. í þeim efnum ættum við að varast að láta okkur koma það sama í koll sem t. d. Norðmönnum, er hafa nú á síðustu tímum með fyrirhöfn orðið að útvega ríkinu vatnsrjettindi, er ekki hafði verið sint í tæka tíð og gálauslega farið með. Hefir það sannast á vatnsafli til stöðva þeirra, er nú er verið að reisa til viðbótar í nágrenni Kristjaníu. Hefi jeg orð forstjóra þess starfs (Sólbergsfossbyggingarinnar) fyrir því, að allur sá klofni rjettur og hagsmunir, er þar komu til greina, hafi valdið miklum erfiðleikum nú við framkvæmdirnar. Ættum við að láta okkur slíkt til varnaðar verða og hafa alt sem heilsteyptast frá byrjun, þá ætti það og að vera til áherslu fyrir mig, að almenningi í hjeraðinu nálægt Soginu er það áhugamál, samkvæmt þingmálafundarsamþyktum, að eignarráð landsins á vatnsaflinu verði trygð. Þessar ráðstafanir, að ríkið nái umráðarjettinum, ættu að vera því auðveldari, og alveg ástæðulaust að ætla, að það þyrfti að valda drætti, er undirbúningur til þess er hafinn og tilboð frá fossafjelaginu „Ísland“ um afhendingu rjettar þess mun nú vera til staðar, og stjórninni þar með vitanlegt, að hverju er að ganga frá fjelagsins hálfu. Hinn eða hinir Sogsfossaeigendur munu vera hjer til staðar, og ættu þessar ráðstafanir, ef að þeim væri gengið, engum drætti að þurfa að valda og engan veg tefja fyrir framkvæmdum.

Þá kem jeg að sjálfu rannsóknaratriðinu, og leyfi jeg mjer að fara nokkrum orðum um það, sem ber á milli í till. okkar og frv. stjórnarinnar. Höfuðmunurinn er sá, að samkvæmt till. viljum við, að ríkið annist sjálft á eigin ábyrgð rannsóknirnar, en í frv. er gert ráð fyrir því, í 2. gr., að stjórnin geti falið þær rannsóknir öðrum. Jeg álít mikilsvert, að stjórnin sje þar fullkomlega sjálf í forsvari, og ábyrgð verksins eða undirbúningsins verði ekki hrundið frá einum til annara, eins og dæmin sanna að á sjer stað á stundum, og gefst illa. Slík ábyrgð gefur stjórninni ástæðu til þess að vanda alt við þennan undirbúning og halda öllu í horfi til þjóðarnota gegn hugsanlegum sjerhagsmunum þeirra, er kynnu að vinna að rannsókninni. Því ekkert væri því til fyrirstöðu, að stjórnin fæli rannsóknirnar t. d. einhverju fjelagi, hvort sem það hjeti „Ísland“ eða annað. Hún á bara að bera ábyrgð á slíkum undirbúningi, er hún útvegar framkvæmdir á fyrir almenning, og miklu skiftir, að samviskusamlega sje leyst af hendi. Af því, hvað járnbrautarmálið og vatnsvirkjunarbyrjun er mjer mikið áhugamál, legg jeg einmitt mikla áherslu á, að þessum undirbúningi verði vel komið fyrir. Er sigur málsins mjög undir því kominn, að hreinlega sje að málum gengið og tortrygni ekki hleypt að. Mjer er það vitanlega áhugamál, að rannsóknirnar geti byrjað sem fyrst, og sje jeg alls ekki, að útvegun eignarráðanna þurfi að vera þar til neinnar tafar. Ekki skil jeg, hvernig t. d. Íslandsfjelagið fer að skoða þá málaleitun móðgun eða áreitni. Það er fyrst og fremst gert ráð fyrir frjálsum samningum, sem fjelagið er komið af stað með, eins og jeg hefi áður getið um, en hvort sem er ber þetta ekki vott um annað en fyrirhyggju landsmanna, er fjelagið hlýtur að virða, en ekki misvirða.

Hvað rannsóknirnar og undirbúning snertir, vil jeg geta þess, að mjer hefði þótt að mörgu leyti vel til fallið, að byrjað væri með því að fá sjerfræðing frá einhverju landi, er hefir reynslu um fossavirkjun. Við erum málum þessum svo ókunnugir og gætum grætt á að fá að byrja með þó ekki væri nema fyrirlestrarfræðslu einhvers, sem vit hefði á. Slíkt gæti vakið okkur til athugunar. Nýlega fengu Svíar til fyrirlestrarfræðslu þar í landi Ingvar Kristensen, fossastjóra Norðmanna, og eru þeir, Svíar, þó lengra komnir í þeim málum en við hjer á landi. Ef það væri ætlunin, að eitthvert fjelag, t. d. fossafjelagið „Ísland“, ætti hjer síðar hlut að máli um vatnsvirkjun, ættum við því fremur að leita hliðsjónar úr sem flestum áttum nú, er byrja skal. Annars verður þetta mál, sem ætti að verða okkar stærsta velferðarmál, óvinsælt og tortrygt, hvort sem það á það skilið eða ekki. Væri vitanlega auðvelt að fá mann í þessu skyni, ef reynt væri.

Jeg vil þá ljúka máli mínu að sinni, en læt þess þó getið, að seinni partur þál. er fyrir mjer höfuðatriði. Og mæli jeg því eindregið með, að till. nái óafklipt samþykki hv. deildar til 2. umr.