12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3862)

125. mál, eignarumráð ríkisins yfir vatnsréttindum í Soginu

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg skil ekki, að menn skuli hjer vera að tefja þingið með umr. um þessa till. Því nýlega hefir verið samþykt frv. um þetta efni, og ef það gengur í gegnum þingið, þá sje jeg ekki, að þessi till. geti komið til greina.

Í frv. var aðaláherslan lögð á rannsókn Sogsfossanna og virkjun þeirra, en í þessari till. eru eignarráðin efst á blaði. Ef nú hins vegar frv. verður felt í hv. Ed., þá sje jeg ekki, að í till. felist nokkuð fram yfir það, sem felst í þál., sem samþykt var á þinginu 1919.

Hygg jeg, að í þeirri þál. felist næg heimild fyrir stjórnina í þá átt að ná eignaryfirráðum á Sogsfossunum. Jeg legg því til, að hv. flutningsmenn taki till. aftur, þar sem hún er algerlega óþörf, og sjái svo, hvernig fer um frv.